Léttur andi á málþinginu Léttari í spori

Fjölmenni mætti á málþingið Léttari í spori eða Small Steps, Big Impact þar sem rætt var um hvaða skref byggingariðnaðurinn á Íslandi þyrfti að taka til þess að draga úr kolefnissporinu.
Að málþinginu stóðu Arkitektafélag Íslands, Grænni byggð, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, Samtök arkitektastofa, Samtök iðnaðarins og Viska-stéttarfélag. Það var jafnframt styrkt af Starfsþróunarsetri háskólamanna.
Fyrstur á svið var Sinus Lynge, arkitekt og einn af stofnendum EFFEKT Design Studio. Hann sagði frá Reduction Roadmap verkefninu og vegvísinum sem EFFEKT Design Studio tók þátt í að stofna.
Hinn aðalfyrirlesarinn var Harpa Birgisdóttir prófessor og sviðsstjóri Sjálfbærni bygginga við Álaborgarháskóla. Hún hefur unnið að þróun hugbúnaðar sem reiknar vistspor bygginga, rannsóknum sem stutt hafa innleiðingu löggjafar varðandi vistspor bygginga og rannsókna sem sýna hvaða aðgerða er þörf til að byggingar gangi ekki á þolmörk jarðar og séu raunverulega sjálfbærar.
Elín Þórólfsdóttir, arkitekt MAA, umhverfis- og auðlindafræðingur og teymisstjóri hjá HMS, fjallaði svo um Vegvísinn að vistvænni mannvirkjagerð, þann árangur sem náðst hefur og næstu skref. Hún ræddi einnig lífsferilsgreiningar (LCA) í reglugerð, hvernig þær eru innleiddar hér á landi og hvaða áhrif þær hafa á byggingariðnaðinn.
Líflegar panelumræður voru svo í lokin en í panel sátu:
Sinus Lynge, Harpa Birgisdóttir, Elín Þórólfsdóttir, Borghildur Sturludóttir, arkitekt og deildarstjóri skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar, Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt og fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum í arkitektúr, Sigríður Ósk Bjarnadóttir, verkfræðingur og framkvæmdastjóri umhverfis- og gæðasviðs hjá Hornsteinum og Andri Snær Magnason, rithöfundur og umhverfisverndarsinni.
Fundarstjóri var Brynja Þorgeirsdóttir, lektor við HÍ. Hún á að baki tuttugu ára reynslu í fjölmiðlum, lengst af í Kastljósi RÚV og fréttaskýringaþættinum Kveik.









