Skaftahlíð 1-3: Tímamótahús og garður
Gefin hefur verið út bók um parhúsið Skaftahlíð 1-3 í Reykjavík og garðinn við húsið.
Parhúsið Skaftahlíð 1-3 var sett í rauða hverfisvernd í Hverfisskipulagi Hlíða vegna byggingarsögulegs gildis.
Húsið var reist á árunum 1947–48 og var verulega frábrugðið þeim húsum sem þá risu í hverfinu. Arkitektinn, Hannes Kr. Davíðsson, kom þar fram með ýmis nýmæli í húsagerð sem síðar urðu útbreidd. Skipulagsstjóranum í Reykjavík leist ekki á útlit hússins og reyndi að koma í veg fyrir að það yrði byggt.
Jón H. Björnsson, fyrsti íslenski landslagsarkitektinn, fluttist í húsið árið 1959 og hannaði garðinn út frá nýrri sýn á samspil húss og garðs. Hann lét reisa skjólvegg um garðinn sem vakti mikla athygli.
Í bókinni er lýst hugmyndafræði þessara merku arkitekta sem birtist í erindum og blaðagreinum þeirra áður en þeir hönnuðu húsið og garðinn, Rakin er byggingarsagan, nýjungunum lýst og sagt frá fjölskyldunum sem létu byggja húsið og móta garðinn.
Pétur H. Ármannsson arkitekt veitti faglegar ábendingar um þá kafla sem fjalla um arkitektúr og byggingarsögu.
Kveikjan að ritun bókarinnar var BA-ritgerð í arkitektúr frá Listaháskóla Íslands árið 2010, „Skaftahlíð 1-3, tenging húss og garðs“. Höfundur ritgerðarinnar er Laufey Björg Sigurðardóttir arkitekt.
Bókin er prýdd fjölda mynda og teikninga sem fylgja lýsingum á nýmælum og hugvitsamlegum útfærslum Hannesar og Jóns.
Höfundur bókarinnar, Stefán Halldórsson, hefur búið í húsinu í 35 ár.
Bókin er 88 síður og er gefin út í litlu upplagi. Hún er til sölu hjá höfundinum á 4.000 kr. og sendir hann bókina til viðtakenda. Pantanir berist á netfangið shall@centrum.is eða í farsíma 897 0333.