Samkeppni um ljósverk fyrir Vetrarhátíð 2021

12. nóvember 2020
Ljósainnsetningin Örævi eftir Valdimar Jóhannsson, Ernu Ómarsdóttur, Pierre Alain Giraud ásamt Íslenska dansflokknum.

Reykjavíkurborg og Orka Náttúrunnar í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs standa fyrir samkeppni um þrjú ljósverk á Vetrarhátíð 2021. Verkin sem verða valin verða sýnd á Vetrarhátíð 2021 dagana 4.-7. febrúar.

Samkeppnin er opin öllum hönnuðum, arkitektum, myndlistarfólki, tónlistarfólki, ljósafólki, tölvunarfræðingum eða öðrum þeim sem vinna með rafmagn og list í einhverju formi. Hvatt er til samstarfs milli ólíkra greina. Kostur er ef verkið felur í sér gagnvirkni sem kallar á þátttöku borgaranna. Undanfarin ár hefur Hallgrímskirkja verið eitt helsta kennileiti hátíðarinnar og eru ein verðlaun eyrnamerkt vörpun á stafrænu verki á Hallgrímskirkju, en önnur verk má framkvæma hvar sem er í borgarlandinu.

Markmið og áherslur
Markmið samkeppninnar er að virkja íslenskt hugvit og styrkja Reykjavík sem skapandi borg sem einkennist af lifandi og spennandi umhverfi. Markmið Vetrarhátíðar í Reykjavík hefur frá upphafi 2002 verið að bjóða upp á ljós í vetrarmyrkrinu og auka ánægju og upplifun borgarbúa.

Verðlaun 
Fyrstu verðlaun 1.000.000 kr. 

Önnur verðlaun 500.000 kr.

Þriðju verðlaun 300.000. kr.

Áherslur dómnefndar
Dómnefnd leggur eftirfarandi áherslur í mati sínu:

 • sterk heildarhugmynd
 • listrænt gildi tillögu
 • praktísk hagnýting tillögu

  Einnig verður horft til raunhæfni og kostnaðar við framkvæmd hugmyndar auk samsetningar teymis.

Tímarammi 

 • 12. nóvember / Samkeppni kynnt og opnað fyrir fyrirspurnir 
 • 19. nóvember / Fyrirspurnum svarað á heimasíðu Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs 
 • 14. desember / Skil tillagna 
 • 21. desember / Niðurstaða kynnt 
 • 4. - 7. febrúar 2021 / Vetrarhátíð í Reykjavík 
Pixel Clouds eftir Marcos Zotes

Dómnefnd og keppnisritari
Arna Schram sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar. 
Svanborg Hilmarsdóttir, tæknistjóri götuljósa ON
Rebekka Guðmundsdóttir, borgarhönnuður og verkefnastjóri hjá Skipulags- og framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar
Marcos Zotes, arkitekt Basalt arkitektar, AÍ 
Búi Bjarmar Aðalsteinsson, hönnuður

Keppnisritari og trúnaðarmaður:
Gerður Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Miðstöð hönnunar og arkitektúrs

Úrslit og verðlaun
Áætlað er að dómnefnd ljúki störfum 18. desember 2020. Þegar dómnefnd hefur formlega lokið störfum verður nafnleynd rofin og þátttakendum tilkynnt um niðurstöður dómnefndar. Dómnefndarstörfum lýkur með dómnefndaráliti og útnefningu vinningstillagna. 

Skilaform og afhending
Tillögur skulu innihalda eftirfarandi: 

 • Myndefni og texta sem sýna og útskýra heildarhugmynd verksins, listrænt gildi og praktíska hagnýtingu tillögu.
 • Hugmynd að staðsetningu, Hallgrímskirkja eða aðrir staðir innan borgarmarkanna.
 • Kostnaðaráætlun framkvæmdar, með kostnaði sigurvegara.

Tillögum skal skila á pdf-formi eða í rafrænni framsetningu í gegnum WeTransfer á netfangið samkeppni@honnunarmidstod.is fyrir miðnætti mánudaginn 14. desember 2020.

Uppfært 19. nóvember

Fyrirspurnir:

1. Í lýsingu stendur : "Reykjavíkurborg og Orka Náttúrunnar í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs standa fyrir samkeppni um þrjú ljóslistaverk á Vetrarhátíð 2021." Á maður að skilja að óskað er eftir þremum ljósverkum í tillögunni  - öll á mismunandi stöðum? Eða bara einu? Og ef svo er, fá þrjú teymi 1. verðlaun? 

Svar: Kallað er eftir tillögum að þrem verkefnum, og þar af einu sem á að varpa á Hallgrímskirkju. Valin verða 3 verkefni sem fá 1. 2. og 3. verðlaun. Dómnefnd ákveður hvaða verkefni hljóta verðlaunin óháð staðsetningu þeirra. Þátttakendum er í sjálfsvald sett hvort þeir sendi inn eina eða fleiri tillögur að verkum og hvar verkin verða staðsett. 

2. Í keppnislýsingu undir kafla Skilaform og afhending kemur fram að skila eigi kostnaðaráætlun vegna framkvæmdar og þóknun sigurvegara. Er ætlast til að höfundur setji verðmiða á eigin þóknun, verði tillaga hans fyrir valinu?

Svar: Gert er ráð fyrir að þátttakendur skili grófri kostnaðaráætlun sem gefur hugmynd um fjárhagslegt umfang verkefnisins. Í henni þarf að koma fram áætlun um kostnað við framkvæmd verksins og vinnu höfundar.  

3. Eru einhvern ákveðin tímamörk á vídeó ljósverkum sem þið hafið í huga að sýna í Reykjavík?

Svar: Verkin verða öll sýnd á Vetrarhátíð sem fer fram 4. -7. febrúar 2021. Ekki er gert ráð fyrir að verkin standi lengur en það. Varðandi lengd hvers verkefnis í vörpun þá eru ekki tímamörk á því. 

4. Ég er með verk sem mig langar að senda inn sem tillögu að ljósverk. Ég er er myndlistarmaður og vinn það einsömul. Stend ég verr að vígi í samkeppninni sem einnstaklingur, þ.e. er þetta miðað að teymum eingöngu?

Svar: Hugmynd, gæði og möguleikar og geta til að framkvæma verkið mun ráða úrslitum um valið, þar getur trúverðugleiki einstaklings vs. teymi haft áhrif.

5. Þarf að skila "kostnaðaráætlun framkvæmdar með kostnaði sigurvegara" - er hægt að fá u.þ.b. kostnaðarrammann sem er verið að hugsa um? Þarf að hafa í kostnaðaráætlun verð fyrir leigu af ljósabúnaði t.d. varpara, kastara, geisla... etc?

Svar: Ekki er lagt upp með ákveðinn kostnaðarámma, en gert er ráð fyrir að þátttakendur skili grófri kostnaðaráætlun sem gefur hugmynd um fjárhagslegt umfang verkefnisins.

Sálumessa Jöklanna, höfundur Heimir Freyr Hlöðversson. Mynd/ Ragnar Th.

Vetrarhátíð  4.-7. Febrúar 2021

Tilgangur Vetrarhátíðar er að lífga upp á borgarlífið á dimmustu vetrarmánuðunum með því að tengja saman ólíka viðburði sem allir tengjast þema hátíðarinnar, ljósi og myrkri. Á dagskrá Vetrarhátíðar eru fjölbreytileg ljóslistaverk, Safnanótt og Sundlauganótt. 

Ljóslistaverk Vetrahátíðar eru utandyra og staðsett á fjölsóttum stöðum í borginni auk þess sem byggingar og almenningsrými verða lýst upp með fjölbreyttum hætti. Verkin verða hluti af ljósagöngu sem borgarbúar eru hvattir til þess að njóta með fjölskyldu eða í hópi vina.

Á Safnanótt opna söfn í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu dyr sínar og bjóða upp á skemmtilega og fjölbreytta dagskrá frá klukkan 18:00-23.00. Söfnin leggja áherslu á að bjóða upp á óhefðbundna viðburði þetta kvöld og veita þannig fastagestum nýja sýn á söfnin og laða að sér nýja. Íbúar og gestir borgarinnar á öllum aldri geta notið hennar fram eftir kvöldi sér að kostnaðarlausu. 

Á Sundlauganótt verða tíu sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu opnar frá kl. 18:00-22:00 og aðgangur er ókeypis. Uppákomur verða af margvíslegum toga og munu gestir fá að upplifa einstaka og óvenjulega kvöldstund í mögnuðu myrkri. 

Vetrarhátíð í Reykjavík var haldin í fyrsta sinn árið 2002. 

Dagsetning
12. nóvember 2020
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

 • Greinar
 • Fagfélög
 • Samkeppni