Samstarf Farmers Market og Aurora Foundation frumsýnt

11. desember 2023
Bergþóra Guðnadóttir, fatahönnuður og Jóel Pálsson eigendur Farmers Market ásamt handverksfólkinu í Síerra Leóne.

Fyrr á þessu ári fóru eigendur Farmers Market í ævintýraferð til Síerra Leóne þar sem markmiðið var að kynnast því starfi sem Velgerðarsjóðurinn Aurora Foundation er með á svæðinu og kanna möguleika á samstarfi. Fyrstu vörurnar eru nú komnar til landsins þar sem einstök hönnun Farmers Market og hæfni handverksfólksins blandast saman í glæsilegri útkomu. 

Aurora velgerðarsjóður var stofnaður árið 2007 og er meginstarfsemi sjóðsins í Síerra Leóne og á Íslandi. Hlutverk sjóðsins er að styðja við þróun og menningu með verkefnum sem örva samfélög á sjálfbæran máta. Meginverkefni undanfarinn ára hafa verið fræðsluverkefnið Aurora Impact og hönnunarverkefnið Sweet Salone. Með Sweet Salone verkefninu, sem hófst 2017, hefur verið unnið að samtengingu íslenskra hönnuða og handverksfólks í Síerra Leóne.

Farmers Market fór með það að markmiði að þróa vörur í samstarfi við þetta færa handverksfólk. Fyrstu vörurnar í þessu skemmtilega samstarfi eru nú komnar alla leið frá Síerra Leóne og von er á fleirum á næsta ári.

Í tilefni þess að fyrstu vörurnar eru nú komnar í sölu í Farmers Market bjóða þau í notalegan stund í verslun sinni á Granda. Þar verður hægt að kaupa fyrstu vöruna, heyra betur frá verkefninu og þiggja léttar veitingar.

Dagsetning
11. desember 2023
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Fatahönnun