Fréttir

14.10.2019

Tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands 2019
Fimm fyrirtæki/vörumerki hljóta tilnefningu til Hönnunarverðlauna Íslands 2019.

Um er að ræða forval dómnefndar sem í ár er skipuð þeim Guðrúnu Lilju Gunnlaugsdóttur, formanni dómnefndar, Herði Lárussyni, Sigrúnu Birgisdóttur, Sigrúnu Höllu Unnarsdóttur, Eddu Björk Ragnarsdóttur og Daniel Golling.
 
Fjölbreytt verkefni og vörur urðu fyrir valinu í ár sem öll eiga það sameiginlegt að vera drifin áfram með góða hönnun í forgrunni.
 

Hönnunarverðlaun Íslands 2019 og málþing þeim tengt fer fram 14. nóvember næstkomandi. Nánari upplýsingar verða veittar síðar. Þar verða einnig veitt viðurkenning fyrir Bestu fjárfestingu í hönnun 2019.
 
Hér eru tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands 2019:


Wave - Genki Instruments

Wave hringurinn eftir Genki Instruments er hannaður til að auka upplifun og túlkun í tónlist. Hringurinn er framsækin tæknilausn sem eykur möguleika tónlistamannatil sköpunar á þægilegan og notendavænan hátt. Genki Instruments er framsækið og hönnunardrifið tónlistartæknifyrirtæki þar sem hönnun, tækni,verkfræði, og tónlist renna saman í eitt. Wave er einstakt dæmi um hugmynd frumkvöðlafyrirtækis þar sem rannsókn, þróun og prófanir í gegnum allt hönnunarferlið skilar algerlega nýrri upplifun til notenda og hefur hlotið lof víða um heim.


Lauf – True grit

True Grit er nýtt malarhjól sem byggir á hönnun Lauf Forks á léttasta hágæða demparagaffli í heimi. Lauf kom fyrst á markað með Lauf Forks, gaffallinn sem hefur rutt brautina fyrir hönnun reiðhjóla undir vörumerki Lauf, True Grit sem eru eðlilegt framhald af þróun Lauf Forks. Hjólið er frábært dæmi um hönnun, nýsköpun og vöruþróun en uppfinningar vörumerkisins eru nú í alþjóðlegu einkaleyfaferli. True Grit hefur vakið athygli keppnisfólks í hjólreiðum um allan heim og helstu net- og prentmiðlar í hjólaheiminum hafa síðustu ár lofað gaffalinn og nú hjólið.


HEIMA - Búi Bjarmar og UNICEF

HEIMA er áhugavert hönnunarverkefni sem skoðar móttöku flóttabarnabarna í leit að alþjóðlegri vernd frá sjónarhóli barnanna. Í verkefninu rýnaBúi Bjarmar Aðalsteinsson, hönnuður og UNICEF hvernig staðið er að móttöku fylgdarlausra flóttabarna, sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi, með notenda- og mannmiðaða hönnun og velferð barnanna að leiðarljósi. HEIMA er frábært dæmium hvernig hægt er að beita aðferðafræði hönnunar til að bæta upplifun notenda og einfalda ferla í opinberri þjónustu. Vinnuferlið og niðurstöður verkefnisins er aðgengilegt hér.


Listasafnið á Akureyri - Kurt og Pí

Með hönnun nýrrar viðbyggingar við Listasafnið á Akureyri hefur orðið til nýtt kennileiti í borgarlandslagi Akureyrar. Ný viðbygging og endurhönnun sögulegs iðnaðarhúsnæðis í Gilinu blæs nýju lífi í eldri byggingarnar og tengir saman ólík rými með umferðarás sem býr til ný sjónræn tengsl milli hins náttúrulega og byggða landslags. Sýningarrýmin eru fjölbreytileg, hönnun og arkitektúr eru framkvæmd af nákvæmni og fágun sem endurspeglast í stóru og smáu.


Endurmörkun Þjóðminjasafnið - Jónsson & Le’macks

Hönnun og endurmörkun Þjóðminjasafns Íslands er einföld og látlaus en um leið glæsileg lausn á heildarásýnd stofnunar sem snertir alla landsmenn. Hönnun nýs einkennis safnsins endurvekur áhuga gesta á spennandi og nútímalegu safni og minnir okkur á þær gersemar sem safnkosturinn hefur að geyma. Í hönnuninni er unnið með fjórar ólíkar leturgerðir sem er hægt að rekja allt aftur til 9. aldar og litir sóttir úr handverki þjóðarinnar. Einkennið er innblásið af sögu þjóðarinnar og hlutum úr safnkosti því ásamt letri og grafískum lausnum eru ljósmyndir af gullmolum úr vörslu safnsins sýndar og til verður forvitnilegur heimur sem er freistandi að skoða nánar.

Hönnunarmiðstöð Íslands skipuleggur Hönnunarverðlaun Íslands og er stofnandi ásamt Listaháskóla Íslands og Hönnunarsafni Íslands. Samstarfs- og stuðningaðilar verðlaunanna eru Landsvirkjun og Samtök Iðnaðarins.
Yfirliteldri fréttir