„Endurvinnið eða deyið“ - Bára í Aftur

Bára Hólmgeirsdóttir, eigandi og hönnuður fatamerkisins Aftur, hlaut tilnefningu til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs árið 2019 þar sem þemað er sjálfbær neysla og framleiðsla. Tilnefningin var verðskulduð viðurkenning fyrir Aftur sem fangaði 20 ára afmæli sama ár og hefur frá upphafi beint sjónum sínum að endurnýtingu fatnaðar með því að gera nýjar flíkur úr gömlum.
„Þegar ég sat í stjórn Félags íslenskra fatahönnuða talaði ég fyrir því að félagið myndi álykta að fagið færðist í sjálfbæra átt. Að það gæti verið sérstaða íslenskra fatahönnuða. Það var enginn sérstakur vilji til þess þá og ég skil það alveg, enda erfitt að vera með fataframleiðslu á pínulítilli eyju og flestir bara að reyna að lifa af.“
Sjálfbærni og endurnýting á flíkum sem umhverfissjónarmið var ekki þekkt hugmyndafræði þegar Bára, ásamt systur sinni Hrafnhildi Hólmgeirsdóttur, stofnaði Aftur árið 1999, en hvað kom til að þær ákváðu að fara þessa leið í hönnun sinni?
„Ástæðan var einfaldlega sú að okkur langaði til að vera fatahönnuðir og hanna eitthvað sem var ekki til en gátum ekki réttlætt það gagnvart sjálfum okkur að bæta í þann hafsjó af fatnaði sem til var. Við vorum á þessum tíma að vinna í innkaupum fyrir verslunina Spúútnik og sáum með eigin augum allan þann textíl sem enginn vill. Það varð bara lógískt að nota hann.“



Finnur þú fyrir þeirri vitundarvakningu sem á sér nú stað í samfélaginu?
„Það má segja að ég sé búin að bíða eftir þessari vakningu í mörg ár. Grunnurinn að því að minnka textílsóðaskapinn er samt sá að við sem neytendur þurfum að líta í eigin barm. Það þarf að kaupa minna. Það er viðskiptavinurinn sem er sofandi risinn og breytingaraflið. Á sama tíma þurfum við öll að eiga föt. Fatnaður er nauðsyn og tjáningarmáti, og hefur alltaf verið. En við þurfum ekki að eiga svona mikið af öllu.“
Hvernig verður fyrirtæki sem snýst um að selja föt farsælt með því að segja fólki að kaupa minna?
„Við getum öll gert eitthvað, það skiptir allt máli. Þegar ég er að taka flíkur upp úr pokum, flokka og leita leiða til að búa til nýjar flíkur og er að bugast á endurvinnslunni, fyrirtækisrekstrinum – en samt að leitast við að borga mannsæmandi laun – þá stappar það í mig stálinu að vita að ég, með mínu góða fordæmi, get sýnt fram á að þetta sé hægt. Það keyrir mig áfram. Ég þarf bara að sætta mig við minni ebitu og hugsa frekar um hvað get ég lagt af mörkum til að mitt nærumhverfi verði betra? Ekki bara um það hvað get ég grætt í aurum talið heldur lífsgæðum. Það þarf að spyrja sig, er þetta græðgi? Hvað þarf ég mikið? Við vitum að við þurfum ekki svona mikið og við vitum að við getum ekki haldið svona áfram. Við getum ekki farið svona illa með jörðina og fólk. Það þarf að skrúfa fyrir þennan krana á framleiðslunni og ríkið þarf að koma að þessu. Þangað til gerir enginn neitt, því það þarf að keyra áfram hagvöxtinn. En hann þarf að endurskoða líka, hann á að vera tengdur einhverju öðru en neyslu, t.d. hamingju, heilsu eða menntun.
Ég hef sagt skilið við hin hefðbundnu „seasons“ þar sem fatalínur fara eftir árstíðum. Og ég vinn bara með merkjum sem ég get sniðið að þessum reglum. Þannig fer minna á útsölur og flíkur ganga allan ársins hring, óháð tískustraumum. Ég vil meina að þarna liggi framtíð fatahönnunar. Maður á að klæða sig eins og manni líður best og í samræmi við þau skilaboð sem maður vill senda út í samfélagið. Ekki láta þá sem vinna við að selja sem mest segja manni í hverju maður á að vera.“

Hvernig geta hönnuðir lagt sitt af mörkum og snúið þróuninni við?
„Það er hægt að hanna og þróa alls konar dót, búa til nýjar aðferðir og nýjan textíl en í grunninn þarf hugarfars- og viðhorfsbreytingu í öllum ferlum. Það þarf að veita betri upplýsingar og hjálpa fólki að skilja afleiðingarnar af þeirri ofneyslu sem nú á sér stað. Ég vil banna urðun og láta setja í lög að allir, einstaklingar og fyrirtæki, verði að endurvinna og mér finnst galið að stjórnmálafólkið okkar sé ekki að beita sér harðar fyrir því.
Þegar kemur að textíl og fatahönnun finnst mér lykilatriði að vanda sig, hanna betur og framleiða bara það sem þarf, ekki meira. Gera svo eitthvað nýtt. Það má alveg vera skortur, það verður enginn allsber. Svo er gott fyrir neytendur að vera með ákveðin atriði bak við eyrað: Veistu hvaðan efnin koma, eru góðar aðstæður í verksmiðjunum, er verið að borga fólki mannsæmandi laun? Þarf ég þetta? Fatahönnuðir ættu að velja framleiðslulönd sem eru eins nálægt þeim og mögulegt er – svo þeir geti tryggt að farið sé eftir reglum varðandi umhverfisvernd og réttindi starfsmanna – og reyna að hanna flíkur úr einhverju sem er nú þegar til. Það er endalaus offramleiðsla á textíl í heiminum. Meginspurningarnar sem þeir þurfa að spyrja sig eru einfaldlega: „Hvað sætti ég mig við að græða lítið?“ og „Hef ég eitthvað fram að færa sem ekki er til hafsjór af nú þegar?“ Ef þeir geta svarað þessum spurningum ættu þeir að geta fundið sér áhugaverðan stað í fatahönnun sem hefur ekki skaðleg áhrif á umhverfið.“