Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt hlaut viðurkenningu fyrir frumkvöðlastarf í mannvirkjagerð

31. ágúst 2023
Arnhildur Pálmadóttir arkitekt og Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.

Arnhildur Pálmadóttir arkitekt hlaut í gær viðurkenningu sem frumkvöðull í mannvirkjagerð á húsnæðisþingi en það var Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, sem færði Arnhildi viðurkenninguna. Þetta er í fyrsta sinn sem viðurkenning af þessu tagi er veitt fyrir frumkvöðlastarf í mannvirkjagerð í tengslum við húsnæðisþing.

Í mati dómnefndar segir: „Arnhildur hefur sýnt eftirtektarverðan kraft, framsækni, frumkvæði og árangur á sviði vistvænnar mannvirkjahönnunar. Arnhildur hefur slegið nýjan tón í íslenskri mannvirkjahönnun með framsækinni hringrásarhugsun og kom hún m.a. á samstarfi við fremsta hringrásarhönnuð Norðurlandanna, Lendager group. Að auki hefur hún verið óeigingjörn við að deila reynslu sinni, kynna og ræða vistvæna mannvirkjagerð í fjölmiðlum og kynningarfundum af ýmsu tagi.

Arnhildur hefur hannað hús sem hafa hátt í 50% minna kolefnisspor en aðrar sambærilegar byggingar og nýverið var tillaga hennar og Lendager að borgarþróun Veðurstofureitsins valin og er nú unnið að henni. Hverfið sem þar mun rísa er hannað með náttúrulegum, lífrænum efnum og staðbundnum úrgangsefnum sem safnað er saman á höfuðborgarsvæðinu.

Húsnæðisþing fór fram á Nordica í gær en það er á vegum innviðaráðuneytisins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) undir yfirskriftinni „Heimili handa hálfri milljón“. Arnhildur flutti erindi á þinginu.

Dagsetning
31. ágúst 2023
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Arkitektúr