Fréttir

27.11.2019

Hönnunarsjóður og Icelandic Startups undirrita samstarfssamning um ráðgjöf til styrkþega sjóðsinsBirna Bragadóttir, formaður stjórnar Hönnunarsjóðs og Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups, undirrita samninginn.  Mynd/Víðir Björnsson.

Um að er ræða samkomulag milli Hönnunarmiðstöðvar og Icelandic Startups vegna samstarfs um ráðgjöf til styrkþega Hönnunarsjóðs og fulltrúa þeirra verkefna sem hljóta styrki úr sjóðnum. Hönnunarsjóður veitir um það bil 20 verkefnum styrk í tveimur úthlutunum eða samtals hljóta um 40 verkefni styrki á ári.

Markmið samstarfsins er að efla ráðgjöf við styrkþega sjóðsins í samræmi við markmið hans. Hönnunarmiðstöð heldur utan um umsýslu sjóðsins.

Við erum mjög spennt fyrir þessu samstarfi og teljum að mikið tækifæri felist í því fyrir styrkþega Hönnunarsjóðs að fá ráðgjöf og aðstoð frá teymi Icelandic Startups sem hefur mikla þekkingu og reynslu í því að greiða leiðir nýskapandi fyrirtækja og frumkvöðla. Einnig er þetta mikilvægt skref í því að efla samstarf á milli Hönnunarmiðstöðvar Íslands og Icelandic Startups. Hönnun er lykilþáttur í nýsköpun, þróun sem getur haft afgerandi áhrif á samkeppnisstöðu fyrirtækja.“ segir Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðtöðvar Íslands.

Icelandic Startups og Hönnunarmiðstöð munu bjóða styrkþegum upp á ráðgjöf eftir úthlutun, um er að ræða vinnusmiðjur þar sem verður yfir mótun viðskiptahugmynda og fundi með mentorum. Icelandic Startups mun einnig vinna með Hönnunarmiðstöð að því að kortleggja og byggja upp tengslanet mentora með það fyrir augun að styrkja undirstöður þeirra verkefna sem fá úthlutað styrkjum úr Hönnunarsjóði.

„Það er mikil verðmætasköpun fólgin í því að tengja hönnun enn frekar við umhverfi nýsköpunar, viðskipta og tækni. Við sjáum fjölmarga snertifleti á frekara samstarfi við Hönnunarmiðstöð og er þetta einn liður á þeirri vegferð," segir Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups.

Hlutverk Hönnunarsjóðs er að efla þekkingu og atvinnu- og verðmætasköpun á sviði hönnunar og arkitektúrs með fjárhagslegum stuðningi og ráðgjöf. Einnig að styrkja kynningar- og markaðsstarf erlendis sem stuðlar að útflutningi á íslenskri hönnun. Sjóðurinn veitir; Þróunar- og rannsóknarstyrki // Verkefnastyrki // Markaðs- og kynningarstyrki // Ferðastyrki.

Nánari upplýsingar og dagsetningar Hönnunarsjóðs fyrir 2020 má finna á heimasíðu sjóðsins hér.
Yfirliteldri fréttir