Félag íslenskra teiknara
Tilgangur Félags íslenskra teiknara er að gæta hagsmuna teiknara á sviði grafískrar hönnunar, auglýsinga- og myndskreytinga. Félaginu er ætlað að efla og styrkja atvinnugreinina með faglegri fræðslu, sýningum o.fl. Félagið veitir félagsmönnum sínum aðstoð við fagleg og lögfræðileg atriði og gætir réttinda félagsmanna sinna.
Hafa samband
Fylgstu með okkur á samfélagsmiðlum
Facebook
Instagram
Atli Már Árnason
Dóra Ísleifsdóttir
Atli Már Árnason var fæddur í Reykjavík. Hann fór árið 1937 til Kaupmannahafnar í Kunsthåndværkerskolen og lauk þaðan prófi í auglýsingateiknun 1940. Að námi loknu vann hann á Auglýsingastofu KRON en stofnaði eigin auglýsingastofu 1948 ásamt Ásgeiri Júlíussyni (einnig stofnfélagi í FÍT), sem hann rak í áratugi. Atli Már kenndi fríhendisteikningu og fagteikningu bókagerðarmanna um skeið við Iðnskólann í Reykjavík. Eftir hann liggur mikið starf á sviði grafískrar hönnunar. Atli Már fékkst frá upphafi starfsferils síns sem teiknara jafnframt við að mála. Hann sneri sér nær alfarið að listmálun tæplega fimmtugur að aldri og vann að list sinni til dauðadags.
Dóra Ísleifsdóttir útskrifaðist með BA (jafngildi) í grafískri hönnun frá MHÍ (nú LHÍ) og MA í hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá HÍ. Hún hefur lengst af starfað sem hönnuður, hugmyndamaður og ráðgjafi og unnið á fjölda auglýsingastofa við ólík störf sem og rekið eigin auglýsingastofu, Fastland, ásamt Þorvaldi Sverrissyni. Hún hefur verið prófessor í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands til margra ára, fagstjóri og höfundur meistaranáms í hönnun og verið kennari við LHÍ í hartnær tvo áratugi og sá einnig um inntöku í grafíska hönnun frá 1999 til 2011. Dóra hannaði og kenndi námskeiðið Ritstjórn og hönnun prentgripa frá 2011 til 2016 á Hugvísindasviði í Íslensku- og menningardeild í HÍ þar sem markmiðið er að auka skilning og samstarf textafólks og hönnuða auk þess að auka gæði í hönnun prentgripa á Íslandi. Dóra starfar nú við Háskólann í Bergen.
Friðrika Gunnlaug Geirsdóttir
Gísli Baldvin Björnsson
Friðrika Gunnlaug Geirsdóttir var í stjórn Félags íslenskra teiknara og félagsins Íslensk grafík. Að loknu stúdentsprófi nam hún í Danmörku þar sem hún lauk prófi 1962. Friðrika nam heimspeki við Háskóla Íslands og myndlist við Myndlistaskólann í Reykjavík. Hún kenndi við Myndlista- og handíðaskólann 1966-85 og 1995-99 og var deildarstjóri í grafískri hönnun 1986-95. Þá kenndi hún í LHÍ 1999-2000. Friðrika var gerð heiðursfélagi FÍT árið 2003. Friðrika starfar í listakvennahópnum „Tákn og teikn“.
Gísli Baldvin Björnsson er fæddur árið 1938 í Reykjavík. Hann var nemandi í Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1956-59 í nýrri deild sem fékk hafnið Hagnýt myndlist. Hann stundaði framhaldsnám við Listaakademíuna í Stuttgart, Þýskalandi árin 1959-61. Gísli stofnaði og stýrði Auglýsingadeild við MHÍ (undanfara deildar „Grafísk hönnun“), var deildarstjóri 1962-73 og aftur 1976-87. Hann var skólastjóri MHÍ 1973-75, sinnti kennslu þar og síðan við Listaháskóla Íslands til ársins 2012. Gísli var lengi í stjórn FÍT og formaður 1970-71. Hann var stofnandi og í stjórn Myndstefs fyrir hönd teiknara 1991-95 og endurskoðandi 1995-2011.
Halla Helgadóttir
Haukur Már Hauksson
Halla Helgadóttir útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Myndlistar- og handíðaskóla Íslands 1988, sem var fyrsti árgangur sem útskrifaðist með starfsheitið grafískur hönnuður. Eftir útskrift var Halla ráðin til starfa hjá auglýsingastofunni Svona gerum við og síðar á Íslensku auglýsingastofunni. Haustið 1990 stofnaði hún ásamt þrem félögum hönnunarstúdíóið Grafít, sem síðar breyttist í auglýsingastofuna Fíton, en þar starfaði Halla sem grafískur hönnuður og stjórnandi í yfir 20 ár. Hún býr yfir víðtækri reynslu sem yfirhönnuður og skapandi stjórnandi og hefur á starfsferli sínum hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna. Halla sat í stjórn FÍT frá 1990-1998 og var fulltrúi félagsins í norrænu samstarfi grafískra hönnuða og myndskreyta „Nordiske Tegnere“ og var formaður þeirra samtaka árið 1997.
Haukur Már Hauksson er fæddur árið 1967. Hann nam í Bandaríkjunum í Bard College, Annandaleon-Hudson, NY og Brooks Institute of Photography, Santa Barbara, CA, og lærði grafíska hönnun í Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Haukur Már var í stjórn FÍT 2000-2007. Hann var varaformaður frá árinu 2001 og formaður frá 2004. Haukur kom á fót og sá um Hönnunarverðlaun FÍT 2001-2007 auk þess sem hann sat í stjórn Art Directors Club of Europe 2004-2007. Hann var í hópi þeirra sem stofnuðu Hönnunarmiðstöð Íslands, árið 2008, sem fulltrúi FÍT og sat í stjórn miðstöðvarinnar til ársins 2012, síðasta árið sem stjórnarmaður.
Hilmar Sigurðsson
Hörður Ágústsson
Hilmar Sigurðsson er fæddur árið 1938. Hann stundaði almennt myndlistarnám í Myndlista- og handíðaskólanum 1959-64 og útskrifaðist í fyrsta hópi úr auglýsingadeild skólans. Fór í framhaldsnám í Listaháskólann í Stuttgart í Þýskalandi (Staatliche Akademie der Bildende Künste) í almennri myndlist, grafískri hönnun og markaðsfræðum 1964-67. Hilmar kenndi við MHÍ 1967-70 og 1978-81, bæði á kvöldnámskeiðum og í Auglýsingadeild. Hann stofnaði Auglýsingastofuna Argus 1967 og rak hana í tæp 40 ár. Þar starfaði hann sem hönnuður, texta- og hugmyndasmiður auk þess að vera stjórnarformaður.
Hörður Ágústsson Hörður var fæddur 1922 og lést árið 2005. Hann stundaði nám við verkfræðideild Háskóla Íslands á árunum 1941-42, við Myndlista- og handíðaskólann 1941-43 og við Konunglega Listaháskólann í Kaupmannahöfn 1945-46. Eftir það var hann við nám og störf í París á árunum 1947-52. Hörður var kennari við Myndlistaskólann í Reykjavík 1953-59, við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1962-89 og skólastjóri hans 1968-72. Hann var einn af stofnendum og ritstjórum tímaritsins Birtings á árunum 1955-68. Hörður stundaði rannsóknir á sögu íslenskrar húsagerðar frá því snemma á sjöunda áratugnum og ritaði fjölda greina og bóka um ýmsa þætti íslensks byggingar- og myndlistararfs á innlendum og erlendum vettvangi. Hann átti þátt í stofnun Húsafriðunarnefndar og sat í henni 1970-95. Hann teiknaði og hafði umsjón með gerð Þjóðveldisbæjarins í Þjórsárdal 1974-77 og var formaður Hins íslenska fornleifafélags 1982-2001. Hörður var í hópi þekktustu myndlistarmanna landsins. Myndlistarverk hans voru sýnd á fjölda myndlistarsýninga, bæði einkasýningum, samsýningum og yfirlitssýningum, m.a. í Listasafni Íslands 1983 og á Kjarvalsstöðum 2005. Auk þess liggja eftir hann stórvirki á sviði húsagerðarlistar. Hann hlaut fjölda viðurkenninga fyrir störf sín, var m.a. sæmdur heiðursdoktors-nafnbót frá Háskóla Íslands 1991 og hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita, 1990 og 1998.
Hörður Lárusson
Kristín Þorkelsdóttir
Hörður Lárusson Hörður er fæddur 1979. Hann lauk námi með BA í grafískri hönnun úr Listaháskóla Íslands árið 2006. Hann starfaði á Vinnustofu Atla Hilmarssonar 2005-2012, síðan sem hönnunarstjóri/Art Director á Brandenburg auglýsingastofu 2012-2018 og samhhliða þessu hefur hann unnið verkefni sjálfstætt árin 2000-2018. Hann er einn af stofnendum hönnunarstofunnar Kolofon, sem hóf störf 2018. Hörður var í stjórnFÍTfrá 2005-2013, þar af formaður frá 2007. Hann sat í stjórn Art Directors Club of Europe 2007-2013. Eftir setu íFÍTtók hann sæti í stjórn Hönnunarmiðstöðvar og sat þar til ársins 2019, sem varaformaður frá 2015 og formaður frá 2016. Hann sat í stjórn SÍA 2016-2018, stjórn HönnunarMars 2015-2016 og situr í dag í dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands.
Kristín Þorkelsdóttir er fædd 1936. Hún hóf nám í myndlistadeild Myndlista- og handíðaskólans aðeins 15 ára gömul og útskrifaðist þaðan árið 1955. Á sumrin vann Kristín meðfram skólanum á teiknistofu Sveins Kjarvals. Á þriðja ári bætti hún við sig teiknikennaranámi og varð þá aðstoðarkennari Sverris Haraldssonar listmálara á kvöldnámskeiðum skólans. Kristín stofnaði auglýsingastofu með eiginmanni sínum, Herði Daníelssyni, og fékk stofan síðar nafnið AUK hf. Kristín starfaði við grafíska hönnun í áratugi og er hvað þekktust fyrir hönnun íslensku peningaseðlanna allt frá árinu 1981. Kristín hóf feril sinn sem vatnslitamálari árið 1984 og hefur einkum málað landslagstengdar myndir með ljóðrænu ívafi og einnig portrettmyndir. Kristín starfar einnig í listahópnum „Tákn og teikn“.
Torfi Jónsson
Guðmundur Oddur Magnússon
Torfi Jónsson er fæddur 1935. Hann stundaði nám við Tónlistarskólann og jafnframt því hóf hann nám við Myndlista- og handíðaskólann og lauk prófi þaðan. Torfi dvaldi í Hamborg um fimm ára skeið og lauk prófi frá listaakademíunni þar. Torfi sá um allar auglýsingar fyrir vörumerkin Nivea, Atrix, Baby Fine og Tesa í samvinnu við þýska auglýsingafyrirtækið Bayers í Hamborg. Hann starfaði einnig mikið fyrir Loftleiðir. Torfi hefur verið meðlimur í Félagi íslenskra teiknara frá 1963 og hóf kennslu við Auglýsingadeild Myndlista- og handíðaskólann veturinn 1963-64, þá nýkominn frá Þýskalandi. Þar kenndi hann þar til hann varð skólastjóri MHÍ frá 1982-86.
Guðmundur Oddur Magnússon - Goddur er fæddur árið 1955. Hann stundaði nám í myndlist við Myndlista- og handíðaskólann 1976-79 bæði við grafík- og nýlistadeild. Hann hóf nám í grafískri hönnun við Emily Carr University of Art & Design í Vancouver, Bresku Kólumbíu í Kanada og útskrifaðist þaðan 1989. Hann stofnaði deild í grafískri hönnun við Myndlistaskólann á Akureyri 1992 og kenndi við þá deild í þrjú ár. Árið 1995 tók hann við stöðu deildarstjóra grafískrar hönnunar við Myndlista- og handíðaskóla Íslands i þeim tilgangi að kenna grafíska hönnun í tölvuumhverfi. Hann tók þátt í stofnun og uppbyggingu Listaháskóla Íslands og var fagstjóri í grafískri hönnun frá byrjun þar til hann var skipaður fyrsti prófessor við nýstofnaða hönnunar- og arkitektúrdeild skólans árið 2002, þar sem hann starfar enn. Goddur hefur verið sýningastjóri og tekið þátt í sýningarhaldi víða um heim og haldið námskeið og fyrirlestra. Hann hefur stýrt Masters-class námskeiði á Seyðisfirði og situr í stjórn Lunga listalýðháskólans á Seyðisfirði. Hann hefur skrifað fjölda greina um hönnun og myndlist, og var um tíma myndlistargagnrýnandi hjá Ríkisútvarpinu Rás 2 og Fréttablaðinu. Hann hefur unnið að þáttagerð um sjónmenntir, Djöflaeyjuna fyrir Ríkissjónvarpið síðan 2011. Goddur er fyrst og fremst sérfræðingur í myndmálsnotkun og sögu grafískrar hönnunar á Íslandi. Fræðimennska hans snýr að íslenskum myndmálsarfi.
Þröstur Magnússon
Þröstur Magnússon er fæddur 1943. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1962-65 og við Konstindustriskolan í Gautaborg 1965-67. Þröstur stofnaði, ásamt Hilmari Sigurðssyni, auglýsingastofuna Argus árið 1967 og starfaði þar til ársins 1971 þegar hann hóf rekstur hönnunarstofu undir eigin nafni. Þröstur hefur komið að fjölbreyttum hönnunarverkefnum m.a. hönnun bóka og bókakápa, en meðal stærri fyrirtækja sem hann vann fyrir má nefna Eimskip, Sambandið og Olíuverslun Íslands hf. Hann vann að margvíslegum verkefnum fyrir Seðlabankann í meira en þrjátíu ár og er hönnuður íslensku myntarinnar og allnokkurra minnispeninga sem bankinn lét slá á þessu tímabili.