Baugur Bjólfs – vinningstillaga í samkeppni um skipulag- og hönnun áfangastaðar

26. nóvember 2021

Baugur Bjólfs bar sigur úr býtum í samkeppni um útsýnisstað við snjóflóðavarnargarðana í Bjólfi á Seyðisfirði sem Múlaþing hélt í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta.

Vinningstillagan var unnin í þverfaglegu samstarfi þeirra Ástríðar Birnu Árnadóttur og Stefaníu Helgu Pálmarsdóttur frá Arkibygg Arkitektum, Önnu Kristínu Guðmundsdóttur og Kjartan Mogensen landslagsarkitekta, Auði Hreiðarsdóttur, arkitekt frá ESJA ARCHITECTURE og Arnar Björn Björnsson frá exa nordic sem sá um burðarvirkjahönnun.

Tillagan er mjög heildstæð og einstaklega vel framsett. Baugurinn (hringurinn) er afar sterkt form sem fellur með sérstæðum hætti að landslagi, er heillandi andstæða umhverfis síns og býður uppá svífandi og einstaka upplifun umfram það sem sjá má af fjallsbrúninni.

Baugurinn og tengingin við haug Bjólfs er mjög áhugaverð og nýtist vel til menningar- og ferðaþjónustutengdrar starfsemi og upplýsingagjafar á svæðinu.

Dómnefnd mat tillöguna sem einstaklega áhugavert kennileyti sem kallast á við landslagið á einfaldan en áhrifamikinn hátt þar sem ferðafólk er leitt áfram í lokaðri umgjörð án hnökra. Hreyfihamlaðir þurfa jafnframt ekki að yfirstíga neinar hæðahindranir og tillagan tryggir gott flæði ferðafólks um svæðið. „Einföld, sérstæð og sterk byggingarlist hér á ferð sem dómnefnd telur að geti haft mjög mikið aðdráttarafl og hefur alla burði til þess að bjóða upp á einstaka upplifun“ eins og segir í niðurstöðu dómnefndar.

Markmið samkeppninnar var að bæta aðstæður og skapa aðdráttarafl á svæði sem hefur mikil tækifæri til þess að vera einn af fjölsóttustu útsýnisstöðum Austurlands, auk þess að bæta öryggi og aðgengi ferðamanna og stuðla að verndun lítt snortinnar náttúru á tímum vaxandi fjölda ferðafólks. Leitast var eftir að fá fram hugmyndir að hönnun sem félli vel að umhverfi svæðisins og tryggði öryggi ferðamanna. Hönnun útsýnissvæðisins var ætlað að stuðla að einstakri upplifun fyrir þá sem koma til með að heimsækja áfangastaðinn.

Dómnefnd lagði áherslu á að velja þá tillögu sem uppfyllti flest þau skilyrði sem lögð voru til grundvallar í keppnislýsingu og mat tillögurnar eftir þeim sjónarmiðum sem dómnefnd hafði lagt keppendum í té í upphafi.

Múlaþing efndi til samkeppninnar og fékk til þess styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Samkeppnin var unnin í samstarfi við Félag íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA).

Dómnefnd var skipuð Birni Ingimarssyni, bæjarstjóra Múlaþings, Maríu Hjálmarsdóttur, fyrir hönd Áfangastaðaáætlunar Austurlands og Oddi Hermannssyni, landslagsarkitekt og fulltrúa FÍLA. Ritari dómnefndar og verkefnastjóri samkeppninnar var Jónína Brá Árnadóttir, trúnaðarmaður dómnefndar var Ólafur Melsted, frá FÍLA.

Hér er hægt að lesa meira.
Hér er hægt að lesa keppnislýsingu.
Hér má lesa dómnefndarálit.

Hér að neðan má sjá innsendar tillögur

Dagsetning
26. nóvember 2021
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Landslagsarkitektúr
  • Samkeppni
  • Arkitektúr