Skipulag og hönnun – sálfræðileg áhrif umhverfis og bygginga á líðan fólks
Snemmskráning á EHÍ-námskeið Páls Líndal um sálfræðileg áhrif umhverfis og bygginga á líðan fólks gildir til og með 13. febrúar. Minnum félagsmenn Arkitektafélags Íslands á 20% afslátt af 2 námskeiðum að eigin vali á vormisserinu 2021.
Á námskeiðinu verður rætt um áhrif náttúru og byggðs umhverfis á líðan fólks og hvernig megi bæta gæði umhverfis og þannig stuðla að vellíðan og bættri heilsu. Námskeiðið er ætlað hönnuðum sem vilja auka þekkingu sína á því hvernig megi hanna manngert umhverfi sem eykur vellíðan og heilsu fólks.
Á námskeiðinu verður lögð áhersla á að kynna, skoða og ræða áhrif náttúru og byggðs umhverfis á andlega, líkamlega og félagslega líðan fólks út frá umhverfissálfræði. Umhverfissálfræði er víðfeðm og mjög rísandi grein innan sálfræðinnar. Hún hefur ótalmarga snertifleti og hefur því nýst afar vel í þverfaglegri vinnu af ýmsu tagi.
Tilgangur námskeiðsins er að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi sálrænna áhrifa umhverfisins í hinu daglega amstri og sýna hvernig nýta megi þá þekkingu sem skapast hefur innan umhverfissálfræði á síðustu áratugum, til sköpunar á manneskjulegu og hagstæðu umhverfi sem skilar sé í aukinni vellíðan og bættri heilsu þeirra sem þar dvelja.
Lögð verður áhersla á umræður og skoðanaskipti, og leitast verður eftir fremsta megni að ræða málin út frá íslenskum veruleika.