Frumgerðir, Rúststeinar, hampur og íslenskt brimbretti meðal styrkþega Hönnunarsjóðs
Hönnunarsjóður úthlutaði þann 6. október 19 styrkjum til ólíkra verkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs auk 9 ferðastyrkja. Að þessu sinni var 20 milljónum úthlutað en alls bárust 82 umsóknir um rúmar 208 milljónir.
Endurnýting, nýsköpun og þróun efniviðar er rauður þráður verkefna styrkþega í seinni úthlutun Hönnunarsjóðs 2021.
Hæsta styrkinn hlutu verkefnin Frumgerð frá Plastplan og Frábær smábær - Hjallurinn frá Ólafíu Zoëga sem hlutu 2 milljónir í þróunar- og rannsóknarstyrk hvort um sig. Feyging á íslenskum hampi og hönnun á vinnslubúnaði frá Sigrúnu Höllu Unnarsdóttur hlaut 2 milljónir í verkefnastyrk.
Nýsköpun með grænum áherslum voru áberandi í þeim verkefnum sem hlutu styrk. Loftslagsváin knýr okkur til að endurhugsa allt með aukinni áherslu á gæði, endingu, fullnýtingu, þróun og staðbundna framleiðslu.
Það er gaman að sjá að tenging landsins við hafið og vatnið og vöruþróun tengd baðmenningu og upplifunarhönnun, spilar stórt hlutverk í þessari úthlutun.
Að þessu sinni hlutu sjö verkefni níu ferðastyrki, 100 þúsund krónur hver. Heildarupphæð ferðastyrkja í þessari úthlutun var því 900.000 kr.
Úthlutun Hönnunarsjóðs fór fram í Grósku þar sem ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir afhenti styrkþegum styrkina ásamt því að formaður stjórnar Hönnunarsjóðs, Birna Bragadóttir, kynnti þau verkefni sem hlutu styrk. Ljósmyndari: Víðir Björnsson.
Heildarlista yfir styrkþega og verkefni má sjá hér fyrir neðan.
Þróunar- og rannsóknarstyrkir
Frábær smábær - Hjallurinn, Ólafía Zoëga hlaut 2.000.000 kr.
Frábær Smábær er verkefni sem snýr að því að efla tengingu lítils smábæjar við sjóinn, skúrana og bryggjurnar sínar, sem áður voru stærstu samkomustaðir bæjarins en eru að miklu leyti horfnir á braut. Heimamenn fá nýja aðstöðu til sjósunds og gufubaðs sem verður einstök og markmiðið að ferðamenn flykkist að.
Frumgerð, Plastplan ehf hlaut 2.000.000 kr.
Verkefnið “Frumgerð” er annar fasi í stóru verkefni sem miðar af aukinni úrvinnslu á endurunnu plasti með áherslu á afurðasköpun. Unnið er að þróun tveggja vörulína, “Everyday” og “Collect” en afurðir þeirra verða framleiddar með sérsmíðuðum vélum, iðnaðar þrívíddar prentara og plötupressu.
Íslenska brimbrettið frá Bumblebee Brothers, Davíð Ingi Bustion hlaut 1.100.000 kr.
Verkefnið felur í sér að framleiða tvær mismunandi gerðir af brimbrettum sem eru sérhönnuð og aðlöguð að íslenskum aðstæðum.
Þráðhyggja, Berglind Ósk Hlynsdóttir og Sólveig Hansdóttir hlaut 1.000.000 kr.
Þráðhyggja sækir um styrk til vöruþróunar úr endurunnum textíl. Framhaldsrannsókn á verkefni sem hugsað er sem grunnur að endurvinnslustöð hérlendis og snýst um að lengja líftíma textíls með endurnýtingu. Notast er við tækniframfarir í textíliðnaði og er textíllinn kominn að vöruþróunarstig.
Keramar - land og lár, Blóð Studio hlaut 1.000.000 kr.
Keramar er rannsókn á notkunarmöguleikum alifuglafjaðra við gerð staðgengils plastefna fyrir íslenskan sjávarútveg og iðnað. Markmið verkefnisins er að stuðla að bættu umhverfisspori innan íslensks sjávariðnaðar og skapa á sama tíma farveg fyrir afgangs hráefni úr landbúnaði.
1+1+1 The Water Project, Hugdetta ehf hlaut 1.000.000 kr.
1+1+1 : The Water Project. Vatn rannsakað sem miðill fyrir baðmenningu á Norðurlöndunum og í Japan. Baðupplifun á Íslandi og vörur sem tengjast baðmenningu verða lokaafurð rannsóknarinnar. Lokaafurð verður sameining menningarheima og handverks.
Lavaforming - Hraunmyndir, studio arnhildur palmadottir hlaut 1.000.000 kr.
Lavaforming er tilgátu, rannsóknar- og hönnunarverkefni sem sett er fram á formi sýningar í raun- og sýndarheimi. Verkefnið varpar nýju ljósi á mannvirkjagerð á tímum loftslagsbreytinga og hvernig hægt er að nýta náttúruleg fyrirbæri sem byggingarefni og mynda grunn fyrir frekari þróun og nýsköpun.
Notkun sjávarleðurs í fortíð og framtíð, Katrín María Káradóttir hlaut 500.000 kr.
Verkefnið hverfist um rannsóknir og þróun sjávarleðurs sem vistvæns hráefnis í fatnað og fylgihluti. Leitað er í rann meistara sem varðveitt hafa handverkshefðir fyrri tíma og þær settar í samhengi við nútíma menningu og tækni. Verkefnið er sjálfstæður hluti alþjóðlegs verkefnis um sjávarleður.
Stell eftir Lóaboratoríum, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir hlaut 400. 000 kr.
Stell eru postulíns matarsett með teikningum eftir Lóaboratoríum. Matarstellin eru úr endurunnu efni og verkefnið snýst um að gæða gamla nytjahluti nýju lífi með myndlýsingum.
Markaðs- og kynningarstyrkur
Flothetta, Unnur Valdís Kristjánsdóttir hlaut 1.000.000 kr.
Á vormánuðum 2022 stefnir Flothetta á þátttöku í FIBO, einni stærstu sölusýningu heilsugeirans sem haldin er árlega í Köln. Flothetta mun þar leggja sérstaka áherslu á að kynna vörulínu sína sem og flotmeðferðina, íslensk upplifunarhönnun sem veitir endurnærandi slökun og vellíðan í vatni.
Hringrásarvæn hönnun - markaðssetning í Evrópu, Fólk Reykjavík hlaut 1.000.000 kr.
Árið 2020 fékk FÓLK styrk til að þróa og hanna vörulína fyrir heimili úr endurunnu- og afgangshráefni. Fjölmargar vörur komu út úr verkefninu og nú er stefnan tekin á markaðssetningu og sölu þeirra í Evrópu. Sótt er um styrk til að sýna Hringrásarvæna hönnun á Stockholm Furniture Fair í febrúar 2022
Interment/Jarðsetning - kvikmynd, Úrbanistan hlaut 700.000 kr.
INTERMENT/JARÐSETNING er ljóðræn heimildarmynd sem byggir á samnefndu rannsóknarverkefni er hverfist um niðurrif bygginga sem speglar manngerða strúktúra sem eru að hruni komnir. Í myndinni er hrun Iðnaðarbankans við Lækjargötu og jarðsetning byggingarefnis hans fylgt eftir: urbanistan.is/interment
Verkefnastyrkir
Feyging á íslenskum hampi og hönnun á vinnslubúnaði, Sigrún Halla Unnarsdóttir hlaut 2.000.000 kr.
Iðnaðarhampur er gríðarlega umhverfisvæn planta sem hægt er gjörnýta. Markmiðið með verkefninu er að hanna staðlað vinnsluferli við feygingu á hampi og þróa búnað til að vatnsfeygja hamp í því skyni að hámarka gæði trefjanna með sem minnstum kostnaði. Hamptrefjarnar eru svo notaðar í textílvinnslu.
Tilraun: Æðarrækt, Hildur Steinþórsdóttir og Rúna Thors hlaut 1.000.000 kr.
Þverfagleg hönnunarsýning um sjálfbært sambýli æðarfugla og manna á Íslandi, í Danmörku og Noregi. Með aðferðafræði hönnuða er staðbundin arfleifð rannsökuð út frá áskorunum samtímans. Þátttakendur vinna sjálfstæða rannsókn og verk innblásin af heimi æðarfugla, allt frá nytjahlutum yfir í upplifanir
Mót - Vasar, Theodóra Alfreðsdóttir hlaut 1.000.000 kr.
Mót -Vasar er áframhald ferlisdrifinnar rannsóknar sem skoðar möguleika á inngripum í mótargerð. Þessi viðbót í fyrri mótaverkefni skoðar hvernig hægt er að færa þennan þankagang inn í fjöldaframleidda glerframleiðslu með það í huga að fjölnýta eitt mót fyrir seríu af ólíkum vörum.
Rúststeinar, Narfi Þorsteinsson hlaut 1.000.000 kr.
„Rúststeinar“ eru múrsteinar gerðir úr rústum húsa. Verkið er listræn framsetning á rannsóknarverkefni mínu á steinsteypu með meigináherslu á múrbrot. Þar er saga þeirra rakin og framtíð þeirra velt fyrir sér. Hugmyndafræðilega nálgun verkefnisins er ætlað að skapa samtal um „ótímabær“ niðurrif húsa.
Íslensk fatahönnun ´01-´21, Fatahönnunarfélag Íslands 500.000 kr.
Í tilefni 20 ára afmæli Fatahönnunarfélags Íslands í september 2021 ætlar félagið ráðast í metnaðarfulla útgáfu á bókverki. Verkið spannar þá frábæru flóru verka og viðburða sem íslenskir fatahönnuðir hafa staðið að á þessu mikla mótunarskeiði greinarinnar sem síðustu 20 ár hafa verið hér á landi.
Disparate Impact, Ragna Þórunn W. Ragnarsdóttir hlaut 500.000.kr.
Framleiðsla á nýrri vörulínu sem er væntanleg vor 2021. Hér sér stað samtal milli hannaðar, náttúru og iðnaðartækni. Við hittumst í miðjunni og finnum farveg þar sem fagurfræði, notagildi og framleiðslumöguleikar keppast um athyglina.
Allir út að læra!, Anna Katharina Blocher hlaut 400.000 kr.
Náttúran býður upp á fjölbreyttan efnivið og margvísleg tækifæri til rannsókna og uppgötvana. Allir út að læra! eru námsgögn sem hvetja kennara til að nýta sér náttúruna og nánasta umhverfi skólans í starfi sínu og gerir nemendum kleift að læra á óhefðbundinn og skapandi hátt.
Ferðastyrkir, 100 þúsund kr. hver
- Tobia Zambotti, Fan chair/Couch 19, Fuorisalone, Ítalía/ The Platt, Þýskaland
- Erna Einarsdóttir, ný fatalína, Heimtextil/Frankfurt
- Wildness, tveir styrkir vegna nýrrar fatalínu, ISPO/Þýskaland
- Telma Garðarsdóttir, tveir ferðastyrkir vegna markaðssetningar Móa fatalínu erlendis.
- Elín-Margot Ármannsdóttir, styrkur vegna verkefnis “foraging at the Edge of Tomorrow", Aarhus
- Sólveig Anna Pálsdóttir, alþjóðleg ráðstefna, Japan
- Sigríður María Sigurjónsdóttir, vegna verkefnis SIGGA MAIJA Knitwear 2022, Litháen