Fjölbreyttir hönnunartengdir viðburðir framundan

8. desember 2023

Önnur helgi í aðventu er framundan með fjölda viðburða fyrir öll. Hér er yfirlit yfir hönnunartengda viðburðadagskrá helgarinnar. Góða skemmtun.

Litlu jólin í Elliðaárstöð

Föstudaginn 8. desember frá 12:00-16:00 er lokadagur Litlu jóla Elliðaárstöðvar.

Elliðaárstöð opnar dyrnar að gömlu rafstöðinni í Elliðaárdal fyrir gestum og gangandi. Jóla pop-up búð verður inn á verkstæði rafstöðvarinnar, þar sem ný vörulína Elliðaárstöðvar verður til sölu og sýnis. Húsin á svæðinu verða skreytt fallegum jólaljósum og kaffihúsið Á Bístró mun bjóða upp á sérstakan jólamatseðil.

Being Water

Meistarnemar í arkitektúr við Listaháskóla Íslands opna sýninguna Being Water þar sem farið verður yfir rannsókn þeirra á möguleikum vatnsins þar sem blandað er saman arkitektúr, umhverfisfræði og nýstárlegri aðferðafræði í hönnun. Á sýningunni verður rannsóknarverkefnum nemendanna safnað saman.

Opnun sýningarinnar fer fram föstudaginn 8. desember frá 17:00-20:00 í LHÍ Þverholti, sal B.

Draumarými

Hvernig talar innsæið við okkur?

Nemendur á 1. ári í arkitektúr sýna afrakstur sinn eftir námskeið þar sem þau sóttu innblástur í drauma sína og minningar sem þau yfirfæra í rými með skissum og módelum.

Sýning opnar 8. desember í Arctic Space Óðinsgötu 7, 101 Reykjavík frá 17:00-19:00.

Aðventumarkaður Angústúru

Jólamarkaður Angústúru fer fram á vinnustofu Ránar Flygenring, á horni Ásvallagötu og Hofsvallagötu um helgina. Góðar gjafir handa fólki á öllum aldri. Höfundar og þýðendur troða upp og léttar veitingar í boði.

Opnunartímar um helgina:
Laugardag 12:00-17:00
Sunnudag 12:00-17:00

Saman jólamarkaður - hönnun, list, matur og drykkur

Saman er nýr menningar & matar markaður skapaður út frá JÓLAMÖRKUÐUM PopUp Verzlunar í samstarfi við Lady Brewery. Hönnun, list, matur & drykkur koma SAMAN undir einu þaki.
Færustu hönnuðir, áhugaverðasta listafólkið, útgefendur og framúrskarandi matar & drykkjar framleiðendur saman í Hörpu, Flóa, laugardaginn 9. desember frá 12:00-18:00

Þátttakendur eru:
Melrós, ODEE, RaKatla, Sifkeramik, Falk, And Antimatter, Maik & Lóla Art with Wool, DAYNEW, Hanna Gréta Keramík, Vessel, Olialda, Jarðviska , Reynir Woodcraft, Tira Ljómandi Fylgihlutir, ÚLFUR, Halla Armanns, Smátré, Glinglingjewelry, Barnaból, Hnífasmiðjan ehf, Reykjavík Candle Co. byKrummi, Sýsla, INDIGO, Eiríks, Maríuklæði, ENDURTAKK, Hraun á Skaga Æðardúnssængur, ANNA THORUNN, Dokkan brugghús, Eimverk, Kakómýkt, Sodalab, Lady Brewery, Kikk og krásir, Sillikokkur, Fine Foods Íslandica, Lefever Sauce Company, TOR Hunang, Sonka, Alternativa & Bjórland.

Bartónar Kallakór Kaffibarsins spilar nokkur lög fyrir gesti á deginum.

Hátíð hjá Kiosk Granda

Hönnuðir Kiosk eru komnir í hátíðarskap og taka á móti gestum og gangandi, laugardaginn 9. desember, með konfekti, kaffi frá Sjöstrand og jólakokteil Kiosk. 

Kynnt verða til leiks ný hátíðardress.

Margt smátt / Little by little

Lokasýning sýningarýmisins Harbinger, Margt smátt / Little by little, opnar laugardaginn 9. desember kl. 18:00.

Á sýningunni getur að líta listaverk í smærri kantinum eftir heilan herskara af listamönnum sem hafa tekið þátt í starfsemi Harbinger á einhvern hátt þau 9 ár sem liðin eru síðan rýmið opnaði. 

Eigendur Harbinger vona að sem flestir sjái sér fært að mæta og skála fyrir Harbinger, fyrir öllum frábæru listamönnunum og hönnuðunum sem hafa lagt starfseminni lið í gegnum árin, fyrir forvitni og einlægni, listinni sjálfri listarinnar vegna og fyrir ástarkraftinum, driffjöður listamannarekinna rýma.

Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði og Myndstef, og Harbinger sýningarými hefur notið stuðnings Reykjavíkurborgar um árabil.

Tími til að skrifa jólakort í Hönnunarsafni Íslands

Sigríður Sigurjónsdóttir, forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands, býður gestum að slást í hóp með sér í jólakortasmiðju á safninu sunnudaginn 10. desember kl. 13:00.

Jólatónlist, heitt súkkulaði, nóg af pappír, pennum og umslögum.

Dagsetning
8. desember 2023
Höfundur
Klara Rún Ragnarsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Fagfélög