Fréttir

16.4.2012

Fyrirlestur | Eyðibýli á ÍslandiMiðvikudaginn 18. apríl verður hádegisfyrirlestur í Hönnunar-og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands um verkefnið Eyðibýli á Íslandi sem er rannsókn á eyðibýlum og yfirgefnum húsum í Austur- Skaftafellssýslu, Vestur- Skaftafellssýslu og Rangárvallarsýslu sumarið 2011. Fyrirlesturinn verður í Skipholti 1, stofu 113 og byrjar kl. 12:00.

Á fyrirlestrinum verður verkefnið kynnt en markmið þess er meðal annars að rannsaka og meta menningarlegt mikilvægi eyðibýla og yfirgefinna húsa á Íslandi. Rannsóknin byggist á vettvangsferðum, heimildaöflun, úrvinnslu gagna, kynningu og útgáfu. Menningarlegt vægi verkefnisins felst ekki síst í því að safna saman upplýsingum um eyðibýli og yfirgefin hús, skrásetja þau og skoða varðveislu- og nýtingarmöguleika þeirra. Nýsköpunargildi verkefnisins liggur meðal annars í varðveislu gamalla húsa, frekari rannsóknum á þeim, uppgerð þeirra og að koma þeim aftur í not, til dæmis með því að nýta þau í ferðaþjónustu og að gefa ferðamönnum kost á að dvelja í uppgerðu yfirgefnu húsi.

Sigbjörn Kjartansson arkitekt, Gísli Sverrir Árnason menningarráðgjafi og Steinunn Eik Egilsdóttir BA í arkitektúr kynna verkefnið.

Fyrirlesturinn er ókeypis og eru allir velkomnir.
Yfirliteldri fréttir