Fréttir

12.12.2012

Fyrsti kaupandinn á DesignMatch staðfestur

 

One Nordic Furniture Company er nýtt fyrirtæki á sviði húsgagnaframleiðslu og dreifingar. Vörulína þess er hönnuð af fremstu norrænu hönnuðum samtímans og hefur gæði og sanngjarna verðlagningu að leiðarljósi.

One Nordic Furniture Company býður upp á nýjar vörur frá öllum Norðurlöndunum en fyrirtækið kom fyrst fram á sjónarsviðið á hönnunarvikunni í Stokkhólmi í febrúar 2012. Það er með höfuðstöðvar sínar í Helsinki en hið margverðlaunaða sænska hönnunarfyrirtæki Form Us With Love hefur listræna stjórn með fyrirtækinu.

Í fyrstu línu fyrirtækisins, Bento, sem inniheldur stóla og þrjú borð úr viði, er unnið með staðalmyndir í sígildri norrænni hönnun. Nýjasta vara One Nordic Furniture Company – Verso, hilla eftir Finnann Mikko Halonen, er í raun stigi fyrir bækur og tímarit.

Fyrirtækið leggur sérstaka áherslu á markaðssetningu á vefnum og þeirra þæginda sem fylgja flatpakkningum og diy. Viðskiptavinir geta því sinnt innkaupum og fegrun heimilisins á hvaða tíma sólarhringsins sem er.

Í HönnunarMars stendur Hönnunarmiðstöð fyrir kaupstefnunni DesignMatch í samstarfi við Norræna húsið. Þetta er í þriðja skiptið sem verkefninu er hleypt af stokkunum en það hefur mælst vel fyrir meðal hönnuða og þeirra fyrirtækja sem þátt hafa tekið.

Á DesignMatch gefst Íslenskum hönnuðum tækifæri á að hitta norræna kaupendur, framleiðendur og seljendur hönnunar í þeim tilgangi að kynna fyrir þeim verk sín. Markmiðið er að skapa íslenskri hönnun brautargengi á einum mikilvægasta markaði Íslands, Norðurlöndunum. Verkefnið hefur skilað meiri árangri en bjartsýnust menn þorðu að vona. Fjöldi samninga hafa verið undirritaðir á milli hönnuða og fyrirtækja sem hafa komið til landsins í tengslum við Design Match, t.d. mætti nefna borðið Fákar eftir Chuck Mack.

DesignMatch fer fram í Norræna húsinu föstudaginn 15. mars en HönnunarMars er á dagskrá 14. - 17. mars.

Næsti Hönnuðir hittast verður haldinn þann 9. janúar kl. 17:30-19 á Bergson Mathúsi en á þeim fundi verður megináhersla lögð á undirbúning fyrir DesignMath.
Yfirliteldri fréttir