Miðstöð hönnunar og arkitektúrs er í samstarfi við ólíka opinbera aðila og fyrirtæki þegar kemur að samkeppnum af fjölbreyttum toga. Samstarf við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs tryggir fagmennsku, gæði og þátttöku íslenskra hönnuða.

Hönnunarsamkeppnir laða til sín góðar tillögur og virkja faghópa þvert á greinar til þátttöku, skapa umræður og vekja athygli á verkefninu og skipuleggjanda samkeppninnar. 

Mikilvægt er að verkefnið sjálft sé vel skilgreint og markmiðin skýr.

Góð keppnislýsing leiðir til betri niðurstöðu og fleiri innsendinga, enda geta skipuleggjandi keppni og þátttakendur ekki skipst beint á skoðunum um hugmyndir og markmið eins og þegar leitað er til ákveðins hönnuðar eða hönnuða. Fjöldi keppenda og hæfni fer eftir aðstæðum á hverjum tíma, þema keppninnar og ekki síst verðlaununum sem í boði eru. Þó því fylgi kostnaður og vinna að skipuleggja og halda hönnunarsamkeppni, er afraksturinn yfirleitt mjög góður þegar vel er að verki staðið.