Um íslenska hönnun og arktitektúrÁ Íslandi starfa um 1500 vel menntaðir hönnuðir og arkitektar, sem hafa stundað nám bæði hér og erlendis. Það er mjög mikilvægt fyrir íslenskt þjóðfélag að nýta þekkingu, menntun og hæfileika þessa fólks okkur til framdráttar. Hönnun tengist allri atvinnustarfsemi, svo sem byggingariðnaði, framleiðsluiðnaði, sjávarútvegi, ferðamannaiðnaði, matvælaiðnaði, þjónustu og þekkingariðnaði. Hönnun nýtist ekki aðeins innlendri framleiðslu heldur er einnig hægt að flytja hana út í formi vöru og hugvits.

Hönnun er auðlind sem mikilvægt er að nýta nú þegar íslenskt atvinnulíf stendur á krossgötum nýrra leiða og tækifæra. Hönnun snertir öll svið samfélagsins hvort sem um er að ræða þróun samfélagsins sjálfs, þróun efnhagslífsins, þróun hugmynda, verkefna, vöru, þjónustu, ferla eða viðburða. Hönnun á erindi inn í fyrirtæki, stofnanir, heimili og ekki síður í stjórnsýslu og stjórnmál. Með því að virkja þekkingu og aðferðafræði hönnuða getum við haft afar jákvæð áhrif á það hvernig þjóðfélagið þróast og hver lífsgæði okkar verða í framtíðinni.

Skapandi greinar eru sá vettvangur sem flestar þjóðir horfa á sem helsta vaxtarbrodd næsta áratugar. Umræddar þjóðir leggja megináherslu á hönnun og telja góða hönnun eitt sterkasta vopnið í harðnandi samkeppni. Rannsóknir staðfesta að hönnun er sá þáttur sem skilar mestri arðsemi enda er kostnaður við hana hlutfallslega lítill í samanburði við aðra framleiðsluþætti.