List & Hönnun eftir Trausta Valsson

Trausti Valsson hefur gefið út bókina „List & Hönnun“ sem fylgir ævisöguþræði hans. Þetta er fimmtánda bókin sem hann sendir frá sér, en Trausti ritar bókina í tilefni 80 ára afmælis síns sem er í ársbyrjun 2026. Í bókinni segir Trausti frá verkum sínum á sviði listar og hönnunar og um leið greinir hann frá hönnunarteoríum sem hann hefur mótað á ferli sínum um þessi svið m.a. í doktorsnámi sínu í Berkeley í Kaliforníu. Trausti hefur komið víða við sögu í umræðu í þjóðfélaginu um málefni hönnunar og skipulags. Bókin gefur gott yfirlit um þessa merkilegu vegferð.
Eftir að List og Hönnun kom út hafa komið fram ýmsar umsagnir um bókina.
Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra í ræðu í útgáfuhófi í Þjóðarbókhlöðu, er bókin kom út:
… Fyrir nokkrum mánuðum byrjaði ég aftur að skoða bækur hans… sem eru mjög aðgengilegar fyrir alla að lesa. Þá sá ég að það var fyrst og fremst það sem hann hafði; að þora… á meðan aðrir þögðu … Svo skoðaði bókina hans aftur í gær, þá saknaði ég þess kannski, að hún er eins og tvær bækur… annars vegar TV sem fræðimaður… en hins vegar myndlistin. Ég hefði gjarnan viljað sjá bara myndlistina því hún er, út af fyrir sig, stórmerkileg.
Ég vil segja að lokum að ég er þakklátur fyrir það að þú hefur þorað að hafa skoðanir, kveikt áhuga hjá manni og vakið mann til umhugsunar… og ég þakka fyrir hugmyndir og framlag sem þú hefur lagt fram til arkitektúrs og skipulags…
Hilmar Þór Björnsson, arkitekt: Ég mæli með bókinni List & Hönnun, sem Trausti Valsson hefur sent frá sér. Bókin höfðar sérstaklega til mín. líklega vegna þess að við Trausti stunduðum nám i byggingarlist á miklum umbrotatímum á árunum kringum 1970, þegar stúdentabyltingin gekk yfir Evrópu og allt var gagnrýnt og krafan var að allt skyldi endurskoðað. Og nánast öllu var mótmælt. - Trausti stundaði nám sitt i Berlín og ég i Kaupmannahöfn. Nýútskrifaðir arkitektarnir voru bjartsýnir og sáu endalaus verkefni að takast á við… Teikningarnar sýna hugmyndir Trausta “global & local” án þess að missa athyglinni á hinu smæsta sem auganu mætir. - Það er mikill fengur af þessari bók…
Haraldur Sigurðsson, skipulagsfr. við skipulag í Rvk: (Haraldur fékk Ísl. bókm.verðlaunin 2023 í flokki fræðirita, fyrir grundvallarrit sitt „Samfélag eftir máli – Bæjarskipulag á Íslandi og fræðin um hið byggða umhverfi”):
Trausti er stórmerkilegur hugsuður og fræðimaður, sem mikill fengur er að í okkar örsmáa áhættufælna og oft íhaldssama samfélagi. Trausti hefur í gegnum tíðina haft hugrekki til að hugsa stórt og koma sínum hugmyndum óhikað á framfæri og þorað að hreyfa við mörgum stórum álitamálum sem síðar hafa verið tekin á dagskrá í formlegri áætlanagerð stjórnvalda.
Þessi stórhugur og langtímasýn birtist sannarlega í hans fjölmörgu fræðibókum. Að mínu mati er megin tilgangur fræðibóka… að vekja til umhugsunar, stuðla að gagnrýnni umræðu… Í raun að vera hvatning til okkar til að staldra við og hugleiða uppá nýtt. Skrif Trausta Valsonar hafa jafnan einkennst af þessu, hvort sem litið er til fræðibóka hans eða síðari skrifa hans sem eru meira á starfsævisögulegum nótum.
Þetta á við um hans nýjast verk þar sem hann fléttar á skemmtilegan hátt þroskasögu sinni sem fræðimaður við listræna hneigð sína, sem ávallt blundaði undir niðri og hefur nú fengið að njóta sín eftir að hinni formlegu starfsævi hans lauk. Þessi „samruni“ raunvísinda, stærðfræði, hönnunar og lista er kannski það sem hefur ávallt einkennt Trausta og hans hugsun; og það að hugsa út fyrir boxið. Það er mjög gefandi að lesa þroskasögu Trausta í þessari fallegu bók og sérlega gaman að lesa kaflana um námsárin í Berlín og Berkeley, þar sem hann var í kynnum við marga framúrskarandi hugsuði þess tíma…

