Gagarín hlýtur SEGD hönnunarverðlaunin fyrir stafrænan vefstól

19. ágúst 2020

Hönnunarstofan Gagarín hlaut nýverið SEGD hönnunarverðlaunin fyrir gagnvirkt sýningaratriði sem hún hannaði fyrir fornleifa og sögusafnið Pointe-à-Callière í Montreal, Kanada. Gagarín hannaði stafrænan vefstól fyrir sýninguna sem kallast Weaving Time og færir gestina nær handverki Inkanna.

„Þetta er auðvitað frábær árangur sem á eftir að vekja athygli á okkur erlendis og svo er þetta gríðarlega mikill heiður líka. Í raun staðfesting á því að það sem við erum að gera sé á pari við það besta sem er að gerast í þessum bransa úti í heimi,“ segir Kristín Eva Ólafsdóttir, hönnunarstjóri og einn eigenda Gagarín hönnunarstofu í samtali við Hús & Híbýli

Stafræni vefstólinn úr smiðju Gagarín.

Í viðtalinu við Kristínu kemur einnig fram að sökum ástandsins hafi þau ekki séð lokaútkomuna með eigin augum ennþá en allir fundir og vinna hafi farið fram með rafrænum hætti.

SEGD, eða The Society for Experential Graphic Design, samanstendur af 2.200 félagsmönnum frá um þrjátíu löndum og eru þverfagleg alþjóðasamtök sýningahönnuða, arkitekta, grafískra hönnuða, markaðsfólks og kennara. Alls tóku 340 aðilar þátt í samkeppninni í ár og að sögn Kristínar Evu vann Gagarín í flokknum gagnvirkar innsetningar. Í umsögn dómnefndar segir að oft séu stafrænar innsetningar framsettar með snertiskjám og tölvum en hér sé á ferðinni „virkilega skemmtilegt áþreifanlegt notendaviðmót sem fær gesti til að upplifa vefnað á raunverulegan hátt þar sem gestir eru hvattir til að gefa sér tíma til að setja saman táknmyndir Inka í eigin vefnað.“

Dagsetning
19. ágúst 2020

Tögg

  • Greinar
  • Grafísk hönnun
  • Stafræn hönnun