Heiðursverðlaunahafi Hönnunarverðlauna Íslands árið 2021 er Gunnar Magnússon, húsgagnahönnuður og innanhússarkitekt

29. október 2021
Mynd/Aldís Pálsdóttir

Hönnunarverðlaun Íslands 2020 voru afhent með hátíðlegum hætti þann 29. október.  Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra veitti Gunnari Magnússyni, húsgagnahönnuður og innanhússarkitekt Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands árið 2021. Afkomendur Gunnars tóku á móti verðlaunum fyrir hans hönd, þar sem hann átti ekki heimangengt.

Frá dómnefnd:

Höfundareinkenni Gunnars eru fögur form og næmni fyrir efnisnotkun í bland við notagildi og vandaða smíð. Snilldarlausnir sem byggja á einfaldleika og virðingu fyrir efninu. Verk Gunnars eru auðþekkjanleg – geometrísk form eru áberandi og gleði og leikur skín gjarnan í gegn. Tímalaus hönnun eins og sannast meðal annars á því að ungt íslenskt hönnunarfyrirtæki, Fólk, er um þessar mundir að hefja endurframleiðslu á völdum verkum hans.

Gunnar er fæddur á Ólafsfirði árið 1933. Hann lauk sveinsprófi frá trésmiðjunni Víði árið 1956 þar sem hann lærði hjá Guðmundi blinda og kynntist fjölbreyttri framleiðslu húsgagna. Samtímis sótti hann tíma í Iðnskólanum í Reykjavík og Myndlista- og handíðaskólanum, þar sem hann naut leiðsagnar Sveins Kjarval í undirstöðu í húsgagnateiknun. Í kjölfarið starfaði Gunnar um tíma hjá hinum þekkta húsgagnaframleiðanda Fritz Hansen áður en hann hóf nám í húsgagna- og innanhússhönnun við Kunsthandværkerskolen árið 1959. Strax á námsárum sínum vann Gunnar til ýmissa verðlauna og hönnun hans fór í framleiðslu hjá fyrirtækjum á borð við Sören Holm og Christensen & Larsen. Að námi loknu starfaði Gunnar um skeið með Börge Mogensen, sem var sá danski meistari sem hann hafði hvað mestar mætur á, áður en hann flutti aftur heim til Íslands árið 1963.

Fyrsta árið eftir heimkomu starfaði Gunnar hjá Skarphéðni Jóhannssyni arkitekt en stofnaði síðan sína eigin stofu sem hann rak til ársins 2002. Gunnar bjó í Danmörku á miklu blómaskeiði danskrar hönnunar og kom til baka með innsýn og reynslu sem hann miðlaði til nemenda sinna í Iðnskólanum í Reykjavík. Þar kenndi hann húsgagna-, innanhúss- og húsateikningu og rúm-, flatar- og fríhendisteikningu í yfir þrjátíu ár, samhliða afkastamiklum ferli sínum sem húsgagnahönnuður og innanhússarkitekt. Gunnar hafði þannig mótandi áhrif á kynslóðir smiða, bólstrara, hönnuða og arkitekta. 

Yfir fjörutíu ára starfsferill Gunnars spannar afar fjölbreytt verk að umfangi og skala. Má þar nefna skákborðið fyrir „einvígi aldarinnar“ þegar Fischer og Spassky mættust árið 1972, hönnun innréttinga í skip og flugvélar, hönnun húsgagna fyrir framleiðslufyrirtækin Skeifuna og Kristján Siggeirsson auk margs konar samstarfs við fjölda húsgagnaverkstæða sem nutu góðs af þekkingu hans í smíði og framleiðslu auk afburða hæfileika sem hönnuðar. 

Gunnar lagði ávallt áherslu á að skapa hentugt andrúmsloft fyrir hvert rými, hvort sem um var að ræða eldhús, banka eða skólastofnun en hann hannaði húsgögn og innréttingar fyrir fjölda heimila, fyrirtækja og stofnana – til dæmis innréttingar og húsgögn fyrir Hótel Holt, Verslunarbankann og Kennaraskóla Íslands. Með tilkomu nýrra lífs- og viðskiptahátta hafa margar þessara innréttinga orðið frá að hverfa á meðan aðrar lifa enn góðu lífi í höndum aðila sem kunna að meta sígilda og vandaða hönnun.

Í gegnum árin hefur Gunnar tekið þátt í fjölda sýninga og unnið til alþjóðlegra verðlauna. Um leið og verk hans endurspegla tíðarandann í norrænni hönnun á seinni hluta síðustu aldar eru höfundareinkenni Gunnars auðþekkjanleg og skapa verkum hans sérstöðu sem glæsilegir fulltrúar blómlegs tímabils í íslenskri húsgagnahönnun.

Myndband: Blóð Stúdíó

Mynd/Aldís Pálsdóttir

Hönnunarverðlaun Íslands 2021 fóru fram í Grósku þann 29. október við hátíðlega athöfn fyrir fullum sal gesta. Kynnir kvöldsins var Guðrún Sóley Gestsdóttir, fjölmiðlakona en fyrr um daginn fór fram samtal um framtíð byggða á hönnun, hugviti og nýsköpun undir stjórn Hrundar Gunnsteinsdóttur, framkvæmdastjóri Festu - miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni.

Verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn árið 2014 og varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar og arkitektúrs. Verðlaunin beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning.

Í dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2021 sátu:
María Kristín Jónsdóttir/Sigríður Sigurjónsdóttir, formenn, Hönnunarsafn Íslands          
Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt, LHÍ                                                                                                       
Þorleifur Gíslason, grafískur hönnuður MH&A                                                                            
Margrét Kristín Sigurðardóttir, SI 
Katarina Siltavuori, framkvæmdastjóri Archinfo í Finnlandi. MH&A 
Ragna Fróðadóttir, textíl- og fatahönnuður, og framkvæmdastjóri Edelkoort Inc. MH&A

Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.

Dagsetning
29. október 2021
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Hönnunarverðlaun Íslands
  • Fagfélög