Útskriftarverkefni varð að letri í nýju merkingakerfi á ferðamannastöðum og friðlýstum svæðum

12. apríl 2021

Letur fyrir vegvísakerfi Vegagerðarinnar var viðfangsefni grafíska hönnuðarins Simonar Viðarssonar þegar hann útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands í fyrra. Hann starfar nú hjá hönnunarstofunni Kolofon sem vinnur að nýju merkingarkerfi fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði. Letrið hans Simonar, Gata Sans, er notað sem grunnur að nýju letri fyrir verkefnið en nýtt merkingarkerfi lítur dagsins ljós í lok þessa mánaðar.

Simon Viðarsson

„Í Listaháskóla Íslands fann ég fyrir miklum áhuga á hönnun og ákveðnum viðfangsefnum innan fagsins. Leturhönnun var eitthvað sem ég tók sérstaklega til mín og kviknar áhugi minn á henni í áfanga hjá Gabríel Markan og Gunnari Vilhjálmssyni. Í áfanganum lærði ég að hvert letur hefur sinn tilgang og eru þau hugsuð með ákveðið notagildi í huga. Þetta var nýtt fyrir mér og varð til þess að ég fór að rýna í letur á allt annan hátt en áður,“ segir Simon og bætir við að leturhönnun er þolinmæðisvinna og krefst þess að horft sé á heildarmyndina í gegnum allt ferlið. „Að breyta einum bókstaf getur gefið annað yfirbragð á heildarmynd letursins og þar af leiðandi myndað nýja eiginleika sem þarf að yfirfæra á aðra bókstafi. Það getur verið erfitt að setja punktinn yfir i-ið og ljúka við gerð letursins. Þetta er vinna sem krefst síendurtekinnar endurskoðunar og mér finnst eitthvað heillandi við það.“

Simon lagði upp með að útskriftarverkefnið byggðist á upplýsingahönnun og merkingum fyrir íslenska vegvísa. „Í ferlinu fóru þó áherslur að breytast og þróast, eins og gerist svo gjarnan. Á endanum þróaðist verkefnið út í leturgerð og úr því varð til letrið Gata Sans. Gata Sans er einnar vigtar steinskriftarletur og er hannað með vegvísa á Íslandi til hliðsjónar. Nafnið Gata er skírskotun í notagildi letursins sem vitnar einfaldlega í veg eða götu og Sans er enskt heiti yfir steinskrift.“

Hugmyndin kom upphaflega þegar Simon var að keyra um landið og rak augun í skiptingu orða á umferðaskiltum (t.d bæjarheitum) og það þótti varhugavert enda um upplýsingar sem þurfa að komast til skila á skömmum tíma við misjafnar aðstæðum. Óþarfa orðaskipting þótti stangast á við markmiðið og fór Simon því að lesa sér til um vegvísakerfið sem reyndist vera afrit af vegvísakerfi Danmerkur, þó eitthvað aðlagað að íslenskum aðstæðum. Letrið sem er notað heitir Transport og var upphaflega hannað fyrir breska vegakerfið.

Orðaskipting á umferðaskilti.

„Þegar ég fór að rýna nánar í kerfið fannst mér það í heildina nokkuð gott og í raun ekki margt ábótavant. Það var þó eitt sem sat í mér í gegnum rannsóknarvinnuna og það var letrið. Þegar hönnunarvinnan fór af stað fyrir Gata Sans var ég búinn að rýna í ýmis letur sem eru notuð á upplýsingaskiltum og vegvísum. Úr þeirri tók ég sérstaklega eftir tveimur letrum sem ég held mikið upp á og hef ég sótt mikinn innblástur frá þeim. Það voru letrin Frutiger eftir Adrian Frutiger og hollenska vegvísaletrið ANWB eftir Gerard Unger.

Vegvísaletur eru almennt frekar vélræn í útliti, í fyrstu voru vegvísar ekki taldir hönnunarlegs eðlis og voru þess vegna verkfræðingar fengnir til þess að hanna þau. Fyrstu vegvísaletrin voru útbúin eftir ströngum rúmfræðilega reglum og voru nær eingöngu byggð á geometríu. Það er ekki meitlað í stein hvernig letur vegvísa á að vera en meginmarkmið þeirra er ávallt læsileki og skilvirkni í umferðinni. Margar rannsóknir hafa verið gerðar sem sýna fram á þætti sem auka læsileika leturs og öfugt, t.d. hefur verið sýnt fram á að geometría geri það ekki. Því vildi ég að hörfa frá því að hafa geometríu sem útgangspunkt við hönnun Gata Sans. Að því sögðu, hafi ég þó ávallt læsileika og skilvirkni í huga án þess að láta það stýra hönnunarákvörðunum mínum. Markmiðið var fyrst og fremst að gera fallegt vegvísaletur en með læsileika og skilvirkni sem grunn forsendur.“

Eftir útskrift var það ávallt hugmynd Simonar að vinna letrið áfram og gaf merkingarverkefnið honum tækifæri til áframhaldandi þróun letursins.

Bakgrunnur verkefnisins er sá að Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið auglýsti síðasta sumar eftir hönnunarteymi til að hanna merkingar, merkingakerfi og merkingarhandbók fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði. Verkefnið byggir á stefnumarkandi landsáætlun 2019–2029 og verkefnaáætlun 2019–2021 um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum og felur í sér að uppfæra núverandi merkingakerfi og aðlaga að nýjum áskorunum. Teymið Kolofon&co var valið og hafa verið að vinna í verkefninu undanfarna mánuði.

„Þegar ásýndarvinnan fór af stað skoðuðum við ýmis letur sem gætu hentað fyrir verkefnið. Þar sem kerfið þarf að vera aðgengilegt öllum sem vilja og þurfa að nota það, myndi leyfisveiting á keyptu letri vera mjög kostnaðarsöm. Þá kom upp sú hugmynd að hanna sérsniðið letur sérstaklega fyrir verkefnið. Í fyrstu datt mér ekki í hug að lokaverkefnið myndi koma að notum í því samhengi, en fljótlega kom upp á stofunni að nota Gata Sans sem grunn að nýju letri fyrir verkefnið. Eftir að sú ákvörðun var tekin ræddum við okkar á milli hvernig við vildum þróa letrið og hefur það gengið vonum framar,“ segir Simon og er þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri á stofunni til að vinna letrið áfram. Þar hefur hann notið stuðning frá samstarfsfólki sínu á Kolofon og frá Gabríel Markan, leturhönnuði.

Letrið hefur tekið nokkrum breytingum frá útskriftarverkefninu þó að grunnurinn sé Gata Sans. Verkefnin eru unnin út frá ólíkum aðstæðum, lokaverkefnið var unnið út frá vegfarendum í bifreið sem lesa á ferð en merkingarverkefnið sinnir gangandi vegfarendum.

„Af þeim sökum fær letrið að byggja meira á fagurfræði og hönnunarákvarðanir eru mun frjálslegri í samanburði við lokaverkefnið. Það hefur þó ekki haft áhrif á læsileika letursins, miðað við breyttar forsendur á notkun þess. Við fengum tækifæri til að láta taka letrið út í prófunum. Sem dæmi höfum við athugað læsileika út frá mismunandi fjarlægðum og hefur letrið verið tekið út í skoðun fyrir læsileika fyrir sjónskerta. Í lokaverkefninu gerði ég einungis eina vigt af letrinu (semibold) en við vildum bæta við tveimur vigtum (light og regular) fyrir merkingarverkefnið. Þá sérstaklega til þess að geta aðgreint íslensku og ensku en einnig til þess að útlitið yrði ekki of einsleitt. Það var margt sem þurfti að aðlaga þegar ég fór að samræma vigtirnar og þurfti sífellt að endurmeta ýmis hönnunaratriði. Að sama skapi uppgötvaði ég mikilvægi þess að hanna fleiri vigtir til að komast að endanlegri niðurstöðu um útlit letursins. Þegar einungis er unnið með eina vigt eru færri svipbrigði til staðar og ekkert til að bera vigtina saman við.“

Atli Bollason, sýningarstjóri á útskriftarsýningu Listaháskólans í fyrra og leiðbeinandi Simonar í lokaverkefninu kveðst spenntur að sjá verkefnið í raun.

„Letur snúast ekki bara um fegurð. Simon gerði í sínu lokaverkefni grein fyrir því hvernig rétt leturhönnun getur líka verið spurning um umferðaröryggi og skýra upplýsingamiðlun. Ég hlakka til að sjá letrið í notkun uppi um fjöll og firnindi.“

Undir það tekur Simon „Ég er afar spenntur fyrir því að sjá letrið birtast víða í náttúru Íslands. Hvort ég sé fullkomlega sáttur með útkomuna er spurning sem ég get ekki svarað fyrr en ég sé það í sínu raunverulega umhverfi — en hingað til hef ég verið afar ánægður með ferlið og afurðina.“

Nýtt merkingarkerfi fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði frá hönnunarteyminu Kolofon&co verður kynnt í lok mánaðar.

honnunarmidstod
Dagsetning
12. apríl 2021
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Grafísk hönnun
  • Góðar leiðir