Um mikilvægi hönnunar og arkitektúrs í mótun samfélags til framtíðar

24. júní 2020

Í aðdraganda HönnunarMars hátíðarinnar, stuttu áður en samkomubann skall á og hátíðinni var frestað um þrjá mánuði, settust þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra niður með Hlín Helgu Guðlaugsdóttur, stjórnanda DesignTalks ráðstefnunnar, og ræddu um mikilvægi hönnunar og arkitektúrs í mótun samfélags til framtíðar.

HH: Það má segja að DesignTalks sé að vissu leyti rödd HönnunarMars á hverjum tíma og núna teflum við fram hönnuðum og arkitektum sem eru að bregðast við nýrri heimsmynd og aðstæðum á einn eða annan hátt. Umfjöllunarefnin eru fjölbreytt og sýna vel hvaða hlutverki þessar greinar gegna og geta gegnt í samfélaginu, ekki hvað síst í óvissunni. Inntak ráðstefnunnar er hversu mikilvægt ímyndunaraflið er þegar við stöndum frammi fyrir því að þurfa að móta nýja framtíðarsýn og eins að við þorum að vera róttæk í endurhugsun og endurhönnun. Við þurfum að nálgast framtíðina með gagnrýnum augum en með vonina að leiðarljósi. Á þeim nótum spyr ég: Hverjar eru hugmyndir ykkar um mikilvægi hönnunar og arkitektúrs og hlutverk þeirra í mótun framtíðar?

GIG: Það fyrsta sem maður hugsar um er hvernig hið opinbera getur reynt að búa til umgjörð þannig að fólk sem vinnur í skapandi greinum geti blómstrað. Ég held að það sé lykilatriði. Eitt af því sem við erum að gera nýtt sem tengist einmitt þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í loftslagsmálum og nýtingu auðlinda er hið svokallaða hringrásarhagkerfi. Þar eru ótal tækifæri að mínu mati til þess að virkja þann kraft og þá sköpunargáfu sem er í skapandi greinum. Vegna þess að verkefni hringrásarhagkerfisins er í rauninni að umbylta hugsuninni og hvernig við umgöngumst auðlindirnar. Að við nýtum þær betur sem hráefni til að búa til vöru eða þjónustu og það sem fellur út af færibandinu – ef við hugsum framleiðsluferlið sem færiband – að við notum það í síauknum mæli til þess að búa til nýja þjónustu eða nýjar vörur og svo að við bæði endurvinnum og endurnýtum betur og notum allan úrgang sem efnivið. Þarna eru hönnun og arkitektúr lykilgreinar til þess að búa til eitthvað nýtt úr einhverju sem við höfum verið að henda eða nýta mjög illa. Stjórnvöld eru að hefja innleiðingu á kerfi sem þýðir að gerðar verða meiri kröfur þegar kemur að framleiðsluferlum, hönnun og svo framvegis, meðal annars hvað varðar plast. Við erum líka að setja meira fjármagn í græna nýsköpun þannig að við erum að reyna að búa til umhverfi þar sem þessar greinar geta blómstrað.

KJ:  Í fyrsta lagi fannst mér ég læra það eftir hrun, þegar ég fór inn í ríkisstjórn, að hugmyndafræði hönnunar er eitthvað sem nýta má langt út fyrir það sem við köllum með þröngum hætti hönnun. Það er að segja að þegar við nálgumst samfélagsleg viðfangsefni er hugmyndafræði hönnunar í raun og veru að taka allt og endurhugsa það, hugsa hlutina upp á nýtt. Mér fannst það alveg gríðarlega hjálplegt og það voru einmitt fulltrúar úr hönnunarsamfélaginu, sem þá var svolítið að slíta barnsskónum eftir stofnun Hönnunarmiðstöðvar og mótun hönnunarstefnu, sem kynntu þetta fyrir mér; að nálgast samfélagsleg verkefni eins og hönnunarverkefni. Ég held að við getum gert mjög margt öðruvísi og betur, ekki síst þegar við mætum svona stórum áskorunum – hér á ég við loftslagsvána og við getum talað um tæknibreytingarnar líka – að hafa þetta hugarfar. Síðan, sem tengist meira því sem Guðmundur er að segja, er þetta samspil, hvað hönnun getur skipt miklu máli í því að við séum að skapa umhverfisvænna samfélag. Því að við erum neyslusamfélag, það er bara þannig. Þá þurfum við að endurhugsa hvernig við neytum þannig að það valdi ekki þessum skaða – að það sé gert með þessum sjálfbæra hætti. Þar mun hönnun, og skapandi greinar almennt, sem nálgast hlutina með þessum nýja hætti, skipta öllu um hvort við náum árangri í þessu verkefni.

Í fyrsta lagi fannst mér ég læra það eftir hrun, þegar ég fór inn í ríkisstjórn þá, að hugmyndafræði hönnunar er eitthvað sem maður getur nýtt langt út fyrir það sem við köllum með þröngum hætti hönnun. Það er að segja að þegar við nálgumst samfélagsleg viðfangsefni þá er hugmyndafræði hönnunar í raun og veru að taka allt og endurhugsa það, hugsa hlutina upp á nýtt. Mér fannst það alveg gríðarlega hjálplegt [...] að nálgast samfélagsleg verkefni eins og hönnunarverkefni.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra

HH: Sjáið þið fyrir ykkur að hönnuðir og arkitektar séu við borðið í upphafi þegar það er verið að móta verkefni? Að þið byðuð þeim upp í samtal í stað þess að þeir séu aftast í keðjunni?

KJ: Við erum oft að taka ákvarðanir um vísindi og nýsköpun og síðan er einhver aðskilinn heimur sem heitir skapandi greinar – á þetta ekki miklu meira að renna saman? Þetta er eitt af því sem er búið að ræða töluvert varðandi stjórnsýslu skapandi greina. Við þurfum að lyfta henni í kerfinu okkar en á þetta ekki miklu meira að vera hluti af þessari heildarsýn? 

HH: Akkúrat.

GIG: Þetta er það sem við erum að reyna að gera á fleiri sviðum, eins og ef við tökum náttúruvernd sem dæmi. Þar erum við að reyna að hafa sem flesta við borðið þegar ákvarðanir eru teknar vegna þess að það skilar meiri árangri. Þetta er í rauninni sama hugmyndafræði.

HH: Hvað þyrfti til þess að við sem þjóð gætum verið leiðandi í heiminum í því að móta sjálfbærari samfélög og stuðla að endurnýjandi áratug?

KJ: Það er rosalegt verk að vinna fyrir Ísland því að við losum auðvitað gríðarlega mikið magn gróðurhúsalofttegunda. Við erum miklir neytendur, og höfum verið, en núna erum við að sjá algjör umskipti. Ríkisstjórnin er að forgangsraða umhverfis- og loftslagsmálum, almenningur er að forgangsraða umhverfis- og loftslagsmálum og atvinnulífið er að standa upp og segja: Við ætlum að vera hluti af þessari lausn. Þannig að á sama tíma og við höfum ekki alveg verið að standa okkur eru hér mikil tækifæri og af því við erum fámenn þjóð getum við tengt saman alla þessa ólíku aðila mun hraðar en margar aðrar þjóðir. 

HH: Það gæti verið okkar styrkleiki?

GIG: Já, klárlega og ég tek undir þetta með smæðina, hún getur stundum gert okkur kleift að gera hlutina hraðar og sýna fram á að það sé hægt. Við erum kannski eins og ein borg í Bandaríkjunum, Kína eða Evrópu að stærðargráðu en erum heilt samfélag með allt það sem samfélag þarf að hafa sem stýrir hagkerfinu og öllum innviðum þess. Í rauninni höfum við gert þetta áður þegar kemur að hitaveituvæðingunni og því að framleiða rafmagn með umhverfisvænni hætti en venjulega er gert og við erum úti í miðri á þegar kemur að því að umbylta samgöngukerfinu okkar. Þetta þurfum við að gera í svo mörgum öðrum greinum. Við erum líka þekkt fyrir það að hafa staðið okkur vel í að vinna gegn landeyðingu þannig að það er líka áhersla sem við erum með í þessum loftslagspakka; að horfa á samhengi náttúru, lífríkis og loftslagsmála. Þarna getum við verið leiðandi, alveg klárlega.

HH: Ísland er kannski eins og nokkurs konar prótótýpa?

GIG: Getur verið það, já. 

HH: Hvað þyrfti til þess að við myndum þora að vera róttæk, skapandi, gagnrýnin og með vonina að leiðarljósi? Hvað ef við myndum bara setja okkur það markmið – að verða landið sem allir hinir horfa til?

KJ: Á sumum sviðum höfum við verið landið sem allir horfa til. Tökum bara kynjajafnrétti sem dæmi. Ef við lærum af þeirri sögu og heimfærum hana upp á þessa tengingu skapandi greina og umhverfismála held ég að það sem hefur skilað okkur mestum árangri á sviði kynjajafnréttis sé þessi mikla kvennasamstaða – grasrótarhreyfingar sem hafa í raun keyrt áfram breytingar. Oft á mjög róttækan hátt en vegna þess að krafturinn kemur úr grasrótinni hafa þessar breytingar skilað þeim árangri að við höfum mótað okkar velferðarkerfi út frá sjónarmiðum kynjajafnréttis, hvort sem það eru leikskólar eða fæðingarorlof. Við höfum í raun og veru gert það að verkum að það er hluti af kosningabaráttunni fyrir hverjar einustu kosningar að stjórnmálamenn þurfa að svara fyrir afstöðu sína til kynjajafnréttis. Það var ekki þegar ég byrjaði í pólitík, þá var ekki einu sinni spurt um það. Þannig að þessi sterka grasrótarhreyfing hefur í raun verið aflið sem hefur skilað okkur í fremstu röð. 

GIG: Þetta er að fara að koma núna í umhverfismálum, sérstaklega loftslagsmálum. Nú munu allir þurfa að svara fyrir þau – hvernig svo sem þeir munu síðan svara. Ég held að lykilatriði í þessu sé orðið sem þú nefndir áðan; von. Vegna þess að þegar maður er að takast á við viðfangsefni sem, ef látin óáreitt, munu leiða okkur á einhvern slæman stað eins og er með loftslagsmálin – maður verður alltaf að hafa von. Það mikilvægasta til þess að geta verið með von og haldið í hana er að sjá að það sé verið að gera eitthvað í málinu. Um leið og fólk finnur fyrir því að það geti verið þátttakandi í stærra heildarsamhengi við að breyta hlutunum erum við komin með meiri forsendur fyrir því að geta verið þetta leiðandi afl sem við eigum alveg að geta verið, að minnsta kosti á vissum sviðum.

KJ: Ég held að þetta snúist um þetta virka samspil grasrótarhreyfinganna og stjórnvalda. Ef við tökum jafnréttislíkinguna aftur, hafa til dæmis lögin um fæðingarorlof breytt gildismati þeirra sem á eftir koma. Við þurfum einhvern veginn að grípa þetta mikla afl sem við finnum hjá fólkinu í landinu þegar kemur að loftslagsmálum og nýta það til breytinga á gildismati og forgangsröðun. 

HH: Í því samhengi, sjáið þið fyrir ykkur að hönnun og arkitektúr spili hlutverk þarna?

KJ: Ég hef náttúrulega bara trú á því að inni í efnahagsmódeli framtíðarinnar muni þetta skipta meira og meira máli, hvort sem það varðar hönnun eða aðrar skapandi greinar. Tökum sem dæmi vegna tæknibreytinga hvaða eiginleikar eru að færast ofar í því sem er metið mikilvægast hjá jafnvel íhaldssömum stofnunum eins og World Economic Forum. Allt í einu er skapandi hugsun og tilfinningagreind komin á topp tíu. 

GIG: Já, ég held að þetta skipti miklu máli til framtíðar vegna þess að hönnun og skapandi greinar eru svo mikilvægar í því að móta þá sjálfbærni og sjálfbæru hugsun sem við erum að hugsa um. Þannig að það er órjúfanlegur þáttur í því. 

KJ: Þetta er bara þessi endurnýjanlega hugsun sem er í raun og veru kjarninn í hönnunarhugsun. 

HH: Algjörlega, við getum verið sammála um það. 

Dagsetning
24. júní 2020
Höfundur
María Kristín Jónsdóttir

Tögg

  • HA
  • HA Extra
  • HönnunarMars
  • Viðtal