Fréttir

26.10.2018

„Hvert stefnum við?“ – málþing í tengslum við Hönnunarverðlaun Íslands 2018Í tengslum við afhendingu Hönnunarverðlauna Íslands 2018, er boðið til málþings sem ber yfirskriftina „Hvert stefnum við? – málþing um hönnun í kvikum heimi“.


Áhersla verður á framtíðina og lykilorð nýrrar hönnunarstefnu fyrir Ísland sem nú er í lokamótun, þar sem áhersla er lögð á hönnun til verðmætasköpunar og betra samfélags. 10 ár eru nú liðin frá hruni og stofnun Hönnunarmiðstöðvar, sem fæddi meðal annars af sér HönnunarMars, fyrstu Hönnunarstefnu Íslands , HA - fyrsta hönnunarblaðið á Íslandi og sýningar erlendis á verkum hönnuða frá Íslandi.

Umræða og meðvitund um hönnun hefur stóraukist á þessu tímabili og það er því tímabært að meta stöðuna, horfa fram á veginn og rýna í tækifærin, með hlutverk og vægi hönnunar að sjónarmiði.

Erindin verða snörp og myndræn og velta upp vægi hönnunar / arkitektúrs í þróun og nýsköpun í atvinnulífi, samfélagi og menningu. Meðal þeirra sem flytja örerindi eru Ragna Margrét Guðmundsdóttir, Garðar Eyjólfsson, Hrólfur Karl Cela, Bergur Finnbogason og Halla Helgadóttir.

Gestir málþingsins munu fá innsýn inn í niðurstöður viðamikillar rannsóknar, Nordic Design Resource þar sem rýnt er í mannauð og það virði sem auðlindir hönnunar skapa á Norðurlöndum. Framtíðarsýn Paul Bennett, hönnunarstjóra IDEO hins framsækna alþjóðlega hönnunarfyrirtækis, mun veita innblástur í skarpar pallborðsumræður um framtíðina. Þór Sigfússon, stofnandi Sjávarklasans stýrir málþinginu og umræðum.

Í umræðum taka þátt Þórdís Kolbrún, ferðamála, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins, Ragna Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu og Guðmundur Hafsteinsson, formaður stýrihóps um nýsköpunarstefnu.


Málþingið fer fram í Veröld frá kl. 15:00-17:30, síðar sama dag verða Hönnunarverðlaun Íslands afhent á Kjarvalsstöðum.

Hönnunarverðlaun Íslands 2018 verða veitt á Kjarvalsstöðum að kvöldi sama dags. Húsið opnar kl. 20.00. Tilnefndum, verðlaunahöfum og 10 ára afmæli Hönnunarmiðstöðvar verður fagnað að lokinni afhendingu.

Hönnunarmiðstöð Íslands stendur að Hönnunarverðlaunum Íslands og málþingi tengt þeim í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Landsvirkjun, Samtök iðnaðarins og Íslandsstofu.Yfirliteldri fréttir