Sigra í hugmyndasamkeppni um hönnun og skipulag á Langasandssvæðinu á Akranesi

28. september 2021

Landmótun og Sei Stúdíó sigra í hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Langasandssvæðisins Akranesi. Akraneskaupstaður í samstarfi við FÍLA auglýsti eftir teymum til þátttöku og voru þrjú teymi valin að undangengnu forvali. Teymin sem voru valin eru Apríl Arkitekter, Kanon Arkitektar og Landmótun sf. ásamt Sei Stúdíó.

Markmiðið með samkeppninni var að fá hugmyndir um framtíðarskipulag svæðisins í heild sem tengir m.a. strandsvæði, skólasvæði, framtíðar uppbyggingarreit og hafnarsvæðið. Svæðið sem um ræðir nær frá Innnesvegi til norðausturs, Langasandi og Leyni til suðvesturs, norðvestur afmarkast svæðið við gatnamót Jaðarsbrautar og Faxabrautar, suðaustur af bæjarmörkum Akraneskaupstaðar. Svæðið er um 35 hektarar að stærð og er stór hluti svæðisins innan hverfisverndar í gildandi aðalskipulagi. Það nær yfir útivistarsvæði frá Leynisfjöru, Sólmundarhöfða, meðfram Langasandi að Faxabraut. Eftir svæðinu liggur strandstígur og á því er íþróttasvæðið að Jaðarsbökkum, íbúðabyggð á Sólmundarhöfða, hjúkrunar- og dvalarheimilið Höfði sem og fjölbýlishús við Garðabraut, Höfðabraut og Jaðarsbraut.

Virkt íbúasamráð
Strax í upphafi var leitast við að tryggja virkt samráð með íbúum á Akranesi. Í ljósi heimsfaraldurs var ekki hægt að vera með hefðbundna íbúafundi en þess í stað útbúin rafræn viðhorfskönnun um þarfir, upplifun og framtíðarsýn íbúa um svæðið. Fengu íbúar tækifæri að láta sínar skoðanir, þarfir og áherslur í ljós og voru niðurstöður könnunarinnar eitt af fylgigögnum við samkeppnislýsinguna.

Dómnefnd:
Ólafur Adolfsson aðalmaður í skipulags- og umhverfisráði
Halla Marta Árnadóttir skipulagsfulltrúi
Hermann Georg Gunnlaugsson fulltrúi FÍLA
Hildur GunnlaugsdóttIr arkitekt, FAÍ.
Verkefnastjóri samkeppninnar og ritari dómnefndar er Sædís Alexía Sigurmundsdóttir skrifstofustjóri
Trúnaðarmaður dómnefndar er Ólafur Melsted landslagsarkitekt FÍLA,

Eins og kom fram þá sigraði Landmótun og Sei Stúdíó með tillöguna Langisandur fyrir alla. Í umsögn dómnefndar um tillöguna kom eftirfarandi fram:

„Tillagan Langisandur fyrir alla er lágstemmd en full næmni sem dregur fram fegurð og notagildi svæðisins. Þá ber að nefna hvernig aðgengi að sandinum og sjónum er aukið á einstakan hátt með aðgengi fyrir alla í fyrirrúmi. Rampar liggja sitt hvort megin niður með grjótgarði og mætast á svæði með útisturtum og þaðan áfram með steyptri bryggju út í sjó. Annars vegar frá Jaðarsbraut úr vestri sem tengir þannig svæðið við Sementsreitinn og hinsvegar frá Akranesvelli og Aggatorgi úr austri. Þannig geta allir öðlast dýrmætt aðgengi að sjónum. Á milli Akraneshallarinnar og fótboltavallanna er síðan göngusvæði sem leiðir upp í hverfið fyrir ofan og þaðan með aflíðandi rampi niður að sjó, út að Merkjaklöpp, en slítur þó ekki gönguleið í gegnum svæðið þar sem hún fer yfir á göngubrú. Bátaleiga við rampinn er skemmtilega leyst undir torgsvæði í góðum tengslum við rampinn og sjóinn.Greining á náttúrulegum línum og hæðarlegu í Merkjaklöpp er yfirfærð á sannfærandi hátt í útfærslu stígsins og göngubrú. Torgsvæði milli íþróttahallar og Akranesvallar er fjölnota og auðvelt að sjá fyrir sér mikið líf skapast á því svæði við ýmis tilefni. Fyrrgreint svæði nær að svæði Guðlaugar með fallegri útfærslu á útsýnis- og sólpalli. Þá er stúkan skemmtilega útfærð með hugmyndum að fjölbreyttri starfsemi og fellur hönnun hennar vel umhverfi svæðisins. Ljósvistarskipulag tillögunnar er metnaðarfullt og settar eru fram tillögur um upplýsta áningarstaði meðfram gönguleið. Tillagan sker sig frá öðrum tillögum með þessari áherslu.“

DÓMNEFNDARÁLIT

Dagsetning
28. september 2021
Höfundur
Helga Guðjónsdóttir

Tögg

  • Arkitektúr
  • SAMKEPPNIR