Skýrsla HönnunarMars 2020 er komin út

21. október 2020

Skýrsla HönnunarMars 2020 er komin út og hægt að lesa hér. Þar er að finna allskonar fróðleik sem tengist undirbúningi hátíðarinnar og framkvæmdinni, en óhætt er að segja að ýmislegt hafi gengið á í aðdraganda þessarar stærstu hönnunarhátíðar landsins sem fór fram í tólfta sinn á þessu ári.

Margt var enn á reiki hvað varðaði skipulag, framkvæmd og útfærslu á stærstu hönnunarhátíð Íslands á tímum Covid-19. Af hverju ekki að hætta alfarið við hátíðina í þessari yfirþyrmandi óvissu? Það var sannarlega skoðað en undir niðri kraumaði ávallt sterkur vilji til að nýta tækifærið til að vekja athygli á mikilvægi skapandi hugsunar á krefjandi tímum. Hönnuðir og arkitektar, ásamt teymi HönnunarMars, tóku andstreyminu opnum örmum.

Úr ávarpi Þóreyjar Einarsdóttir, stjórnanda HönnunarMars

Skýrslan skiptist í tvo kafla, HönnunarMars og svo HönnunarMars í júní, enda má líta á það sem svo að teymið hafi undirbúið tvær hátíðir á þessu sögulega ári. Í báðum köflum er farið yfir dagskrá, kynningarmál, undirbúning, miðlun, fjármál og endurmat svo eitthvað sé nefnt.

Fyrir miðju má svo finna tímalínu, til að gefa lesendum örlitla innsýn inn í óvenjulegt undirbúningstímabil HönnunarMars 2020.

HönnunarMars, sem vanalega fer fram í marsmánuði, fór fram í júní að þessu sinni, í blíðskaparveðri dagana 24-28 júní. Um 80 sýningar og 100 viðburðir breiddu úr sér á höfuðborgarsvæðinu þar sem gestum gafst tækifæri að sækja sér innblástur og kynnast grósku íslenska hönnunarsamfélagsins.

Markmið HönnunarMars er margþætt og ágóðinn fyrir Ísland gífurlegur. Hönnun veitir nýja sýn á þekkt vandamál, einfaldar það sem er flókið og finnur jafnvægi í óvissu. Hönnuðir finna tækifæri í því sem aðrir sjá sem glatað og skapa verðmæti úr því sem ekki þótti verðugt frekari athugunar.

Úr ávarpi stjórnar HönnunarMars. Bergur Finnbogason, creative director CCP, Brynhildur Pálsdóttir, hönnuður og Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs

Dagsetning
21. október 2020
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Skýrsla
  • HönnunarMars
  • Fagfélög