Fyrirlestradagur Hönnunarmiðstöðvar í HönnunarMars


DREGUR TIL TÍÐINDA

Hlutverk hönnuða | Fyrirlestradagur Hönnunarmiðstöðvar


Fyrirlestradagskrá og umræður 22. mars 2012 kl. 10:00 - 15:30.
Gamla Bíó, Ingólfsstræti 2a.


Fjórir framsæknir hönnuðir stíga á svið á fyrirlestradegi Hönnunarmiðstöðvar, 22. mars, en sá dagur er einnig opnunardagur HönnunarMars. Þema fyrirlestradagsins er samstarf þvert á greinar - mikilvægi þess að sækja sér þekkingu úr ólíkum áttum og deila sérþekkingu milli fagsviða.

Í ár koma fram:

Marije Vogelzang

Tuomas Toivonen

Koert van Mensvoort

Hjalti Karlsson

Marije Vogelzang
, frumkvöðull á sviði matarhönnunar. Vogelzang leitar hugmynda í siðum, sögu, menningu og uppruna matvæla en hún stofnaði og hannaði m.a. tilraunakenndu veitingastaðina PROEF í Rotterdam og Amsterdam. Að sögn Marije er matur fullkomlega hannaður frá náttúrunnar hendi og hún hefur hannað hugmyndafræði fyrir þá sem vilja gera tilraunir tengdar matarupplifun.

Tuomas Toivonen, arkitekt og tónlistarmaður. Toivonen var upphaflega þekktur sem tónlistamaður og gaf út nokkrar plötur en hefur undanfarin ár sameinað starfssvið sín, arkitektrúinn og tónlistina og notið mikillar athygli. Toivonen stendur nú fyrir opnun fyrstu almenningssaununnar í Helsinki um langt árabil. Markmiðið er að skapa stað fyrir samveru á grundvelli baðmenningar í borginni.

Koert van Mensvoort, vísindamaður og listamaður hjá NextNature.net. Fátt er Koert van Mensvoort óviðkomandi, hann er dr. í heimspeki og tekst á við áskoranir breyttra tíma, samspil manns, náttúru og tækni. Koert lýsir sjálfum sér sem homo universales og segir kynni sín og starf í Next Nature mögnuðustu reynslu lífs síns.

Hjalti Karlsson, grafískur hönnuður. Hjalti stofnaði hönnunarstúdióið Karlssonwilker í New York ásamt Jan Wilker árið 2000, en þeir félagar höfðu áður unnið saman hjá Stefan Sagmeister. Meðal viðskiptavina þeirra má nefna Vitra, MoMA og New York Times Magazine. Hjalti flutti til Bandaríkjanna eftir að hafa fengið vinning á happaþrennu og ákvað í kjölfarið að læra þar og setjast að.

Kynnir og stjórnandi Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor við LHÍ

Fyrirlestradagurinn er unnin í samstarfi við Vík Prjónsdóttur og Garðar Eyjólfsson hönnuð.


Undanfarin ár hafa nokkrir áhugaverðustu hugsuðir hönnunarheimsins veitt áheyrendum á HönnunarMars innblástur, þar má nefna: Winy Maas, Ilkka Suppanen, Sigga Eggertsson, Bjarke Ingels og Paul Bennett.
Fullt var út úr dyrum á fyrirlestradegi HönnunarMars í fyrra þar sem hlutverk hönnuða á tímum breytinga var efst á baugi.

Í boði verða léttar og litríkar veitingar frá Happ.

Aðgangseyrir er 3900 kr. og fer miðasala fram á midi.is.

Fyrirlestradagurinn er hluti af dagskrá World Design Capital Helsinki 2012.

Fyrirlestradagurinn er haldinn í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Íslandsstofu.