„Blokkin sem breytir um lit“ Tvíhorf arkitektar hljóta umhverfisviðurkenningu Kópavogsbæjar 2020

27. ágúst 2020

Tvíhorf arkitektar ásamt ÁF-hús byggingarverktaka hlutu viðurkenningu Umhverfis- og samgöngunefndar Kópavogsbæjar fyrir hönnun og fráganga fjölbýlishússins að Álalind 14.

Byggingin, sem staðsett er í hinu nýja Glaðheimahverfi Kópavogs, samanstendur af 40 íbúðum á 10 hæðum auk jarðhæðar og kjallara. Frá upphafi hönnunarferlisins lögðu arkitektar áherslu á að byggingin framkallaði óvænta og síbreytilega upplifun þess sem á hana horfir, hvort sem er úr fjarlægð eða nálægð. Er það m.a. gert með markvissu samspil málm- og viðarklæðninga sem ljá byggingunni nútímalegt og vandað yfirbragð. Þrítóna litur álklæðningarinnar breytist eftir sjónarhorni frá bleik-fjólubláum úr grábláum í grænan lit. Þessi fjöruga litabreyting kallast svo á við hlýlega og stöðuga efniskennd viðarins sem umlykur svalir íbúða. Svalir eru formaðar á tvennskonar hátt og skjótast sitt á hvað út úr húshliðum eins og trjágreinar á þykkum trjábol. Með þessu móti fanga þær enn meiri birtu og gefa íbúanum tilfinningu um aukinn glæsileika ásamt því að spila stórt hlutverk í markvissu uppbroti á formgerð byggingarinnar.

Tvíhorf arkitektar fagna um þessar mundir 10 ára afmæli og horfa á þeim tímamótum yfir farsælan og lærdómsríkan hönnunarferil. Á verkefnaskránni eru fjöldi verkefna af mismunandi stærðargráðum allt frá nettum einbýlis- og frístundahúsum í fjölbýlishús af mismunandi stærðum og gerðum.

Teiknistofan samanstendur af fjölbreyttum hópi arkitekta með marga og ólíka styrkleika, en með eitt og sama markmið; að skapa arkitektúr þar sem hugmyndaauðgi, metnaður, gæði, virðing fyrir náttúru og nýsköpun mynda órjúfanlega heild. Frá upphafi starfsferilsins hefur verið lögð rík áhersla á uppbyggilegt og náið samtal við verkkaupa til þess að skilgreina tilgang og þarfir notandans og framkalla hönnun sem svarar þeim á sem bestan hátt. Að auki er ríkt og gefandi samstarf við aðra sérfræðinga og framkvæmdaaðila lykillinn að velheppnaðri og endingargóðri byggingu.

tvihorf_arkitektar
Framkvæmdir eru langt á veg komnar við fjölbýlishúsið sem við hönnuðum í Álalind í Glaðheimahverfinu í Kópavogi. Svalir eru ólíkar milli hæða og því myndast skemmtileg hreyfing í útliti hússins. Einnig er húsið klætt með sanseraðri klæðningu sem grípur birtuna fallega. Sjá meira um hverfið og link inn á sölusíðu hússins á www.gladheimahverfid.is Myndin er frá Onno. #glaðheimar #tvíhorf #arkitektar
tvihorf_arkitektar
Útsýnið af svölunum í húsinu okkar í Glaðheimunum er satt best að segja lygilegt. #svalir #glaðheimar #constructionsite
Dagsetning
27. ágúst 2020
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Arkitektúr