Origins — In Search of Porcelain

Töfrandi umbreyting efnis

Íslenskt grjót hefur nú fengið nýtt hlutverk í verkefninu Leit að postulíni. Hráefninu er umbreytt og tilgangurinn er að nýta það sem til er í nærumhverfinu og tengjast því á nýjan leik.

„Á tímum þar sem fjöldaframleiddir hlutir flæða um samfélagið, oftast án nokkurrar tengingar við uppruna sinn eða hinn náttúrulega efnisheim, verður sífellt þýðingarmeira að líta til nærumhverfisins,“ segir Brynhildur Pálsdóttir vöruhönnuður en hún hefur undanfarið unnið að verkefninu Leit að postulíni í samstarfi við Ólöfu Erlu Bjarnadóttur keramiker og Snæbjörn Guðmundsson jarðfræðing. Verkefnið er þverfaglegt samstarf og markmiðið með því er að kanna þá möguleika sem felast í nýtingu íslenskra jarðefna til að búa til postulín.

„Íslenskt berg er að mörgu leyti sérstakt vegna þess hve landið er ungt í samanburði við meginlöndin,“ segir Brynhildur og bætir við að það sé afleiðing af stöðu Íslands á flekaskilunum. Elsta bergið finnst á Vestfjörðum og Austurlandi og þangað sóttu þau að mestu hráefnin í postulínið, svo sem granít af Suðausturlandi og hvítan kaólínleir frá Ströndum.

Brynhildur segir að verkefnið sé marglaga að því leyti að í því felist sjálf leitin að hráefnunum en einnig þróun vinnsluaðferða og rannsóknir; að kanna hvað sé mögulegt. Hún bendir á að margir velti aldrei fyrir sér uppruna hlutanna eða hvaðan hráefnin koma. „Það er hollt fyrir okkur á Íslandi að tengjast aftur efnunum í kringum okkur. Að gera sér grein fyrir því að þau eiga sér uppruna og rætur í náttúrunni,“ segir hún.

Stór hluti af ferlinu er að skoða samband manns og náttúru og hráefnin eru sótt í náttúruna, jafnvel á fæti um langan veg. Eftir það tekur við langt umbreytingarferli; að mala efnin, hreinsa þau og sigta áður en þau eru steypt og brennd. „Það er magnað að horfa á grjót og sjá það umbreytast í steyptan hlut. Það eru töfrar,“ segir Brynhildur og bætir við: „Raunveruleikinn liggur í náttúrunni, öll efni koma upphaflega þaðan.“

relateditems

Texti
Bára Huld Beck and María Kristín Jónsdóttir
Ljósmyndir
Ragna Margrét Guðmundsdóttir

Tögg

  • HA
  • HA06
  • Articles
  • Product design