Þeir skilja sem eiga að skilja – Tvíeykið Krot & Krass tekst á við torræðni höfðaleturs

28. febrúar 2019
Myndataka fyrir 7. tölublað HA

„Sú einasta leturgerð sem talist getur al-íslensk, er hið svonefnda höfðaletur, og er það ekki með öllu vansalaust að Íslendingar skuli ekki vera læsir á þetta einasta letur sitt,“ skrifaði myndskerinn Ríkharður Jónsson á þriðja áratug síðustu aldar. Ríkharður, sem var einn fremsti útskurðarmeistari Íslendinga, taldi höfðaletur svo merkilegan hluta af íslenskri menningarsögu að gera ætti það að skyldunámsefni í skólum landsins. 

Grafíska tvíeykið Krot & Krass, sem áður hét Stúdíó Kleina og samanstendur af Elsu Jónsdóttur og Birni Loka Björnssyni, hefur undanfarna mánuði unnið að ítarlegum rannsóknum á höfðaletri og sýndi afraksturinn af þeirri vinnu í Listasafni Reykjavíkur á síðastliðnum HönnunarMars. Sýning þeirra var hluti af samsýningunni TypoCraft Helsinki to Reykjavík, þar sem íslenskir og finnskir hönnuðir sýndu leturtýpur í hinum ýmsu myndum.

Höfðaletur er sérstakt útskurðar- eða skrautletur sem hefur verið fyrirferðarmikið í íslenskum tréskurði allt frá 16. öld. Almennt er talið að höfðaletur hafi þróast út frá gotnesku lágstafaletri og enn fremur að það eigi sér fyrirmynd í svokölluðu bendlaletri sem fylgir formum af uppábrotnum borða. Mögulega hafa bókstafir á prestsklæðum, mótaðir með skrautborðum, verið innblástur að höfðaletri, enda hafi kirkjumunir á þeim tíma verið öðrum fremri í efnum og glæsileika.

Höfðaletur er torlesið og ber með sér dulrænt yfirbragð en alþýðulistamenn notuðu það gjarnan til að skreyta ýmsa dýrgripi úr við, málmi eða dýrahornum. Eigendur gripanna voru oftar en ekki þeir einu sem vissu hvað á þeim stóð. Orð og setningar voru oft skrifaðar aftur á bak og jafnvel var notast við dulmál og skammstafanir til að auka enn á ólæsileika letursins. Höfðaletur var aldrei notað sem hefðbundið skrifletur enda hentar það mjög illa sem slíkt en í íslenskum útskurði naut letrið gríðarlegra vinsælda og er sagt að lífseigju þess megi rekja til þess að Íslendingar hafi frá örófi alda haft sérstakt dálæti á því að rýna í tormeltar rímur, gátur og dulrúnir.

Elsa og Loki á vinnustofu sinni í Reykjavík.

Elsa og Loki eru menntaðir grafískir hönnuðir og hafa verið áberandi í vegglist hér á landi, meðal annars sem hluti af teymi listamanna sem vinnur undir merkjum Skiltamálunar Reykjavíkur. „Ætli það hafi ekki verið dulrænir eiginleikar höfðaletursins sem heilluðu okkur. Í graffinu er maður vanur að vinna með myndmál og letur sem getur verið torlesið fyrir þá sem ekki þekkja til. Höfðaletur og graffiti eiga það sameiginlegt; þeir skilja sem eiga að skilja,“ segir Loki.

Þau segja að hugmyndin að vinna með höfðaletur hafi lengi blundað í þeim en sökum anna áttu þau erfitt með að gefa sér nægan tíma í verkefnið. Í byrjun ársins 2018 fengu þau listamannalaun og þá skapaðist svigrúm til að hefja nauðsynlega rannsóknarvinnu og keyra verkefnið áfram. Þau sökktu sér í allt lesefni sem til er um höfðaletur, þar á meðal skrif Ríkharðs Jónssonar og doktorsritgerð Gunnlaugs Briem letursmiðs frá árinu 1980, Höfðaletur, a study of Icelandic ornamental lettering from the sixteenth century to the present. Ritgerðin nýttist þeim sérstaklega vel en hún er eina ítarlega fræðilega rannsóknin sem gerð hefur verið á letrinu. 

Vetrarríki, veggverk á Flateyri, 2018.

Til eru fjölmargar útgáfur af höfðaletri enda hafa útfærslur mótast af færni, kunnáttu og verkfærum skurðarmanna hverju sinni. Einnig er talið að fullkomnar fyrirmyndir að öllu stafrófinu hafi verið sjaldséðar og það hafi haft sitt að segja um þróun letursins. Stakur gripur með nafni eða versi innihélt tæplegast allt stafrófið og því tók fólk sér oft skáldaleyfi og fyllti í eyðurnar sem að endingu leiddi til þess að sérstök stílbrigði urðu til í hverri sveit. Ríkharður Jónsson tók saman átta útgáfur höfðaleturs snemma á 20. öld og Elsa og Loki hafa unnið út frá niðurstöðum hans. Þau teiknuðu upp sjö þeirra, komu þeim á stafrænt form og gerðu úr þeim fullbúnar leturtýpur. Einnig þróuðu þau sínar eigin útgáfur af höfðaletri og gerðu úr þeim máluð grafíkverk sem seldust upp á sýningunni á HönnunarMars.

Upphaflega ætluðu þau að setja letrin í almenna sölu á heimasíðu þeirra en hættu við í miðju ferli. „Okkur þykir orðið svo vænt um letrin að við viljum ekki selja þau hverjum sem er, því þá enda þau bara á kaffibollum og lyklakippum í túristabúðum. Við höfum meiri áhuga á að nýta þau áfram í okkar eigin verkum og í samstarfsverkefnum með öðrum hönnuðum og listamönnum,“ segir Loki og Elsa nefnir að þau ætli sér að taka verkefnið enn lengra: „Nú þekkjum við grunninn og reglurnar og getum leyft okkur að brjóta allt upp og halda áfram að þróa okkar eigin afbrigði af letrinu. Við erum líka með hugmyndir um að stækka skalann og færa okkur yfir í aðrar víddir og önnur efni en meira viljum við ekki segja í bili.“

„Þegar maður hefur tök á því að gefa sig allan í svona sérhæft verkefni þá gerist eitthvað mjög merkilegt. Það kemur alltaf eitthvað óvænt og ófyrirséð inn í jöfnuna og opnar nýjar dyr, hvort sem það eru peningar, innblástur eða ný eftirsóknarverð verkefni.“

Þau segja það vera ótrúlega góða tilfinningu að geta sökkt sér í svo tímafrekt verkefni án þess að þurfa að hugsa um peningahliðina; vinnugleðin margfaldist og afköstin eftir því. „Þegar maður hefur tök á því að gefa sig allan í svona sérhæft verkefni þá gerist eitthvað mjög merkilegt. Það kemur alltaf eitthvað óvænt og ófyrirséð inn í jöfnuna og opnar nýjar dyr, hvort sem það eru peningar, innblástur eða ný eftirsóknarverð verkefni,“ segir Loki.

„Hér áður fyrr tók maður bara að sér öll grafísk verkefni og hélt að það væri málið. En um leið og maður fer að sérhæfa sig og þróa sitt eigið þá ber fólk miklu meiri virðingu fyrir því sem maður er að gera. Kúnninn veit hvað hann fær og treystir manni betur,“ segir Elsa og nefnir samstarf þeirra við listahátíðina Sequences sem dæmi. „Þau báru fulla virðingu fyrir okkur sem listamönnum. Traustið var 100% sem að mínu mati skilar sér alltaf í útkomunni.“ Loki tekur undir þetta og nefnir annað sambærilegt verkefni. „Þegar við vorum valin til að hanna útlit fyrir Hönnunarverðlaun Íslands upplifðum við mikið traust þrátt fyrir að hugmynd okkar hafi ef til vill ekki verið sú auðveldasta í framkvæmd. Fyrir vikið varð útkoman afar falleg og við erum mjög stolt af þeirri vinnu.“

Þeir sem hafa fylgst með Elsu og Loka síðustu ár vita að þau vinna eftir sterkum prinsippum og segja má að þau hafi tekið út mikinn hönnunarlegan þroska á stuttum tíma. Síðastliðin tvö ár hafa þau unnið undir merkjum Stúdíó Kleinu en hafa nú skipt út því nafni fyrir Krot & Krass. Elsa segir þau skilgreina sig sem listamenn frekar en grafíska hönnuði, letursmiðju eða hönnunarstúdíó: „Hönnuðir ættu að vera óhræddir við að líta á sig sem listamenn eða í það minnsta temja sér hugsunarhátt listamannsins en ekki festast í hlutverki uppsetjara eða verða huglaus framsetningartól fyrir hugmyndir og vilja annarra.“

Dagsetning
28. febrúar 2019
Texti
Arnar Fells
Ljósmyndir
Rafael Pinho
Viðtalið birtist upphaflega í 7. tbl. HA sem kom út vorið 2018.

Tögg

  • HA
  • HA07
  • Krot & Krass
  • Grafísk hönnun
  • Viðtal