DesignTalks 2023 - Sigríður Sunna Reynisdóttir, stofnandi og listrænn stjórnandi ÞYKJÓ

21. mars 2023
ÞYKJÓ. Ljósmynd: Sigga Ella

Sigríður Sunna Reynisdóttir, stofnandi og listrænn stjórnandi ÞYKJÓ, kemur fram á DesignTalks 2023 í Hörpu miðvikudaginn 3. maí.

ÞYKJÓ er þverfaglegt hönnunarverkefni fyrir börn og fjölskyldur þeirra á sviði textíl-, leikfanga- og upplifunarhönnunar. Hönnunarstarf ÞYKJÓ miðar að því að örva ímyndunarafl og sköpunarkraft barna í frjálsum leik. Í hönnunarvinnu sinni hefur ÞYKJÓ til hliðsjónar hvernig hægt er að örva snertiskyn með efnisvali og formfræði, hreyfiþroska og jafnvægisskyn. 

Sigríður Sunna Reynisdóttir er stofnandi og listrænn stjórnandi hönnunarteymisins ÞYKJÓ. Hún á að baki fjölbreyttan feril m.a. sem leikmyndahönnuður og stjórnandi hátíða og hefur það alltaf að markmiði að vinna þverfaglega að verkum sínum.

Á bakvið ÞYKJÓ er hópur hönnuða með fjölbreyttan bakgrunn sem samnýta ólíka sérþekkingu í teymisvinnu sinni. Innan vébanda ÞYKJÓ, auk Sigríðar Sunnu, eru arkitektinn Erla Ólafsdóttir, barnamenningarhönnuðurinn Ninna Þórarinsdóttir og fatahönnuðurinn Sigurbjörg Stefánsdóttir. Verk ÞYKJÓ eru unnin í nánu samstarfi við listafólk, vísindafólk, fræðifólk og síðast en ekki síst börn. 

DesignTalks 2023 fer fram miðvikudaginn 3. maí í Silfurbergi í Hörpu. Stjórnandi er Hlín Helga Guðlaugsdóttir.

Í ár mun DesignTalks takast á við spurninguna Hvað nú? / What now?, staldra við, fást við áskoranir líðandi stundar, velta upp og kanna mögulegar leiðir - og ef vel tekst til, vekja enn fleiri spurningar!

DesignTalks ráðstefnan varpar ljósi á mikilvægi hönnunar og arkitektúrs í samfélagslegum og hnattrænum breytingum, með erindum um áhrifamikil verkefni og innblásnum samtölum. Hönnuðir, arkitektar og skapandi hugsuðir, erlendir og innlendir veita innsýn í brýn viðfangsefni af öllu hjarta. Ekkert er utan seilingar.

Dagsetning
21. mars 2023

Tögg

  • DesignTalks
  • HönnunarMars
  • DesignMarch
  • Fagfélög
  • HA