Arkitektafélag Íslands og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs á UIA2023

10. júlí 2023
Norræni skálinn í Bella center á UIA ráðstefnunni í Kaupmannahöfn

Arkitektafélag Íslands, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við norrænu arkitektafélögin, Sustainnordic og Nordic Sustainable Construction (Norræna ráðherranefndin) stóðu saman að Norræna skálanum á arkitektaráðstefnunni UIA2023 sem fram fór 2.-6. júlí síðastliðinn. Norræni skálinn var tvískiptur, annars voru haldnar tvær sýningar á skjáum við skálinn og hinsvegar fóru fram samtöl, umræður og samtöl í þema ráðstefnunnar, að vinna að framtíð sem er bæði félagslega sjálfbær og umhverfislega endurnýjanleg.

Norræni skálinn var staðsettur í Bella Center, ráðstefnusal í Kaupmannahöfn, en þar fór ráðstefnan öll fram. Sýningarnar voru annarsvegar Design in Nature og hinsvegar New Nordic Architecture for the Future. Verkefnið Design in Nature var unnið á árunum 2018-2021 af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs með Önnu Maríu Bogadóttur, arkitekt, í forsvari verkefnisins. Á sýningunni New Nordic Architecture for the Future átti Ísland þjú verkefni. Þau eru Lava forming, eftir Arnhildi Pálmadóttur; BioBuilding eftir Ludika arkitekta og Guðlaug eftir Basalt arkitekta.

Dagskráin í skálanum var sneisafull af spennandi erindum og umræðum allan daginn. Arkitektafélag Íslands og Miðstöð hönnunar og arkitektúrs tóku virkan þátt í dagskránni og sérstaklega á miðvikudeginum, þegar skálinn var meira og minna undirlagður Íslendingum.

Hér má kynna sér dagskrá skálans en mánudaginn 3. júlí kynnti Arnhildur Pálmadóttir, verkefnið sitt Lava forming. Þriðjudaginn 4. júlí, um morguninn, tók Arnhildur Pálmadóttir þátt í panel um hlutverk leiðtogans á okkar tímum, Regenerative Leadership, og í eftirmiðdaginn stóðu Kristján Örn Kjartansson og Kristján Eggertsson fyrir málstofu með heitinu: "The Politics of architectural quality in a time of (housing) crisis". Þar tóku meðal annars Andri Snær Magnason og Halla Helgadóttir þátt í panel ásamt Lailu Kildesgaard, Sinus Lynge og Mikkel Schlesinger. Miðvikudagurinn 5. júlí byrjaði með þremur samtölum undir stjórn Önnu Maríu Bogadóttur um hönnun í náttúrunni undir heitunum: Building in the Wilderness-A Paradox?; Doing less as a design strategy-is that an option? og Orientation or Disorientation. Þar á eftir kom pallborð með heitinu Visions fro the future of Architecture-A dialogue from four perspectives: Politital, Organizational, Professional, Educational. Þar áttum við þrjá fulltrúa, Sigríði Maack, formann AÍ, Önnu Maríu Bogadóttir, sem fulltrúi LHÍ og Kristján Örn Kjartansson, sem fulltrúi arkitektastéttarinnar. Í eftirmiðdaginn átti síðan Halla Helgadóttir sviðið ásamt norrænum kollegum þegar þau kynntu nýjan norrænan vettvang um græn umskipt með hönnun og arkitektúr í fararbroddi.

Ljósmyndir úr Norræna skálanum

Dagsetning
10. júlí 2023
Höfundur
Gerður Jónsdóttir

Tögg

  • Arkitektúr