Valdar úr hópi umsækjanda til að hanna fjölbýlishús fyrir Félagsbústaði

20. maí 2021
Stúdíó Arnhildar Pálmadóttur og Teiknistofan Stika ásamt Birtu Fróðadóttur

Félagsbústaðir auglýstu, í samstarfi við Arkitektafélag Íslands, fyrr í mánuðinum eftir teymum til að hanna sitthvort fjölbýlishúsið í Reykjavík. Annars vegar um 500 fermetra fjölbýlishús fyrir fatlað fólk á Háteigsvegi 59 (Sjómannaskólareitnum) og um 500 fermetra fjölbýlishús fyrir fatlað fólk í Vindási í Árbænum.

Alls bárust 16 sterkar umsóknir og eftir valferi var ákveðið að bjóða stúdíó Arnhildar Pálmadóttur að hanna fjölbýlishús við Háteigsveg og Teiknistofunni Stiku ásamt Birtu Fróðadóttur til að hanna fjölbýlishús við Vindás í Árbænum.

Húsin sem um ræður verða framtíðarheimili fólksins sem þangað mun flytjast og verður áhersla lögð á að húsnæðið sé notalegt, veiti íbúum vellíðan, og mæti þörfum þeirra á heildstæðan og einstaklingsmiðaðan hátt. Fjölbýlishúsin þurfa að uppfylla reglugerð um húsnæði fyrir fatlað fólk og kröfur byggingarreglugerðar um húsnæði af þessari gerð. Markmiðið er að húsið sé umhverfisvænt og að húsið og garðurinn verði viðhaldsléttur.

Í valnefnd sátu Grétar Örn Jóhannsson, sviðsstjóri eigna- og viðhaldssviðs; Hildur Gunnlaugsdóttir, arkitekt og umhverfisfræðingur; Kristján Örn Kjartansson, arkitekt; Ólafía Magnea Hinriksdóttir, þroskaþjálfi og sérfræðingur hjá velferðarsviði Reykjavíkurborg og Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða.

Arkitektafélag Íslands þakkar kærlega öllum þeim sem sýndu verkefninu áhuga og sendu inn umsókn og við óskum um leið Stúdíói Arnhildar Pálmadóttur og Teiknistofunni Stiku ásamt Birtu Fróðadóttur til hamingju. Við hlökkum til að fylgjast með framhaldinu og að sjá húsin rísa.

Dagsetning
20. maí 2021
Höfundur
Gerður Jónsdóttir

Tögg

  • Arkitektúr
  • Valferli