Borg er miklu meira en samansafn bygginga

25. maí 2018
Listasafn í Ravensburg, 2013

„Arkitektúr verður sífellt meira spennandi eftir því sem þú stundar hann lengur,“ segir Jórunn Ragnarsdóttir, arkitekt í Þýskalandi, sem rekur margverðlaunaða arkitektastofu, Lederer Ragnarsdóttir Oei, ásamt eiginmanni sínum Arno Lederer og samstarfsmanni þeirra til margra ára, Marc Oei.

Jórunn er alin upp í Reykjavík en hélt ung til náms í arkitektúr við háskólann í Stuttgart og hefur allar götur síðan verið sjálfstætt starfandi arkitekt í Þýskalandi. Aðspurð um fyrirmyndir innan fagsins nefnir hún nöfn eins og Sigurd Lewerentz, Le Corbusier, Gunnar Asplund og Giuseppe Terragni – þá sérlega hvað varðar andrúmsloft, áferð yfirborðs og efnisnotkun. Hún segir svissneska arkitektinn Luigi Snozzi hafa snemma opnað henni nýja sýn á gildi fagsins: „Snozzi kenndi mér að arkitektúr þarfnast ekki nýrra uppfinninga, heldur skilnings og nýrra uppgötvana. Hann er pólitískt þenkjandi arkitekt, sem mér líkar vel enda tengir byggingarlist saman fagurfræðileg gildi, umhverfisvernd, vistfræði, hagfræði og stjórnmál.“ 

Erst die Stadt, dann das Haus

Hugmyndafræði Lederer Ragnarsdóttir Oei segir Jórunn mjög skýra: Erst die Stadt, dann das Haus –  sem mætti þýða sem: Fyrst borgin, síðan húsið. „Til að skilja og meta byggingarlist er mikilvægt að gera sér grein fyrir samfélagslegri ábyrgð arkitekta sem móta umhverfi og sameign allra borgarbúa og hafa marktæk áhrif á velferð og vellíðan samfélagsins í heild. Öll höfum við jafnan rétt á vönduðum opinberum rýmum, mótuðum af byggingum sem falla vel að umhverfi sínu, menningarsögu og hefðum,“ útskýrir Jórunn og bætir við: „Það er því ekki byggingin sjálf sem skiptir höfuðmáli. Uppbygging borgarinnar í gegnum ár og aldir er grundvöllur allra breytinga því hún er eins og sögubók sem upplýsir okkur um líf, menningu og störf fyrri kynslóða. Þess vegna er mikilvægt að leita eftir tengingum og táknum til að skrifa sögu borgarinnar áfram og styrkja heildarmyndina. Saga byggingarlistarinnar kennir okkur að það er ekki nauðsynlegt að fara ótroðnar slóðir til að skapa eitthvað sem uppfyllir þarfir og drauma nútímasamfélags. Að það hvort eitthvað sé gamalt eða nýtt skiptir ekki máli þegar hugvit og þekking er lögð til grundvallar.“

Útveggir bygginga eru innveggir borgar

Verk stofunnar eru af ýmsum toga en undanfarna áratugi hafa þau þó flestöll verið stórar opinberar byggingar í Þýskalandi. Þar er rík hefð fyrir opnum samkeppnum þegar um mikilvægar byggingar er að ræða. „Við tökum þátt í um tíu samkeppnum á ári svo þetta er mikil framleiðsla. Við veljum okkur útboð sem við erum sannfærð um að komi samfélaginu til góða og í gegnum árin höfum við aðallega teiknað opinberar byggingar, t.d. skóla, safnbyggingar, bókasöfn, leikhús og skrifstofuhúsnæði fyrir ýmsar stofnanir,“ segir Jórunn.

Stofan hefur hlotið ýmisskonar viðurkenningar og verðlaun fyrir flestar byggingar sínar sem oftast eru sambland af endurgerð húsa, viðbyggingum og nýbyggingum þegar þörf er á. „Þegar vel tekst til er eins og byggingarnar hafi alltaf verið á sínum stað. Heildin skiptir mestu máli. Borg er miklu meira en samansafn bygginga,“ segir Jórunn og heldur áfram: „Það er mikilvægt að styrkja vef borgarinnar og á vissan hátt má segja að útveggir bygginga séu innveggir hverrar borgar og að borgin sé samspil af götum og torgum rétt eins og íbúð samanstendur af herbergjum og göngum.“

Bankabygging í Ulm 2015

Þegar vel tekst til er eins og byggingarnar hafi alltaf verið á sínum stað.

Jórunn Ragnarsdóttir

Gluggi er meira en gluggi

Í dag starfa 48 arkitektar á teiknistofunni og Jórunn segir stærð hennar ekki vera sveiflukennda heldur hafi hún vaxið jafnt og þétt frá upphafi. Stofan sér ávallt um alla teiknivinnu, útboð, framkvæmdir og eftirlit á byggingarstað sem gerir þeim kleift, að sögn Jórunnar, að hanna allar innréttingar bygginganna. „Til þess að ná fram sterkri heildarmynd hönnum við öll smáatriði eins og handföng, ljósastæði og merkingar, bæði innan- og utandyra.“ Í arkitektúr sé það gjarnan einfaldleikinn sem standi upp úr en útfærslan krefjist vissulega mikillar nákvæmni: „Gluggi er meira en gluggi,“ segir Jórunn og útskýrir nánar: „Við skerum út fyrir gluggum þar sem þeirra er þörf, bæði fyrir innra rými og fyrir tengingu við umhverfið. Með markvissri staðsetningu glugga í byggingum næst að fanga náttúrulega birtu og skapa þannig andrúmsloft við hæfi en dagsljósið er besta og ódýrasta verkfærið til að forma rými.“ Hún segir það vera þeim mikið kappsmál að halda sig alltaf innan fjárhagsrammans sem gerður er í upphafi hvers verks og þar komi áralöng reynsla að miklu gagni: „Þegar upp er staðið þá felst mesti sparnaðurinn í vel hönnuðum grunn- og sneiðmyndum sem eru byggðar á sveigjanleika og geta lagað sig að breyttri nýtingu hverju sinni.“

Jórunn tekur fram að útlit og öll gerð bygginga þeirra fylgi reglum og lögmálum sem þau hafa þróað í gegnum árin. „Það er okkur kappsmál að reisa hús sem eru langlíf og tímalaus í útliti. Útveggir móta rúmmál og umfang sérhverrar byggingar og til að ná góðum tengslum við nánasta umhverfi veljum við yfirborð, stærð grunnflatar og hæð byggingar með hliðsjón af staðháttum,“ segir Jórunn og nefnir mikilvægi útiverusvæða í borgum: „Með staðsetningu og formi bygginga leitumst við alltaf við að skapa ný útirými. Vel gerð torg og garðar eru nauðsynleg fyrir mannleg samskipti og afþreyingu.“ 

Sögusafn í Frankfurt 2017

Endurnýting umfram endurvinnslu

Í verkum stofunnar er lögð rík áhersla á val og meðhöndlun byggingarefnis og tígulsteinar eru oft einkennandi. „Þegar við veljum efni reynum við að taka tillit til umhverfisins eins og unnt er. Vönduð og slitgóð yfirborð tryggja langan líftíma, kalla á lítið viðhald og auka vellíðan borgarbúa. Tígulsteinninn er efni sem við höfum unnið með til fjölda ára. Hann er unninn úr náttúrulegum efnum, endist lengi og viðheldur fegurð sinni. Ekkert annað byggingarefni hentar okkur mannfólkinu jafn vel. Breidd, hæð og lengd sérhvers steins passar í aðra hönd múrarans á meðan hin höndin notar múrskeiðina til að festa hann með múrblöndunni. Þannig getur ein lítil eining orðið að vegg, stoð, húsi eða jafnvel heilli borg.“

Jórunn segir þau reyna eftir bestu getu að nota efni sem koma úr næsta nágrenni við bygginguna og leggja frekar áherslu á endurnýtingu byggingarefna en endurvinnslu sem sé mun orkufrekara ferli. „Byggingariðnaðurinn er duglegur að koma nýjum efnum á markaðinn til þess að tryggja eigin afkomu. Við treystum á efni sem hafa staðið við sitt í aldaraðir og erum ónæm fyrir nýjungum sem lofa upp í ermina á sér,“ segir Jórunn og bendir á að kostnaður sé oft rangt reiknaður þar sem það gleymist gjarnan að reikna líftíma og endurvinnslu bygginga inn í heildarkostnaðinn. „Við reynum eftir kostum að endurnýta efni úr þeim byggingum sem eru fjarlægðar. Þannig notum við gjarna veggklæðningar úr náttúrulegu grjóti eða gamla tígulsteina sem yfirborð á útivistarsvæði eða nýja veggi. Það skiptir mjög miklu máli, ekki aðeins út frá umhverfissjónarmiði heldur einnig fagurfræðilegu, því byggingarefni gefur tilfinningu fyrir stað og sögu. Það væri mjög spennandi að fá tækifæri til að byggja hús eingöngu úr notuðum efnum.“

Þegar talið berst að byggingarefnum í íslensku umhverfi bendir Jórunn á þann ávinning sem hlýst af því að nota markvisst íslensk efni fyrir íslenskar aðstæður og leggja frekar áherslu á endurnýtingu en endurvinnslu efna. „Auðvitað þætti mér gaman að teikna byggingu á Íslandi,“ svarar hún þegar spurð hvort hún hefði áhuga á að vinna meira hér á landi, en eftir hana stendur eitt hús í Hafnarfirði frá árinu 2009. 

Að hanna byggingu er ekki eitthvað sem þú getur auðveldlega gert þegar þú ert 25 ára. Þess vegna er svo erfitt að hætta, þessi þörf eykst alltaf meira og meira, arkitektúr verður sífellt meira spennandi eftir því sem þú stundar hann lengur.

Jórunn Ragnarsdóttir

Gott samstarf er grundvöllur árangurs

Jórunn er vandlát á verkefni en segir þau öll skipta jafnmiklu máli. „Þau koma til manns og það skiptir mestu máli að taka vel á móti þeim og gera eins vel og maður getur í hvert sinn. Við leggjum mikla áherslu á samvinnu og gott andrúmsloft á teiknistofunni og veljum starfsfólkinu verkefni eftir getu og kunnáttu. Gott samstarf og jákvætt viðhorf allra þeirra sem að verkefninu koma er grundvöllur árangurs.“ Eftir fjörutíu ár í arkitektúr telur Jórunn sig enn vera á réttri hillu.

„Ég er lánsöm að hafa fundið mér lífsstarf sem gerir kröfur til mín og viðheldur meðfæddri forvitni minni. Að hanna byggingu er ekki eitthvað sem þú getur auðveldlega gert þegar þú ert 25 ára. Þess vegna er svo erfitt að hætta, þessi þörf eykst alltaf meira og meira, arkitektúr verður sífellt meira spennandi eftir því sem þú stundar hann lengur.“ 

Viðtalið birtist fyrst í 7. tbl. HA 2018

Þýska verkfræðinga- og arkitektafélagið DAI veitti Jórunni og eiginmanni hennar, Arno Lederer, verðlaun fyrir lífsstarf sitt árið 2016. „Ég hneppti hnossið og er fyrsta konan sem tekið hefur á móti þessari viðurkenningu. Þrátt fyrir að konur séu í meirihluta í námi í arkitektúr þá hrærumst við enn í karlaheimi.“
Dagsetning
25. maí 2018
Höfundur
Anna María Bogadóttir
Ljósmyndir
Roland Halbe

Tögg

  • Greinar
  • Viðtöl
  • HA
  • HA07
  • Arkitektúr
  • Viðtal