Kallað eftir hugmynd að sýningu fyrir hönnunarhátíðina 3daysofdesign

3daysofdesign er árleg þriggja daga hönnunarhátíð sem fer fram víða um miðborg Kaupmannahafnar. Í ár fer hátíðin fram 10.-12. júní en hún hefur vaxið mjög undanfarin ár og er vettvangur hundruð alþjóðlegra vörumerkja og upprennandi hönnuða.
Ísland hefur tekið þátt í 3daysofdesign undir stjórn MH&A undanfarin ár.

3daysofdesign verður haldin næst 10.-12. júní 2026 og er áætlað að setja upp sýningu á íslenskri hönnun/arkitektúr í anddyri sendiráðs Íslands á Bryggen í Kaupmannahöfn eins og fyrri ár. Þar má líta nýjar húsgagnalínur, lýsingu og fjölbreytilega innanhússhönnun í sýningarsölum, galleríum, verslunum og verkstæðum. Gefst þar tækifæri til að kynna verk og hugmyndir íslenskra hönnuða og arkitekta í alþjóðlegu samhengi og tengjast fagfólki víðsvegar að úr heiminum.
Markmið þátttöku Íslands í 3daysofdesign er að vekja athygli á íslenskri hönnun og arkitektúr, setja í samhengi við alþjóðlega strauma og stefnur og byggja upp tengsl og viðskiptasambönd. Sýningunni er ætlað að vekja athygli á íslenskri hönnun, hugviti og nýsköpun og ná til fagfólks, fyrirtækja, fjölmiðla og almennra gesta.
Hér má kynna sér nánar þátttöku Íslands síðustu ár: 2025, 2024, 2023.

Leitað er að teymi hönnuða og/eða arkitekta með sterka hugmynd að sýningu eða nálgun sem hafa áhuga og getu til að nýta sér þetta tækifæri, hvort sem um er að ræða með fullmótuð verk, nýjar vörur, vörur í sölu eða rannsóknar- eða tilraunaverkefni.
Við val á verkefni verður horft til hönnuða og arkitekta sem:
– hafa vakið athygli með verkum eða sýningum á HönnunarMars.
– hafa hlotið tilnefningar eða verðlaun í Hönnunarverðlaunum Íslands.
– eru með sterka hugmynd sem uppfylla ofangreind markmið.
– eru með áætlanir um erlenda markaðssókn og þátttaka í 3daysofdesign er hluti af þeirri vegferð.
– eru með raunhæfa verk- og kostnaðaráætlun.

Þátttakendur bera ábyrgð á kostnaði sem fellur til vegna þátttöku, þar á meðal vinnu við mótun og útfærslu sýningar, uppsetningu sýningar, flutningi verka, flugi, gistingu og öðrum tilfallandi útgjöldum.
Valnefnd skipuð fulltrúum viðeigandi faghópa, MH&A og Íslandsstofu/sendiráðsins fara yfir innsendar tillögur og bera ábyrgð á valinu.
Áhugasamir eru hvattir til að senda inn tillögu að sýningu eða nálgun ásamt einfaldri myndrænni framsetningu. Beðið er um að hámarki 4 x A4 síður:
– lýsing á hugmynd/verkefni, áhersla og innihald.
– lista yfir sýnendur/þátttakendur.
– verk-, kostnaðar- og kynningaráætlun.
– einföld myndræn framsetning og/eða myndir af því sem á að sýna.

Opið er fyrir innsendingar á hugmyndum til kl. 16, fimmtudaginn 12. febrúar 2026.
Umsækjendur geta sent fyrirspurnir um atriði sem varða ferlið til kl. 12, þriðjudaginn 3. febrúar á netfangið info@honnunarmidstod.is.
Fyrirspurnir og svör við þeim verða birt á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs þann 5. febrúar.
Miðstöð hönnunar og arkitektúrs hefur umsjón með verkefninu og verkefnastjórnun í samstarfi við sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn og Íslandsstofu.


