Hönnunarverðlaun Íslands 2023 - opið fyrir ábendingar

17. ágúst 2023

Búið er að opna fyrir ábendingar til Hönnunarverðlauna Íslands 2023 og hægt er að benda á eigin verk eða annarra til miðnættis 6. september næstkomandi. Markmið með innsendingum er að tryggja að afburða verk fari ekki fram hjá dómnefnd og því hvetjum við eigendur góðra verka til þess að tilnefna eigin verk. 


Hönnunarverðlaun Íslands verða veitt í tíunda sinn í ár og í tilefni af því hefur verðlaunaflokkum verið fjölgað í þrjá undir heitunum Vara // Staður // Verk. 

Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2023 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun.

Hönnunarverðlaunin hafa frá upphafi verið veitt þvert á ólíkar greinar hönnunar og arkitektúrs. Með því að fjölga verðlaununum skapast tækifæri til að verðlauna ólíkar áherslur og um leið fjölga tilnefningum og verðlaunahöfum. Breytingin er unnin í nánu samstarfi við bakland Miðstöðvarinnar. 

Hönnunarverðlaun Íslands 2023 - flokkar

Vara no. kvk. varningur sem er framleiddur og gengur kaupum og sölum*

Með verðlaunaflokknum vara er kallað eftir framúrskarandi hönnuðum verkefnum sem hafa verið framleidd. Til greina koma margvíslegir hlutir úr ólíkum efnum, flíkur, húsgögn, prentgripir, leir, textíll, skart eða þjónusta.

Staður no. kk. staðsetning í rúmi þar sem eitthvað er*

Með verðlaunaflokknum staður er kallað eftir framúrskarandi hönnuðum verkefnum sem eiga sér sinn stað í rúmi. Til greina koma fjölbreytileg rými, byggingar, hverfi, torg, garðar og áningarstaðir. 

Verk no. hk. eitthvað sem unnið er eða framkvæmt, viðfangsefni, iðja*

Með verðlaunaflokknum verk er kallað eftir framúrskarandi hönnuðum verkefnum sem hafa verið framkvæmd. Til greina koma margvíslegar hugmyndir, miðlun, upplifun, sýningar og lausnir.

*Íslensk nútímamálsorðabók. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Hönnunarverðlaun Íslands verða veitt hönnuði, arkitekt, hönnunarteymi eða stofu fyrir framúrskarandi nýleg verkefni. Við val á verðlaunahöfum er verið er að leita að verkefnum sem skara fram úr og geta staðið sem fulltrúar þess besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs. Verkefnin þurfa að endurspegla gæði og vera áhrifarík, fela í sér frjóa hugsun, snjalla lausn, vandaða útfærslu, áherslu á fagurfræði og fagmennsku í vinnubrögðum. Einnig er horft til hvort verkefnin séu notendavæn, nýskapandi og hafi jákvæð áhrif á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni.  

Að auki verða veitt Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands og viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun. 

Besta fjárfesting í hönnun er viðurkenning veitt fyrirtæki sem hefur hönnun og arkitektúr að leiðarljósi í starfsemi sinni til að auka gæði, verðmætasköpun og samkeppnishæfni. Öll fyrirtæki sem starfa á Íslandi koma til greina.

Heiðursverðlaun er viðurkenning veitt einstaklingi sem hefur náð einstökum árangri í starfi, verið mjög áhrifamikill á sínu fagsviði eða hefur skilað framúrskarandi ævistarfi á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi. 

Hönnunarverðlaun Íslands 2023 fara fram þann 9. nóvember í Grósku.

Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. 

Hönnunarverðlaun Íslands beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning.

Á næstu dögum munum við tilkynna hverjir skipa dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands 2023. Fylgstu með! 

Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn ÍslandsListaháskóla ÍslandsÍslandsstofu og Samtök iðnaðarins.

Dagsetning
17. ágúst 2023
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Hönnunarverðlaun Íslands