Apotek Atelier opnar í miðbænum

19. nóvember 2021

Hönnuðirnir Ýr Þrastardóttir, Halldóra Sif Guðlaugsdsdóttir og Sævar Markús Óskarsson opna vinnustofu og verslun í miðbæ Reykjavíkur laugardaginn, 20. nóvember að Laugavegi 16.

Verslunin ber nafni Apotek Atelier og er staðsett í fyrrum húsnæði Laugavegsapóteks. Auk þess að vera vinnustofa hönnuðana þá selja þau eigin merki í versluninni.

Halldóra hannar undir vörumerkinu Sif Benedicta en hún hefur fyrst og fresmt séhæft sig í fylgihlutum og vinnur vandaðar töskur úr plexigleri ásamt því að hanna slæður, kjóla og skartgripi.

,Við ákváðum að opna dyrnar að vinnustofunni þó að vöruúrvalið sé enn sem komið er takmarkað,“ segir Halldóra og segir þau hlakka til að skapa góða stemningu á Laugaveginum á aðventunni. „Við erum öll þrjú með svipaðar hugmyndir þegar kemur að því hvað okkur finnst fallegt og ákváðum því að slá okkur saman í þetta ævintýri. Draumurinn er að þetta vaxi hjá okkur og við erum strax farin að skoða möguleikana á því að gera “APOTEK ATELIER” vörulínu undir heiti verslunarinnar. “

Sævar Markús hannar undir eigin nafni en sérstaða hans eru mynstur sem hann hefur verið að vinna út frá fornum listaverkum og symbolisma. Hugmyndaauðgi hans endurspeglast svo í mjög svo klassískum sniðum á skyrtum, kjólum og klútum.

,,Okkur langar að koma með Parísarstemmningu hingað heim,“ segir Sævar Markús og bætir við að þau séu að vinna í fá inn nýjar vörutegundir frá sérvöldum birgjum sem hafa ekki verið til sölu á landinu hingað til. „Það skemmir ekki fyrir að við elskum öll París og langar okkur mikið að fara þangað saman á nýju ári til þess að versla inn fyrir búðina.“

Ýr hannar undir merkinu Another Creation og er hún helst þekkt fyrir að fara óhefðbundnar leiðir í sníðagerð og vinnur hún mikið jakka og kápur í bútasaum með leður, silki og ull.

,,Við vildum halda í hefðina,“ segir Ýr Þrastardóttir og vísar í nafnið á vinnustofunni. „Ég hef verið að sérsauma lengi og það hefur verið ákveðinn draumur að bjóða upp á þá þjónustu í fallegu rými.“

Apótek Atelier sem fyrr segir á morgun, laugardaginn 20. nóvember á Laugavegi 16.

Dagsetning
19. nóvember 2021
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Fatahönnun