Fréttir

14.3.2019

Eitt stykki hönnun, takk - heimildaþættir um hönnun og HönnunarMars frumsýndir á Rúv í kvöld.
Kolbrún Vaka Helgadóttir frumsýnir þættina Eitt stykki hönnun, takk á RÚV í kvöld. Um er að ræða heimildaþætti í þremur hlutum sem fjalla um hönnun á Íslandi og HönnunarMars hátíðina, en hönnuðir og arkitektar marseruðu um Reykjavíkurborg í 10. sinn árið 2018.
 
Kolbrún Vaka, sem er spyrill, meðframleiðandi og hugmyndasmiður þáttanna, fékk styrk úr Hönnunarsjóði við gerð þessara þriggja þátta seríu þar sem hún beinir sjónum sínum að lífi og starfi nútíma hönnuða og kafar ofaní HönnunarMars, þessa fjörugu hátíð sem yfirtekur höfuðborgina á hverju ári í mars. Leikstjóri er Janus Bragi Jakobsson.

Meðal þeirra hönnuða koma fram í seríunni eru þær Kristín Karlsdóttir og Valdís Steinarsdóttir hjá Studio Trippin, Búi Bjarmar og verkefni hans Stússað í steininum, Róshildur Jónsdóttir og Snæbjörn Stefánsson auk þess sem skyggnst er ofan í hönnunarhátíðina HönnunarMars. Fyrsti þáttur er á dagskrá í kvöld kl. 20.30 á RÚV og verða næstu tvo fimmtudaga á sama tíma þar eftir. Þess má geta að Kolbrún Vaka er í viðtali um gerð þáttana í sérútgáfu HA tímaritsins fyrir HönnunarMars sem kemur út viku fyrir hátíðina. Fylgstu með!
Úr þáttunum - Snæbjörn Stefánsson og Róshildur Jónsdóttir.

Yfirliteldri fréttir