HönnunarMars 2024 - Fyrirlestrar og Samtöl
HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 24. - 28. apríl og fjölbreytt dagskráin breiðir úr sér um alla borg. Í boði eru um 100 sýningar og 200 viðburðir - eitthvað fyrir öll!
Á HönnunarMars 2024 er boðið upp á fræðandi og fjölbreytta viðburði í formi fyrirlestra og samtala. Þeir spanna ólík svið hönnunar og veita gestum dýpri skilning á mikilvægum málefnum samtímans.
Hönnun og mannréttindi
Anna María Bogadóttir, arkitekt og menningarfræðingur, fjallar um samspil hönnunar og mannréttinda í Mannréttindahúsinu. Anna María leggur áherslu á menningar- og félagslegar hliðar arkitektúrs sem hún nálgast frá sjónarhóli daglegs lífs í samhengi flókinna kerfa og hvata.
Fjárfestum í hönnun
Hvers vegna á að fjárfesta í hönnun og hvaða leiðir hafa hönnuðir til að sækja sér fjármagn? Á þessum viðburði HönnunarMars er fjallað um mikilvægi þess að fjárfesta í hönnun. Reynslumiklir einstaklingar úr heimi hönnunar og fjárfestinga deila sinni sýn, svara spurningum og taka þátt í umræðum. Forskráningar er krafist á þennan viðburð.
DesignTalks
Alþjóðlega ráðstefnan DesignTalks fer fram í Silfurbergi í Hörpu þann 24. apríl 2024. Dagskrá dagsins tekst á við öfgar og ójafnvægi ýmiskonar. Ofgnótt upplýsinga, hráefnisskort, möguleika nærumhverfisins í hnattrænu samhengi, enduruppbyggingu, heimsfjölskylduna og innri ró mun bera á góma. Í þessum tælandi töfraheimi er allt mögulegt en undir yfirborðinu kraumar hið óvænta og stundum hið óþægilega. Forskráningar er krafist á þennan viðburð.
Umferðin & okkar daglega líf
Umferðin & okkar daglega líf er viðburðaröð um samgöngumál og lausnir á vegum Vísindagarða HÍ. Hönnun og samgöngumál verða í forgrunni á þessum viðburði sem verður í formi stuttra erinda og pallborðsumræðna. Markmiðið með viðburðunum er að efna til samtals um samgöngur í okkar nærumhverfi - horft verður til framtíðar og fjölbreyttra lausna.
TROUBLE - Data Sculpted Futures
Hönnunarspjall JOYH veitir innsýn í hönnunaraðferðafræði þar sem notuð eru háþróuð reikniverk, vélnám og sandprentun. JOYH er skapandi hönnunarstúdíó með aðsetur í Vínarborg, sem leggur áherslu á efnisrannsóknir og nýtingu reikniverkfæra þar sem kannaðar eru nýstárlegar aðferðir til að endurskilgreina svið byggingarlistar.
Ljáðu mér vængi
Á sýningunni í Loftskeytastöðinni er lögð áhersla á að varpa ljósi á uppvöxt Vigdísar, ævi hennar og störf og þau miklu áhrif sem hún hafði í embætti forseta Íslands og þá miklu athygli sem kjör hennar vakti. Á viðburði HönnunarMars mun fara fram spjall um nálgun höfundar og listamannanna við gerð og hönnun sýningarinnar.
Tíu dropar og tal um inngildingu í arkitektúr og skipulagi
Nordic Office of Architecture býður upp á kaffi og með því og tækifæri til að sjá og heyra hvernig nota má hönnun til að stuðla að virkni og tækifærum fyrir alla. Algild hönnun virkjar og styrkir íbúa samfélagsins með því að fjölga tækifærum og stuðla að heilbrigði, vellíðan og félagslegri þátttöku. Tveir arkitektar hjá Nordic Office of Architecture verða með erindi. Jóhanna Helgadóttir fjallar um mannlega nálgun sem útgangspunkt í skipulagi og Camilla Heier Anglero fjallar um Carpe Diem heimilið í Bærum í Noregi. Forskráningar er krafist á þennan viðburð.
Design Diplomacy x Noregur
Cecilie Willoch, sendiherra Noregs á Íslandi, býður Petter Torgersen Myhr (NO) og Maríu Guðjohnsen (IS) til sín í norska sendiherrabústaðinn til að eiga áhugavert og óvænt samtal um hönnun, föstudaginn 26. apríl kl. 13-15. Á viðburðinum gefst tækifæri til að hlusta á hönnuði frá sitthvoru landinu bera saman bækur sínar og ræða um ýmis hönnunartengd málefni yfir sérsniðnum spurningarspjöldum sem er ætlað að kveikja forvitnilegar umræður. Samtalið heldur svo áfram á eftir yfir kaffibolla eða drykk á heimili sendiherrans. Forskráningar er krafist á þennan viðburð.