Útlínur framtíðar - Hönnunarstefna 2030

Stefna stjórnvalda í hönnun og arkitektúr til ársins 2030 og er mótuð í samvinnu við fjölda samstarfsaðila, og hag- og fagaðila gegnum Miðstöð hönnunar og arkitektúr. Stefnan kom út árið 2023.

Umhverfislegar og félagslegar áskoranir í samtímanum kalla á breytt hugarfar og lifnaðarhætti og í sumum tilfellum víðtækar kerfisbreytingar.

Vísinda- og tækniráð kortlagði í samvinnu við almenning, fulltrúa stjórnmálaflokka á Alþingi, vísindasamfélagið og atvinnulífið brýnustu áskoranirnar sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir á næstu áratugum en grundvallarþættir þeirra eru örar tæknibreytingar, breytingar á samsetningu þjóðarinnar og menntun.

Helstu samfélagslegu áskoranir voru skilgreindar sem:

  • Umhverfismál og sjálfbærni
  • Heilsa og velferð
  • Líf og störf í heimi breytinga

Umhverfi hönnunar og arkitektúrs hefur tekið mjög örum breytingum síðustu ár. Skilningur almennings og atvinnulífs hefur breyst og dýpkað, aðferðafræði hönnunar hefur þróast, sérhæfing aukist og tækifærum til menntunar fjölgað. Næmni og meðvitund notenda hefur aukist og sífellt fleiri þekkja og kunna að meta hvaða áhrif góð hönnun getur haft á líf okkar.

Með því að virkja fagþekkingu hönnuða og aðferðafræði hönnunar má hafa víðtæk jákvæð áhrif á þróun samfélagsins og lífsgæði til framtíðar. Hönnun sem aðferðafræði er ákveðinn lykill að því að nýta tækifærin sem felast í örum tæknibreytingum og stuðla að aukinni sjálfbærni.

Stefnan skiptist upp í fimm kafla:

1. Verðmætasköpun sem byggir á hönnun og arkitektúr

Markmið:
1. Öflugra sjóðakerfi sem styður við fjölþætta nýsköpun

2. Öflugra stuðningskerfi sem styður við vöxt greinanna

2. Hönnun sem breytingarafl

Markmið:

Fjölbreytt notkun hönnunarhugsunar við úrlausn verkefna og flókinna áskorana

3. Sjálfbær innviðauppbygging

Markmið

Heildræn stefnumótun um hönnun innviða og mannvirkja með vaxandi sjálfbærni og lýðheilsu að leiðarljósi

4. Menntun framsækinna kynslóða

Markmið

Aukin þekkingarmiðlun og fjölbreytt námsframboð á sviðum hönnunar og arkitektúrs

5. Kynning á íslenskri hönnun og arkitektúr

Markmið

Hámarka sýnileika og meðvitund um íslenska hönnun og arkitektúr

Næstu skref

Lagt er upp með að stefnunni verði framfylgt með tveimur aðgerðaáætlunum. Stýrihópur skipaður fulltrúum ráðuneyta menningar og viðskipta (MVF), háskóla, iðnaðar og nýsköpunar (HVIN) og innviða (IRN) ásamt fulltrúum Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, Samtaka iðnaðarins og Listaháskóla Íslands mun vakta framvindu aðgerðanna.

Framtíðarsýn

Aðferðafræði hönnunar og arkitektúrs er nýtt markvisst til að auka lífsgæði á Íslandi með áherslu á verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið í heild. Með því að nýta aðferðir hönnunar hafa stjórnvöld og atvinnulíf aukið gæði, bætt heilsu og mannlíf, skapað áhugaverð störf og hraðað verðmætasköpun á ólíkum sviðum.

Stefnan var mótuð í samvinnu við fjölda samstarfsaðila, og hag- og fagaðila gegnum Miðstöð hönnunar og arkitektúr. Miðstöðinni var komið á fót að frumkvæði stjórnvalda árið 2008 til þess að efla íslenska hönnun og arkitektúr sem listgreinar og grundvöll þeirra til atvinnusköpunar. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs er beintengd grasrót og atvinnulífi hönnunargreina en að henni standa níu fagfélög með alls 1200 félaga sem eiga og reka hana með stuðningi stjórnvalda í gegnum menningar- og viðskiptaráðuneytið. 

Ráðgert er að stefnunni verði framfylgt með tveimur aðgerðaáætlunum, en sú fyrri var lögð fram sem þingsályktunartillaga og samþykkt fyrr á þessu ári (2023).

Stefnuskjalið er hannað af Arnari Fells og Arnari Inga.