Fréttir

18.10.2017

Nýr skrifstofustjóri Hönnunarmiðstöðvar ráðinn


Hönnunarmiðstöð Íslands við Aðalstræti 2, 101 Reykjavík.

Gunnar Gunnsteinsson hefur verið ráðinn sem skrifstofustjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands.


Gunnar hefur fjölþætta menntun sem mun nýtast í þessu nýja starfi hjá Hönnunarmiðstöð. Hann er með MA í Menningar- og menntastjórnun frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst auk Markaðs- og útflutningsfræða við Endurmenntun Háskóla Íslands. Hann er útskrifaður sem leikari frá Leiklistarskóla Íslands en sá grunnur nýtist sannarlega þegar frumkvæði og skapandi hugsun er nauðsynleg í að leita nýrra leiða við úrlausn verkefna.

Reynsla Gunnars af rekstri og stjórnun innan skapandi greina er margþætt og umtalsverð en lengst af starfaði hann sem framkvæmdastjóri Bandalag Sjálfstæðu leikhúsanna og Tjarnarbíós. 

Hann hefur staðið fyrir stefnumótunarvinnu, eflt alþjóðlegt tengslanet ásamt því að skapa tækifæri í gegnum alþjóðlega sjóði sem skila auknum fjármunum til starfseminnar en Gunnar hefur m.a. setið í úthlutunarnefnd Nordic Culture Point


Gunnar Gunnsteinsson, nýr skrifstofustjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

Starf Gunnars verður fyrst og fremst í að sjá um rekstur skrifstofu, fjármál, bókhald, reikningaútskrift, umsjón með áskrifta- og félagalistum auk skjalavinnslu ásamt því að taka þátt í ýmsum sérverkefnum sem tengjast fjölbreyttum verkefnum Hönnunarmiðstöðvar.

Hönnunarmiðstöð heldur HönnunarMars, gefur út HA tímarit um hönnun og arkitektúr, veitir Hönnunarverðlaun Íslands, stýrir Hönnunarsjóði, sinnir kynningarmálum, ráðgjöf og veitir upplýsingar stendur fyrr fyrirlestrum og málþingum og svo má lengi telja.

Við bjóðum Gunnar hjartanlega velkominn til starfa!


Yfirliteldri fréttir