Opin hugmyndasamkeppni um skipulag Torfunefs á Akureyri

7. mars 2022
Horft yfir Torfunefsbryggju á Akureyri

Hafnarsamlag Norðurlands bs í samvinnu við Akureyrarbæ og Arkitektafélag Íslands (AÍ) efnir til opinnar hugmyndasamkeppni um skipulag Torfunefs. Samkeppnin er almenn hugmyndasamkeppni samkvæmt skilgreiningu Arkitektafélags Íslands og opin öllum þeim sem uppfylla skilyrði keppnislýsingar, sbr. gr. 4.1.

Meginmarkmið verkefnisins er að gera tillögu að lifandi hafnarhverfi með fjölbreyttri starfsemi á Torfunefi í hjarta Akureyrar. Leitað er eftir tillögu þar sem byggingar og almennarými hafa aðdráttarafli fyrir bæjarbúa, ferðamenn og rekstraaðila á ýmsum sviðum eins og ferðaþjónustu, veitingarkestur, verslanir, sýningarrými, vinnustofur og skrifstofurými svo eitthvað sé nefnd. Útirými mættu gjarnan gefa möguleika á viðburðum, s.s. útitónleikum, útimarkaði eða öðrum smærri uppákomum.

Tímalína:

 • 10. janúar-Samkeppni auglýst
 • 31. janúar-Fyrri fyrirspurnarfrestur
 • 28. febrúar-Seinni fyrirspurnarfrestur
 • 30. mars-Skil tillagna
 • 27. apríl-Áætlað er að dómnefnd kynni niðurstöðu

Dómnefnd:

Tilnefndir af stjórn Hafnarsamlags Norðurlands

 • Ásthildur Sturludóttir bæjastjóri Akureyrarbæjar og formaður dómnefndar,
 • Pétur Ólafsson hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands
 • Ágúst Hafsteinsson arkitekt.

Tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands

 • Árni Ólafsson arkitekt, FAÍ
 • Guðrún Ragna Yngvadóttir arkitekt, FAÍ

Dómnefnd áskilur sér rétt til að kalla til ráðgjafar Pétur Inga Haraldsson, skipulagsfulltrúa Akureyrarbæjar og Þorstein Hlyn Jónsson formann stjórnar Hafnarsamlags Norðurlands.

 

Fyrirspurnir-Spurningar & svör

Væri hægt að fá 3D gögnin á öðru formi en laz? Búið er að setja gögnin á heimasíðu AÍ sem xyz.

 

Svæðið sem skilgreint er sem hafnarsvæði á hafnarbakkanum og á að tilheyra hafnarstarfseminni má vera möblerað með götuhúsgögnum, lýsingu o.s.frv. sem virkjað getur svæðið sem borgarrými eða er svæðið algjörlega "Frítt svæði"? Fyrstu 4 metrana á Hafnarsvæðinu að brotalínunni má möblera og virkja rýmið en engar byggingar. Handan brotalínunnar verður algjör lokun þegar minni skemmtiferðaskip liggja við bryggjuna.

 

Er mögulegt að hliðra til dælustöðina sé sýnt fram á að hún eigi betur heima annarsstaðar innan samkeppnissvæðisins? Því miður er það ekki möguleiki.

 

Hafnarhúsið sem á að vera 40m2 á stærð syðst á hafnarbakkanum og er hugsað fyrir hafnarstarfsemina þarf að vera innan svæðis sem skilgreint er sem hafnarsvæði eða getur það verið staðsett utan þess svæðis eða á mörkum þess? Hafnarhúsið gæti verið á mörkum byggingasvæðis og hafnarsvæðis.

Hvernig er undirlagið í landfyllingunni? Hvaða efni eru í landfyllingunni?  Möl og kjarni.

 

Á að gera ráð fyrir umferð inn á svæðið frá núverandi innkeyrslu? Eða má breyta staðsetningu hennar? Ekki er reiknað með almennum akstri bifreiða inn á skipulagssvæðið, þó þurfa þjónustubifreiðar að keyra eftir hafnarsvæðinu til að þjónusta báta og skip við bryggju.

 

Hver er stærð bílanna sem keyrir um svæðið? Bílar sem keyra um svæðið munu vera að hámarki 9m langir.

 

Hver er stærð bátanna sem koma að bryggjunni? Minni bátar svo sem hvalaskoðunarbátar sem eru allt að 30 m. langir. Yfir sumartímann koma minni skemmtiferðaskip sem eru ca. 110 til 140 metra löng, með 150 til 250 farþega.

 

Eru íbúar vanir að fara í sjósund á Akureyri? hvar?  Einhver hópur nýtir sér sjósund en þó er ekki talið æskilegt að þeir séu í kringum skrúfur skipa og báta og því ekki beint hentugur staður fyrir það á þessu svæði.

 

Hvernig er hafstraumurinn á svæðinu? Og hver er munurinn á flóð og fjöru? Straumur er inn fjörðinn að vestan og út fjörðinn að austan (rangsælis). Munur á flóð og fjöru er að hámarki 1,7 m.

 

Er til kort sem sýnir göngu-og hjólaleiðir í bænum?  Hér er hlekkur á stígaskipulag bæjarins

http://skipulagsaaetlanir.skipulagsstofnun.is/skipulagvefur/display.aspx?numer=16334

 

 Er möguleiki á að fá betri ljósmyndir af svæðinu? Búið er að bæta við fleiri myndum. Sjá undir Samkeppnisgögn á vef AÍ.

 

Hvað á að vera í A4 greinagerðinni? Texti, myndir og uppdrættir?

Í keppnislýsingu kemur fram að í greinargerð skal lýst megininntaki tillögunnar, helstu forsendum og markmiðum. Hún skal vera rituð á íslensku, sett fram í A4 (210x297 mm) og vera að hámarki 1000 orð.“

Ekki er gerð krafa um ákveðið efni í greinargerðinni annað en texta. Valkvætt er að setja inn myndir eða annað með textanum.

 

Á að skila 3 * A1 eða megum við ráða hvort það sé 1,2 eða 3 uppdrættir?

Samkvæmt keppnislýsingu stendur: 

"Norðurpíla skal vísa til hægri á öllum uppdráttum. 

Tillögur skulu settar fram á PDF-sniði á allt að þremur uppdráttum í stærð A1 (594x841 mm), liggjandi."

Það er valkvætt hvort að menn skili 1,2 eða 3 uppdráttum.

 

Dagsetning
7. mars 2022
Höfundur
Gerður Jónsdóttir

Tögg

 • Arkitektúr
 • Samkeppni