HönnunarMars 2009Hönnunarmiðstöð stóð í fyrsta sinn í vor fyrir hönnunardögum undir heitinu HönnunarMars. Dagskrá fyrsta HönnunarMarsins var glæsileg og voru yfir 130 viðburðir í boði af eins fjölbreyttum toga og víðfeðmi hönnunar gefur tilefni til. Við leyfum myndunum hér að neðan að tala sínu máli og hlökkum til HönnunarMars að ári sem haldinn verður dagana 18. - 21. mars 2010.


Mikil stemning og fjölmenni var í opnunarteiti HönnunarMarsins

   
 
 
   


Verðlaun voru afhent i Hönnunarsamkeppninni Hönnun í anda Erró sem Listasafn Reykjavíkur, Verslunin Kraum og Hönnunarmiðstöð stóðu fyrir. Borgarstjórinn í Reykjavík, Hanna Birna Kristjánsdóttir afhenti hönnuðinum Ingibjörgu Hönnu Bjarnadóttur verðlaun fyrir bestu tillöguna við skemmtilega athöfn í Hafnarhúsi Listasafns Reykjavíkur í HönnunarMars.

   
   
   


Fatahönnuðurinn MUNDI kynnti haust- og vetrarlínu sína fyrir fullu húsi í Hafnarhúsinu.

   
   
   


Kynning vegna útgáfu nýrrar
íslenskrar Sjónabókar fór fram í Þjóðminjasafninu í HönnunarMars. Bókinni er ætlað að blása nýju lífi í þennan auðuga formheim sem gömlu sjónabækurnar geyma. Á sýningunni í Þjóðminjasafni Íslands gefst gestum tækifæri til að skoða bókina og vinnuna á bak við útgáfuna sem og upprunalegu sjónabækurnar. Birna Geirfinnsdóttir grafískur hönnuður er aðalhönnuður bókarinnar.

   
   


Fyrirlestraröð Hönnunarmiðstöðvar og Morgunblaðsins í HönnunarMars fór fram á Háskólatorgi og í Þjóðminjasafni Íslands við miklar undirtektir. Fremstu hönnuðir okkar Íslendinga auk arkitektsins Bjarke Ingels frá BIG og Paul Bennett frá IDEO, veittu áheyrendum innblástur.

   
   
   
   
   
   
   
   
   
   
   


Borðið, Leir 7 og matreiðslumeistarinn Friðrik V buðu til veislu þar sem
Hinn íslenski leirpottur var vígður við hátíðlega athöfn í HönnunarMars.
Hinn íslenski leirpottur er samstarfsverkefni Borðsins hönnunarfyrirtæki Brynhildar Pálsdóttur og Guðfinnu Mjallar Magnúsdóttur og Leirverksmiðjunnar Leir 7 á Stykkishólmi sem er í eigu Sigríðar Erlu Guðmundsdóttur. Leirpotturinn er unninn úr íslenskum leir frá Fagradal.


   
   
   

 
 


30 vöruhönnuðir glæddu tóm rými nýju lífi í HönnunarMars með innsetningum á Laugaveginum og teygðu anga sína inn í verslanir í Bankastræti.


 
   
   
   
 
   
 
   
   


Í samvinnu við Ráðuneytið og Listaháskóla Íslands efndi Hönnunarmiðstöð til Pecha Kucha kvölds í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi. Þessi nýstárlega aðferð byggir á knöppum og fjölbreyttum fyrirlestrum.


 
 

 
   
   


Fatahönnunarfélag Íslands í samstarfi við Nordic Fashion Biennale bauð upp á tískuveislu í Norræna húsinu i HönnunarMars. Íslenskir fatahönnuðir sýndu nýjustu strauma í fatatísku næsta vetrar 2009-2010 og Norræna husið iðaði af lifi.

   
   
   


Hönnunarmiðstöð stóð í fyrsta sinn í ár fyrir hönnunardögum undir heitinu HönnunarMars sem mun verða árlegur viðburður. Dagskrá fyrsta HönnunarMarsins var glæsileg og voru yfir 150 viðburðir í boði af eins fjölbreyttum toga og víðfeðmi hönnunar gefur tilefni til.

Íslensk hönnun hverskonar hefur verið í deiglunni að undanförnu. Og skal engan undra enda vekja íslenskir hönnuðir sífellt meiri athygli, bæði hér heima sem og á erlendri grundu. HönnunarMars er ætlað að vekja athygli á íslenskum hönnuðum og hönnun þeirra hjá almenningi, fjölmiðlum og stjórnvöldum. 

Sérstök áhersla var lögð á að bærinn myndi lifna við og að hönnun væri við hvert fótmál. Tóm verslunarrými voru fyllt af íslenskri hönnun, kaffihús flögguðu íslenskum bollum og diskum og glæsilegar sýningar og innsetningar voru settar upp um allan bæ. Ekki má gleyma verslunum í öðrum bæjarhlutum, sýningum og vinnustofum sem opnuðu dyr sínar fyrir gestum.

Auk þess var að finna í HönnunarMars glæsilega fyrirlestraröð, málþing, kvikmyndasýningar og nýstárlegar skoðunarferðir um borgina með leiðsögn arkitekta.