Peysa með öllu eftir Ýrúrarí tilnefnd til Hönnunarverðlauna Íslands 2020

19. janúar 2021

Fyrsta tilnefningin til Hönnunarverðlauna Íslands 2020 hefur litið dagsins ljós - verkefnið Peysa með öllu eftir textílhönnuðinn Ýr Jóhannsdóttur eða Ýrúrarí. Næstu daga munum við svipta hulunni af tilnefningum ársins 2020 en verðlaunin verða afhent með rafrænum hætti þann 29. janúar kl. 11.

Framleiðsla og leikstjórn: Blóð Stúdíó

RÖKSTUÐNINGUR DÓMNEFNDAR

„Öllum finnst gaman að lífga upp á útlitið, hvers vegna ætti ekki það sama að gilda um peysur sem hafa endað í Rauða Krossinum. Verkefnið Peysa með öllu var frumsýnt á HönnunarMars í júní 2020 og vöktu peysurnar, skreyttar skemmtilegum tilvísunum í pylsur, mikla athygli. Textílhönnuðurinn Ýr Jóhannsdóttir eða Ýrúrarí nýtti sér peysur frá Rauða Krossinum og glæddi þær lífi með hnyttnum og duttlungafullum hætti þannig að flíkurnar öðluðust alveg nýtt líf eftir allt volkið þar. Þetta eru flíkur sem oftar en ekki lenda í ruslagámunum meðal annars vegna sósubletta frá þjóðarrétti Íslendinga, pylsu í brauði, sem varð innblástur verkefnisins. Í stað þess að fela blettina urðu þeir uppspretta skemmtilegra textílverka þar sem tómatsósa, sinnepshringir,hlæjandi munnar og fjölbreytilegar tungur fengu að njóta sín. Innan um öll uppskrúfuðu tískuhugtökin sem reiða sig á alvarlegt inntak og framsetningu veitti þetta verkefni heillandi og fjörlegt mótvægi, opnar leið til að glæða tískuna lífi með húmor og gleði.“

UM VERKEFNIÐ

Frumsýnt á HönnunarMars 2020. Í verkefninu Peysa með öllu, vinnur textílhönnuðurinn Ýr Jóhannsdóttir, eða Ýrúrarí, með óseljanlegar peysur úr fatasöfnun Rauða krossins á Íslandi. Peysurnar hafa flestar orðið fyrir hversdagslegum mannlegum óhöppum sem skilja eftir sig varanleg ummerki og hafa þ.a.l endað í fatasöfnuninni. Í ferlinu að því að laga og umbreyta peysunum fer Ýr óhefðbundnar leiðir þar sem sósublettir fá nýtt útlit, götóttar peysur fá fleiri göt með nýjum gildum og hnökrar, lykkjuföll, slettur og flekkir heyra sögunni til í nýrri einstakri flík.

UM HÖNNUÐINN

Textílhönnuðurinn Ýr Jóhannsdóttir útskrifaðist með BA gráðu í textíl hönnun frá Glasgow School of art árið 2018 en hefur unnið með peysuformið og prjón síðan
2012. Ýr er þekkt fyrir mikla leikgleði og fyndni í bland við hagnýtni í verkum sínum og hafa peysurnar hennar vakið verðskuldaða athygli hérlendis og erlendis. Undanfarin ár hefur efnisval í verkefnum Ýrar færst í sjálfbærari áttir og þema í sköpunarferlinu gjarnan með undirliggjandi hugleiðingum um vitundarvakningu á textílneyslu.

Framleiðsla og leikstjórn á myndbandi: Blóð Stúdíó

Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, enda er vægi hönnunar í menningu, samfélagi og viðskiptalífi alltaf að aukast.

Hönnunarverðlaun Íslands beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning.

Á afhendingunni verða veitt Hönnunarverðlaun Íslands, Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands og viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun ársins 2020.

Næstu daga verður hulunni svipt af tilnefningum ársins en afhending Hönnunarverðlauna Íslands 2020 fer fram þann 29. janúar kl. 11 með rafrænum hætti. Taktu tímann frá hér!

Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn ÍslandsListaháskóla ÍslandsLandsvirkjun, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.

Dagsetning
19. janúar 2021
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Hönnunarverðlaun Íslands
  • Fagfélög
  • Textílhönnun