Miðstöð hönnunar og arkitektúrs flytur í Grósku - nýtt hugmyndahús í Vatnsmýrinni

18. ágúst 2020

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs flytur starfssemi sína í Grósku, nýtt frumkvöðla - og sprotasetur Vísindagarða Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni. 

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs flytur í haust í Grósku og verður með starfsemi sína í nýju frumkvöðla- og sprotasetri sem opnar á fyrstu hæð hússins, í sambýli við Icelandic Startups, Ferðaklasann, Auðnu tæknitorg og Vísinda- og nýsköpunarsvið Háskóla Íslands. 

Í húsinu eru höfuðstöðvar CCP og fjöldi öflugra fyrirtækja og fjárfestar. Þar er einnig aðstaða fyr­ir ýmsa þjón­ust­u­starf­semi og ráðstefn­ur, auk þess sem skapandi ein­yrkj­um og fyr­ir­tækj­um í ný­sköp­un, þróun og rann­sókn­um gefst kost­ur á að vera með aðstöðu í hús­inu. 

Hönnun hússins er í höndum Andrúm arkitekta í samstarfi við DKPitt arkitekta.

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs leggur aukna áherslu á hönnunardrifna nýsköpun sem stuðlar að verðmætasköpun og betra samfélagi. Markmiðið er að íslensk fyrirtæki og stjórnvöld telji sjálfsagt að nýta sér hönnun sem aðferð og tæki í nýsköpun til að ná fram breytingum í þágu lífsgæða, umhverfis og atvinnulífs. Það er einstakt tækifæri fyrir okkur að flytja starfsemina í hina glænýju Grósku og tryggja þar með að hönnun og arkitektúr verði sjálfsagður hluti af því framúrskarandi samfélagi frumkvöðla og nýsköpunar.

Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs

Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs og Hrólfur Jónsson, framkvæmdastjóri Vísindagarða við undirskrift á samningnum, með tvo metra á milli. 

Í setrinu viljum við byggja upp framúrskarandi samfélag frumkvöðla með áherslu á að tengja saman viðskipti, tækni og skapandi greinar. Nálægð við háskóla, Landspítala og mörg helstu nýsköpunarfyrirtæki landsins veitir einstakt tækifæri til tilrauna, þekkingarflæðis og verðmætasköpunar,“ segir Sigurður Magnús Garðarsson, stjórnarformaður Vísindagarða HÍ.

Ert þú frumkvöðull eða sproti og vantar aðstöðu? Búið er að opna fyrir umsóknir til að leigja borð og aðstöðu í húsinu. Á setrinu verður bæði hægt að leigja opin borð og stærri rými sem eru hugsuð fyrir lengra komin nýsköpunarfyrirtæki sem vinna í teymum. Innifalið í leigu er aðstaða í fundarherbergjum, setustofum og fyrirlestrarýmum setursins.

Dagsetning
18. ágúst 2020
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

  • Greinar
  • Gróska
  • Miðstöð hönnunar og arkitektúrs