Textílfélagið

Tilgangur félagsins er að gæta hagsmuna félagsmanna og bæta kjör þeirra. Ennfremur að leitast við að efla og styrkja atvinnugrein þeirra á hvern þann hátt sem við verður komið.

Rætur þráðlistar liggja djúpt í íslenskri menningu. Öld fram af öld hafa Íslendingar unnið með þráð og voð. Tímarnir hafa breyst frá því að lífsnauðsynlegt var að kunna til verka við þráðagerð, vefnað og prjón. Handverkið hefur þó lifað með þjóðinni og í dag eru það einkum konur sem vinna myndverk sem byggja á handverkshefðinni. Enn spinna þær þráð og vinna hann í prjóni, útsaumi og vefnaði. Það var neyðin sem kenndi naktri konu að spinna fyrr á öldum en í dag er það forvitnin, þekkingarþorstinn og sköpunarþörfin sem hvetur þær áfram.

Í nóvember árið 1974 var Textílfélagið stofnað af nemendum og kennurum textíldeildar Myndlista- og handíðaskólans ásamt starfandi textíllistamönnum. Upphaf þess var að árið 1970 hafði textíldeild verið stofnuð við Myndlista- og handíðaskóla Íslands af þáverandi skólastjóra Herði Ágústssyni. Þaðan brautskráðust ár hvert nokkrir nemendur svo fljótlega varð ljóst að sameining þessa hóps í eitt félag yrði til hagsbóta. Eitt af aðalmarkmiðum félagsins hefur ávallt verið að gæta hagsmuna félagsmanna sinna og kynna list þeirra á innlendum og erlendum vettvangi.

Sama ár varð Norræni textíltriennalen að veruleika og fyrsta sýning hans opnuð á Norðurlöndunum. Textílfélagið var aðili að þessu framtaki frá upphafi og tók virkan þátt í að móta og koma þessari stóru samnorrænu sýningu á fót sem var bæði gjöfult og skemmtilegt fyrir félagsmenn. Árið 1989 tók Norræna listamiðstöðin í Sveaborg í Finnlandi við undirbúningi sýningarinnar en eftir það urðu þær því miður einungis þrjár, sú síðasta 1995.

Textílfélagið hefur haldið stórar samsýningar á fimm ára fresti og einnig hafa minni hópar innan félagsins staðið saman að sýningum. Félagar hafa farið ýmsar leiðir í listsköpun; ofið, prjónað, saumað, þrykkt, þæft, unnið pappír, hannað fatnað og annan textíl. Þeir hafa ávallt verið opnir fyrir nýjum straumum erlendis frá sem þeir hafa aðlagað að íslenskum aðstæðum og veruleika. Því til sönnunar er hin mikla gróska og fjölbreytni í hönnun og frjálsri myndlist, svo og þátttaka félaga í stórum alþjóðlegum sýningum þar sem þeir hafa fengið ýmsar viðurkenningar og unnið til verðlauna fyrir listsköpun sína (sjá eldri fréttir). Einnig má nefna hina stóru og viðamiklu sýningu Textíllist 2004 eða Northern Fibre V sem haldin var á Kjarvalsstöðum en sýningarnefnd og stjórn Textílfélagsins báru hitann og þungann af undirbúningi hennar. Í Gerðarsafni í janúar 2009 var fjölbreytt og yfirgripsmikil sýning, Þverskuður, sem félaginu bauðst að setja upp. Sýningin var þríðskipt, verk heiðurfélaga Textílfélagsins, verk nokkurra brautryðjenda í íslenskri textíllist og samsýning valinna verka félagskvenna úr samtímanum. Var gerður einstaklega góður rómur að sýningunni og hlaut hún bæði jákvæða umfjöllun og valdi mikla eftirtekt.

Árið 2005 fékk Hrafnhildur Sigurðardóttir Norrænu textílverðlaunin og er það í fyrsta skipti sem íslenskur textíllistamaður hlýtur norræna viðurkenningu og árið eftir var Sjónlistarorðunni úthlutað í fyrsta skipti í myndlist sem Hildur Bjarnadóttir hlaut og var það mikill heiður fyrir textílmyndlist í landinu. Þá var Hólmfríður Árnadóttir, heiðursfélagi í Textílfélaginu, sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu 17. júní 2009.

Árið 2006 sameinaðist fjöldi stórhuga textíllistamanna  frá öllum Norðurlöndum og stofnuðu félag sem ber heitið NTA – Norrænt félag textíllistamanna  (www.nordictextileart.net). Aðalmarkmið þess er að gera textíllistina sýnilegri, skipuleggja námskeið og sýningar. Sýningar hafa verið á þess vegum þar sem félagar voru meðal sýnenda og áttu drjúgan þátt í öllum undirbúningi. 

Framtíðin er spennandi og möguleikar miklir. Í maí 2009 var opnað textílverkstæði fyrir félagsmenn á Korpúlfsstöðum og þar er fyrirtaks aðstaða fyrir ýmiskonar vinnu í björtu og glæsilegur rými á besta stað í húsinu. Félagar hafa einnig kost á því að leiga lokuð vinnurými með aðgengi að sameiginlegu verkstæði. Sjá nánar á facebook (Textílverkstæðið Korpa).

Textílfélagið er eitt af aðildarfélögum Sambands íslanskra myndlistarmanna og Hönnunarmiðstöðvar Íslands

Félagar eru nú um 100 talsins og þar af fjórir heiðursfélagar.

Textílverkstæðið KORPA

Textílfélagið rekur verkstæði að Korpúlfsstöðum.
Verkstæðisnefnd:
Ýr Jóhannsdóttir, yr@yrurari.com
Lilý Erla Adamsdóttir, lilyadamsdottir@gmail.com
Ragnheiður Guðmundsdóttir, ragnheidur@ragnheidurart.is

Textílverkstæðið Korpa á feisbúkk: