Kertastjaki Studió Fléttu í hátíðarbúning og sérhönnuð jólakerti Þórunnar Árnadóttur

3. desember 2021

Nú fyrir jólin verður hægt að kaupa sérstaka hátíðarútgáfu af mínútustjaka hönnunarstofunnar Studíó Fléttu ásamt sérstökum kertum sem hönnuðurinn Þórunn Árnadóttir hannaði með stjakann í huga í samstarfi við Kertasmiðjunni. Báðar vörurnar, hannað og framleiddar á Íslandi, fást í Rammagerðinni í takmörkuðu upplagi.

Mínútustjakinn frá Studió Fléttu, vöruhönnuðunum Birtu Rós Brynjólfsdóttur og Hrefnu Sigurðardóttur, er ein af þekktari vörum Fléttu og nú fyrir jólin var gerð hátíðarútgáfa af stjakanum; fjögurra arma aðventustjaki.  

Sérstök jólakerti voru síðan hönnuð af Þórunni Árnadóttur með nýja aðventustjakann í huga. Þórunn er á heimavelli þar sem kertahönnun er annars vegar og hefur nú þegar komið að hönnun á nokkrum kertalínum.

Rammagerðin leitaði til Þórunnar með þá hugmynd að hefja framleiðslu og samstarf við gróið kertafyrirtæki á Suðurlandi og nú hafa fyrstu kertin litið dagsins ljós, sem framleidd eru í Kertasmiðjunni. Hugmyndin er að samvinnu Þórunnar við þetta einstaka fyrirtæki, sem framleitt hefur kerti frá árinu 1994, verði haldið áfram á nýju ári og fleiri kertalínur hannaðar sem framleiddar verða hjá Kertasmiðjunni. 

Þessi jól er því hægt að nálgast einstaka handgerða vöru í Rammagerðinni, þar sem ungir og reynslumiklir hönnuðir, sem átt hafa í samstarfi við Rammagerðina eða eru að hefja samstarf, leiða saman hesta sína við gerð sérvöru sem er hönnuð og framleidd að öllu leiti á Íslandi.

Dagsetning
3. desember 2021
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Vöruhönnun