Sigrún Guðjónsdóttir „Rúna” hlýtur heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands 2023

9. nóvember 2023

Heiðursverðlaunahafi Hönnunarverðlauna Íslands 2023 er Sigrún Guðjónsdóttir „Rúna” fyrir framlag sitt til leirlistar og brautryðjendastarf á því sviði hér á landi.

Rökstuðningur dómnefndar:

Lífsstarf Rúnu hverfist um hönnun, myndlist, handverk, kennslu og frumkvöðlastarf ásamt samstarfi við aðra listamenn, fyrirtæki og almenning. Í verkum hennar endurspeglast leikgleði og aðferðir Rúnu, sérkenni og auðþekkjanlegur stíll, hafa vakið forvitni og verið innblástur þeim sem á eftir henni komu í listsköpun og hönnun í leir. Segja má að myndheimur Rúnu hafi haft mótandi áhrif á nokkrar kynslóðir Íslendinga, barna sem fullorðinna, enda mátti finna verk hennar víða á heimilum og stofnunum um og eftir miðbik síðustu aldar. Starf hennar var frumkvöðlastarf á sínum tíma og hún var óhrædd við að prófa sig áfram með leirblöndur og glerunga og öll framleiðsla var að mestu unnin úr íslenskum leir. Henni var mjög umhugað um að verkin stæðu jafnfætis málverkum og annarri myndlist. Verkum Rúnu er gjarnan lýst sem ljóðrænum, þar sem unnið er með dulúð minninga og sagna sem sameinast náttúru og fegurð landsins með mildri litapallettu.

Rúna fæddist árið 1926 og ólst upp í Hafnarfirði. Á táningsaldri sótti hún nám í Myndlista- og handíðaskólanum og þar lauk hún kennaraprófi 18 ára gömul.

Árið 1946 fór hún, ásamt eiginmanni sínum Gesti Þorgrímssyni, til Kaupmannahafnar þar sem hún lagði stund á málaralist og hann höggmyndalist við Listaakademíuna. Þegar heim var komið stofnuðu hjónin Laugarnesleir þar sem Gestur sá um að móta hlutina og Rúna hannaði og málaði form og mynstur.

Upp úr 1970 hóf Rúna að gera tilraunir með postulínsliti og brenndan glerung og þróaði tækni sem fól í sér þrykkingu á litum gegnum skapalón. Í aðdraganda þjóðhátíðar á Þingvöllum árið 1974 voru tillögur hennar í samkeppni að veggdiskum valdar til útfærslu en á þeim má sjá prófíla af andlitum, fiska og fugla. Þau mótíf urðu algeng í verkum Rúnu og jafnframt ein af þekktari minnum íslenskra heimila á tímabilinu.

Rúna átti í farsælu samstarfi við aðila á borð við Bing & Gröndal og Villeroy & Boch við gerð nytjagripa og myndskreyttra flísa.

Víðsvegar á opinberum stöðum má sjá stærri verk Rúnu, svo sem í höfuðstöðvum ÁTVR á Stuðlahálsi í Reykjavík Ártúnsholti og í anddyri Seljakirkju í Breiðholti. Þá er vel þekkt verk Rúnu og Gests fyrir ofan inngang Laugardalshallar, lágmynd af líflegum íþróttagörpum úr grófum hábrenndum steinleir, sem fyrst var hannað fyrir gömlu stúku Laugardalsvallar.

Rúna hefur verið virk í íslensku listalífi frá því um miðja síðustu öld. Eftir hana liggur fjöldi listaverka, bóka, bókaskreytinga sem og ýmis hönnun. Verk eftir Rúnu má finna víða á söfnum, í opinberu rými sem og  á fjölda íslenskra heimila, Rúna kenndi við keramikdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands á árunum 1973-1987 og var vinsæll kennari.

„Á meðan maður getur unnið er tilveran skemmtileg“ er haft eftir Rúnu sem segist lifa fyrir því að vinna. Það endurspeglast í verkum Rúnu sem er brautryðjandi á sviði leirlistar hér á landi og það er með mikilli gleði sem dómnefnd veitir henni heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands árið 2023.

Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt við hátíðlega athöfn í Grósku 9. nóvember er þetta er tíunda árið í röð sem verðlaunin eru veitt. 

Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands voru veitt í fyrsta skiptið árið 2019 og er viðurkenning veitt einstaklingi sem hefur náð einstökum árangri í starfi, verið mjög áhrifamikill á sínu fagsviði eða hefur skilað framúrskarandi ævistarfi á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi.  Það var Sigríður Sigurjónsdóttir, formaður dómnefndar og forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands sem veitti Sigrúnu Guðjónsdóttur, viðurkenninguna. 

Hönnunarverðlaun Íslands eru unnin af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Grósku.

Dagsetning
9. nóvember 2023

Tögg

  • Greinar
  • Hönnunarverðlaun Íslands
  • Fagfélög