Sunna Örlygs – Grand Illusions of a Great Fashion Escape

11. júní 2017

Viðtalið birtist fyrst í 6. tölublaði HA, 2017.

Sunna Örlygsdóttir fatahönnuður útskrifaðist árið 2016 með meistaragráðu frá ArtEZ, Academy of Arts and Design í Arnhem. Þessa dagana vinnur hún að nýrri línu sem er óbeint framhald af útskriftarverkefni hennar sem bar yfirskriftina Grand Illusions of a Great Fashion Escape

Hugmyndin að baki lokaverkefni Sunnu var rannsókn á því sem gerist þegar fatahönnuður einangrar sig algjörlega frá daglegu umhverfi sínu, áhrifum og áliti annarra. „Hugmyndin var ekki sjálfsprottin. Fyrsta árið í mastersnáminu var mjög krefjandi og við upphaf annars árs vorum við aðeins þrjár eftir í bekknum af fimm. Það eina sem mig langaði að gera á þessum tíma var að vera ein, langt í burtu frá öllu, að gera það sem mér finnst skemmtilegast. Um svipað leyti fann ég grein um kanadískan mann og háskólakennara, Robert Kull, en í doktorsverkefni sínu hafði hann rannsakað áhrif einveru á fólk. Hann hafði eytt einu ári í kofa á lítilli eyju undan ströndum Chile í afar takmörkuðu sambandi við umheiminn. Ég las þetta og hugsaði hversu mikið ég væri til í að vera Bob. Þar sem ég gat ekki alveg stokkið frá skólanum ákvað ég að prófa þetta huglægt, því ef þú ert ekki frjáls í hugsunum þínum, hvar geturðu þá verið frjáls?“ segir Sunna. Þessar ímynduðu aðstæður höfðu áhrif á ákvarðanir sem hún tók í ferlinu en við upphaf þess gerði hún einnig lista yfir þá hluti sem hún myndi taka með sér ef hún væri á leið í útlegð í eitt ár. Á listanum voru nytsamlegir hlutir á borð við galvaniseraða nagla og segldúk en einnig nostalgískir munir sem höfðu ekki augljóst notagildi: „Ég ímyndaði mér að ef ég myndi gera þetta þá myndi ég samt vilja klæða mig upp á sunnudögum.“

Fingrafar hönnuðar

Við vinnu línunnar segist Sunna ekki haft velt fyrir sér neinni lokaniðurstöðu eða því hvernig flíkurnar myndu á endanum raðast saman heldur hafa látið innsæi ráða ferðinni. „Ég held að það skíni alltaf í gegn þegar eina og sama manneskjan vinnur allt verkefnið frá upphafi til enda. Þú sérð alltaf þetta fingrafar,“ segir hún. Aðspurð hvert hennar fingrafar sé segir Sunna að það liggi eflaust í þeim aðferðum sem hún notar: „Það sem mér finnst skemmtilegast að gera er alls konar meðhöndlun á textíl, skraut og smáatriði. Ég vona að það sé fingrafarið mitt.“ Sunna bætir við að hún hafi í gegnum öll sín verkefni, frá því að hún var í B.A.-námi við Listaháskóla Íslands, haft áhuga á óræðum hlutum sem búa yfir öðru og meira en virðist við fyrstu sýn og hugmyndinni um stefnumót þess agnarsmáa og þess ofurstóra. Að taka smáatriði og stækka það upp svo það verði ráðandi þáttur í flíkinni: „Einn af kennurunum mínum sagði að ég fílaði best hluti sem væru snjallir og fyndnir á sama tíma („clever funny“). Ég bý oft til hluti af því mér finnst þeir vera fyndnir þó svo að kennurunum mínum hafi fundist þeir vera tímasóun.“

Upphafið í efninu

Við gerð línunnar studdist Sunna í fyrsta skipti við rannsóknarspurningu og segist hafa fundist kominn tími til að reyna nýjar vinnuaðferðir og prófa að vinna ekki eingöngu út frá því sjónræna: „Þetta var tilraun. Ef ég gæti ekki gert tilraunir í náminu, hvenær ætlaði ég þá að gera þær?“ Hún segir jafnframt að hvert verkefni hefjist með efninu, þeim möguleikum sem það býður upp á, og að formið verði til út frá eiginleikum þess. Innblásturinn að efnisvali línunnar kemur frá ódýrum hráefnum en Sunna segir að um leið veki allt sem tengist lúxus áhuga hennar: „Að gera lúxusútgáfu af flík er eitt það skemmtilegasta sem ég veit.“ Hún bætir við að hún sé með blæti fyrir efnum og nefnir sem dæmi kápu úr útskriftarlínunni sem við fyrstu sýn virðist vera haldið saman með iðnaðarlímbandi. Hugmyndin kemur vissulega þaðan en við gerð flíkurinnar notaðist hún við næfurþunnt leður sem hún lét framleiða sérstaklega í Tyrklandi og festi svo á kápuna með skáböndum úr silki-organza.

Afturhvarf og áframhald

Það má greina ákveðið afturhvarf í verkum Sunnu, einkum og sér í lagi hvað varðar handverkið sem liggur að baki flíkum hennar. Sunna segir að sér finnist sá tími sjarmerandi þegar algengt var að fólk gerði fötin sín sjálft og þau miðuðust eingöngu við líf þess og þarfir. Við þetta bætir hún að móðir hennar hafi oft saumað föt á hana og bróður hennar þegar þau voru krakkar og að hún sjái þar augljósa tengingu við áhuga sinn á handverki og öllu því sem er einstakt. 

Síðustu misseri hefur Sunna unnið að nýrri fatalínu sem hún stefnir á að sýna í byrjun næsta árs en línan er óbeint framhald af útskriftarverkefni hennar frá ArtEZ. „Ég er að sjóða hugmyndavinnuna niður í fjögur „look“. Ég vil alltaf gera allt en núna ætla ég að prófa að takmarka mig,“ segir Sunna og bætir við að lokum: „Ég er svona skúffuhönnuður. Mér finnst mesta ánægjan felast í því að búa hlutina til og þegar þeir eru svo tilbúnir missi ég smá áhugann og langar strax að byrja á einhverju nýju. Ég ætla þó að reyna að setja þessa línu ekki bara ofan í skúffu.“

Dagsetning
11. júní 2017
Texti
Hera Guðmundsdóttir
Ljósmyndir
Magnús Andersen

Tögg

  • HA
  • HA06
  • Fatahönnun
  • Viðtal