Fréttir

5.12.2018

Umfangsmikil norræn rannsókn á sviði hönnunarNiðurstöður einnar umfangsmestu rannsóknar á sviði hönnunar sem gerð hefur verið á Norðurlöndunum leiða í ljós að 2% af vinnuafli Norðurlanda starfa á sviði hönnunar. Ekki er hægt að líta á hönnun sem einn iðnað þar sem hönnun er aðferð sem á við í nær öllum atvinnugreinum. Í auknum mæli er litið á hönnun sem farveg vaxtar og drifkraft til nýsköpunar.

Á síðustu 10 árum hefur hönnun sem fag tekið miklum breytingum á Norðurlöndum sem og á alþjóðavettvangi. Hönnun er ekki einungis bundin við afurðir eða þjónustu heldur ferli og aðferðafræði sem getur leitt af sér ný kerfi eða viðskiptamódel, aukið verðmæti fyrirtækja og jafnvel verið tæki til að leysa sum af stærstu vandamálum jarðarinnar.

Nordic Design Resource er rannsókn sem framkvæmd var af Hönnunarmiðstöð Íslands og systurstofnunum á Norðurlöndunum í samstarfi við Nordic Innovation og danska markaðsrannsóknafyrirtækið Seismonaut. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar hafa nú verið birtar á vefnum nordicdesignresource.com þar sem hægt er að nálgast kortlagningu norrænna hönnunarauðlinda.

Markmið rannsóknarinnar er að varpa nýju ljósi á hönnuði og þá sem starfa á sviði hönnunar, hvaða hæfni býr það fólk yfir? Hvar vinnur það og hvert er hlutverk þess í nútíma samfélagi. Rannsóknin markar upphaf kortlagningar norrænna hönnunarauðlinda sem færir okkur ekki aðeins góða yfirsýn yfir fag hönnunar á Norðurlöndunum heldur gefur okkur mikilvægt tækifæri til þess að fylgjast með þróun á þessu sviði á komandi árum.
 

Hönnun lykiltæki til framfara 21. aldarinnar?

Á síðustu árum höfum við séð aukningu á nýjum sviðum hönnunar en í dag starfa um það bil 40% hönnuða við greinar á borð við stafræna-, þjónustu- og upplifunarhönnun. Með aukinni eftirspurn á nýjum sviðum hönnunar þarf að huga vel að eflingu hönnunargreina, menntun og þekkingarsköpun svo hægt sé að mæta vexti komandi ára.

Hingað til höfum við ekki átt svo umfangsmikið og heildstætt yfirlit yfir hönnunarfög á Norðurlöndum og þess vegna verið erfitt að meta hvort við séum að mæta vaxandi eftirspurn í síbreytilegu umhverfi atvinnulífsins á tímum stafrænnar þróunar, tækniframfara og hnattvæðingar.

Á komandi vikum munum við birta greinar um stöðu mála á Íslandi þegar kemur að framþróun og nýtingu hönnunarauðlinda og förum yfir þær árskoranir og tækifæri sem við stöndum frammi fyrir á komandi árum. 

Öll gögn, bæði samnorræn og fyrir hvert land, má finna hér:  Nordicdesignresource.com


Yfirliteldri fréttir