Björn Blumenstein hannar jólakött Rammagerðarinnar 2023

22. nóvember 2023

Hinn árlegi jólaköttur Rammagerðarinnar er kominn til byggða fjórða árið í röð en að þessu sinni er hönnun hans í höndunum á Birni Blumenstein, vöruhönnuði. 

Jólakötturinn er vel þekktur óvættur í íslenskum þjóðsögum. Hann var hvað þekktastur fyrir að éta þau börn sem ekki fengu nýjar flíkur fyrir jólin. Þó að kötturinn sé löngu hættur þeim óskunda er hann enn sterkur hluti af íslenskri jólahefð. Rammagerðin hóf hefðina um að fela íslenskum hönnuði gerð jólakattarins árið 2020. Þrír jólakettir hafa litið dagsins ljós, sá fyrsti var eftir Stúdíó Fléttu og svo var það Hanna Dís Whitehead og í fyrra hannaði Ragna Ragnarsdóttir jólaköttinn.  

Í ár var það Björn Blumenstein hönnuður sem varð fyrir valinu til að gera fjórða jólaköttinn en aðeins 25 númeraðir jólakettir eru framleiddir á hverju ári sem gerir þá að einstökum safngrip.

Jólakötturinn 2023 er sprottinn upp úr tilraunakenndu hönnunarferli, vöruhönnuðurinn Björn Steinar gerði tilraunir með margvísleg efni á borð við tré, leir og plast til að kalla fram vinaleg abstrakt form. Frá upphafi var ljóst að jólakötturinn þyrfti að hafa notagildi - það lá beint við að hann yrði kökuskál eða kertastjaki - og vera framleiddur úr endurunnu efni. Hönnunarferlið leiddi að lokum til skúlptúrísk-jólakattar-kertastjaka sem er framleiddur úr sandsteyptu áli í samvinnu með Málmsteypunni Hellu. Þessi jólaköttur borðar engin börn, heldur lýsir upp skammdegið.

Dagsetning
22. nóvember 2023
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Rammagerðin